Samantekt
Við greindum frá því fyrr í vikunni að vísbendingar væru um að jólaverslunin færi vel af stað þar sem kortavelta Íslendinga jókst milli ára í nóvember bæði innanlands og erlendis, samkvæmt gögnum Seðlabankans. Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) greinir síðan innlenda kortaveltu nánar eftir útgjaldaliðum og þá sést að kortavelta jókst hlutfallslega mest milli ára í þeim flokkum sem teljast til menningar-, afþreyingar- og tómstundastarfsemi, alls um 9% milli ára að raunvirði.
Aukning í kortaveltu var einnig áberandi á meðal þeirra liða sem teljast til veitingastarfsemi, en kortavelta var 6% meiri þar í nóvember í ár en í fyrra, miðað við fast verðlag. Það má því draga þá ályktun að Íslendingar hafi verið duglegri að fara út að borða og njóta samverustunda á tónleikum eða öðrum viðburðum núna í nóvember samanborið við nóvember í fyrra. Jafnvel má gera því skóna að fólk sé í auknum mæli að gefa slíkar upplifanir í jólagjöf.
Íslendingar eru þó ekki alfarið að gefa upplifanir í jólagjöf, því kortavelta í verslunum jókst einnig milli ára í nóvember. Rúmlega helmingur af allri kortaveltu fór fram í verslunum og er velta í stórmörkuðum og dagvöruverslunum þar fyrirferðamest, um 40% af allri veltunni, og jókst um 6% að raunvirði á milli ára.
Íslendingar virtust einnig duglegir að kaupa sér ný föt fyrir jólin og jókst kortavelta í fataverslunum hlutfallslega mest allra stærstu undirliða verslunar í nóvember, alls um 10% milli ára. Velta í áfengisverslunum jókst einnig talsvert samanborið við nóvember í fyrra, eða um 9% að raunvirði.