Hagsjá: Mikil hækkun launavísitölu í apríl – opinberi markaðurinn kominn inn aftur
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitalan um 3,3% milli mars og apríl. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 6,8%, sem er mun meiri ársbreyting en verið hefur síðustu mánuði. Árshækkunartaktur launavísitölunnar var rúmlega 4% allan seinni hluta ársins 2019, en var u.þ.b. 6% í upphafi ársins 2019.
Ástæður mikillar hækkunar launavísitölunnar í apríl er bæði að finna á almenna markaðnum og þeim opinbera. Á almenna markaðnum var um að ræða áfangahækkun launa þann 1. apríl og í mars var gerður fjöldi samninga á opinbera markaðnum, m.a. hjá aðildarfélögum BSRB.
Þar sem verðbólga hefur verið lítil þýða þessar miklu launabreytingar að kaupmáttur tók stökk upp á við. Kaupmáttur launa jókst þannig um 2,8% milli mars og apríl og var 4,5% meiri nú í apríl en í apríl í fyrra. Sú staða er reyndar mjög athyglisverð í ljósi þess að hallað hefur verulega undan fæti í efnahagslífinu.
Í þessu sambandi er mikilvægt að halda því til haga að launavísitölunni er ætlað að sýna launabreytingar fyrir fastan vinnutíma þannig að breytingar á vinnutíma hafa almennt ekki áhrif á vísitöluna. Með öðrum orðum á launavísitalan að endurspegla verðbreytingu vinnustundar fyrir fastan vinnutíma. Breytingar á reglulegum aukagreiðslum eins og álags- og bónusgreiðslum sem eru gerðar upp með reglulegum launagreiðslum koma beint inn í launavísitölu en vinnutímabreytingarnar ekki. Launavísitalan er því ekki góð aðferð til þess að mæla tekjuþróun. Í því samhengi fer betur á að skoða t.d. vísitölu heildarlauna, þar sem breytingar á vinnutíma fólks koma inn í myndina. Þá gefa breytingar á atvinnutekjum eða ráðstöfunartekjum einnig góða mynd af tekjuþróun í samfélaginu, en upplýsingar um þær stærðir eru yfirleitt seint á ferðinni.
Í kjarasamningum allra síðustu ára hefur í talsverðum mæli verið samið um styttingu vinnutíma. Slík ákvæði eru mismunandi en geta haft áhrif á launavísitölu ef þau eru ígildi launabreytinga. Sömu greiðslur fyrir styttri vinnutíma hækka verð á hverri vinnustund. Nokkrar svona breytingar í kjarasamningum tóku gildi um síðustu áramót. Frá nóvember 2019 fram til apríl 2020 hækkaði launavísitalan um 4,8% og er mat Hagstofunnar að 0,7% þeirrar breytingar hafi komið til vegna vinnutímastyttingar. Launavísitalan hefði því hækkað um 4,1% á þessu tímabili hefði vinnutímastytting ekki komið til.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá febrúar 2019 fram til febrúar 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,7% á þessum tíma á meðan þau hækkuðu um 2,9% á þeim opinbera. Mæld launavísitala hækkaði um 4,8% á sama tíma.
Þessar tölur ná einungis til febrúar í ár og er ljóst að frá og með apríl 2020, þegar áhrif kjarasamninga á almenna markaðnum koma að fullu inn í launavísitöluna, mun þessi munur sem myndast hefur á milli almenna og opinbera markaðarins fara að renna aftur í eðlilegt horf.
Þann 1. apríl varð áfangahækkun í mörgum kjarasamningum á almenna markaðnum og komu þær til framkvæmda um síðustu mánaðamót fyrir þá sem fá laun greidd eftir á. Í mars náðust kjarasamningar fyrir meginþorra opinberra starfsmanna. Launabreytingar hafa því verið miklar að undanförnu og sýnist sumum nóg um. Næsta áfangahækkun í flestum kjarasamningum á almenna markaðnum verður þann 1. janúar 2021 og sama gildir um meginþorra opinberra starfsmanna.
Gangi þessar hækkanir eftir má vænta þess að kaupmáttur haldi áfram að aukast þar sem reiknað er með tiltölulega lítilli verðbólgu. Í því sambandi ber að hafa í huga að kaupmáttur launavísitölu getur verið fjarri þeim raunveruleika sem gildir í samfélaginu á tímum atvinnuleysis og minnkandi tekna.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Mikil hækkun launavísitölu í apríl – opinberi markaðurinn kominn inn aftur (PDF)