Samantekt
Vísitala fyrirhugaðra stórkaupa lækkaði milli mælinga í mars og hefur ekki mælst lægri síðan í desember 2014. Vísitalan er byggð á könnun Gallup á væntingum neytenda og tekur mið af fyrirhuguðum bifreiðakaupum, húsnæðiskaupum og utanlandsferðum. Talsvert minni líkur eru taldar á utanlandsferðum nú, samanborið við stöðuna fyrir ári síðan, bílakaup eru talin örlítið ólíklegri, en líkur á húsnæðiskaupum eru örlítið meiri.
Hlutfall svarenda í könnuninni sem áforma utanlandsferðir á árinu er svipað nú og um mitt ár 2014. Brottfarir Íslendinga um Leifsstöð voru 215 þúsund talsins á seinni helmingi árs 2014, en til samanburðar 304 þúsund talsins á seinni hluta árs 2019.
Gangi þessar væntingar eftir gætu utanlandsferðir dregist saman um 30% milli ára á seinni hluta árs. Það yrði í takt við spá Alþjóðaferðamála-stofnunarinnar (e. World Tourism Organization) sem spáir því að utanlandsferðir á heimsvísu dragist saman um 20-30% milli ára í ár vegna Covid-19 faraldursins.
Samkvæmt könnun Gallup eru landsmenn ögn líklegri nú en undir lok síðasta árs til þess að fara út í bílakaup, en þó eru líkurnar aðeins minni en í mars fyrir ári síðan. Á síðustu árum hafa nýskráningar fólksbifreiða dregist saman og tekið ákveðnum breytingum í átt að auknu vægi vistvænni bíla. Þessi þróun virðist halda áfram, en á fyrsta fjórðungi ársins voru 10% færri bílar nýskráðir en fyrir ári síðan.
Við höfum greint frá því að vænta mætti rólegri tíðinda af húsnæðismarkaði næstu mánuði meðan samkomubann ríkir, en samkvæmt mælingum Gallup virðast landsmenn þó engu að síður huga að fasteignakaupum.