Samantekt
Fjárfesting í sjávarútvegi nam 36,9 ma. kr. í fyrra borið saman við 23,1 ma. kr. árið 2016 og nam aukningin því 13,9 ma. kr. eða 60%. Tölur Hagstofunnar um fjárfestingu ná allt aftur til ársins 1990 og hefur fjárfesting í sjávarútvegi ekki áður mælst svo mikil. Fyrra met var árið 1997 þegar fjárfesting nam 28,9 ma. kr.
Mikil fjárfesting síðustu 3 ár
Fjárfesting í sjávarútvegi skiptist í tölum Hagstofunnar í annars vegar fiskveiðar og hins vegar fiskvinnslu. Fjárfestingar í fiskveiðum voru töluvert meiri en fjárfestingar í fiskvinnslu í fyrra. Þannig nam fjárfesting í fiskveiðum 25,1 ma. kr. en fjárfesting í vinnslu nam 11,9 ma. kr. Fjárfesting í fiskveiðum hefur ekki áður mælst jafn mikil eins og á síðasta ári en fyrra metár var árið 2015 þegar fjárfestingin nam 16,5 ma. kr. Sögulega séð var einnig töluvert mikil fjárfesting árið 2016 þegar hún nam 12,7 ma. kr. Samanlögð fjárfesting í fiskveiðum nemur því 54,3 ma. kr. á síðustu þremur árum. Það er svipuð fjárfesting og samanlögð fjárfesting síðustu 13 ár þar á undan. Samanlögð fjárfesting í fiskvinnslu á síðustu þremur árum nemur 32,2 ma. kr. Sögulega séð er hægt að tala um fjárfestingarkúf að þessu leyti en leita þarf aftur til áranna 1997-1998 til að finna meiri fjárfestingu á svo stuttum tíma. .