Hagsjá: Hagtölur sýna sterkan vinnumarkað en væntingar stjórnenda neikvæðar
Samantekt
Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar er áætlað að 207.500 manns hafi verið á vinnumarkaði í janúar 2019, sem jafngildir 81,9% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 201.400 starfandi og 6.100 atvinnulausir. Atvinnuleysi var því 2,9% af mannafla, sem var svipað og í október og nóvember, en mun meira en var í desember.
Starfandi fólk var tæplega átta þúsund fleira nú í janúar en í janúar 2018. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal er enn nokkuð stöðug aukning á starfandi fólki. Á þann mælikvarða voru um 4.300 fleiri starfandi í janúar 2019 en í janúar 2018. Atvinnuþátttaka í janúar var 81,9% en var 81,5% í janúar 2018, þannig að atvinnuþátttaka jókst um 0,4 prósentustig milli ára.
Vikulegar vinnustundir voru að jafnaði 38,2 í janúar og hafði fækkað um 0,2 á einu ári. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn í janúar 0,1 stund lengri en var í janúar 2018 og hefur hann verið mjög stöðugur á þann mælikvarða allt síðasta ár.
Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman jókst vinnuaflsnotkun nær samfellt á árinu 2018. Aukningin milli ára var mikil frá ágúst til nóvember, nokkuð minni í desember, en jókst svo aftur í janúar 2019. Aukning vinnuaflsnotkunar, eða fjölda unninna vinnustunda, er jafnan talin merki um gott gengi í hagkerfinu. Sé litið á breytinguna milli janúarmánaða 2018 og 2019 jókst vinnuaflsnotkun um 3,5%. Fjöldi starfandi jókst um 4% milli ára, en vinnustundum fækkaði um 0,5%.
Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal hefur atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar verið nokkuð stöðugt í næstum tvö ár en fór þó lækkandi seinni hluta ársins 2018. Tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi fóru hins vegar hækkandi seinni hluta ársins 2018. Skráð atvinnuleysi var þannig 3% nú í janúar samanborið við 2,2% í janúar 2018. Almennt er búist við því að atvinnuleysi hafi nú þegar náð lágmarki í hagsveiflunni eftir mikla lækkun fram til ársins 2017.
Tölurnar hér að framan gefa almennt vísbendingu um sterkan og virkan vinnumarkað. Niðurstöður síðustu könnunar Gallup fyrir Samtök atvinnulífsins og Seðlabankann meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins í lok síðasta árs gáfu hins vegar til kynna mun lakara mat á aðstæðum í atvinnulífinu en könnunin hefur sýnt allt frá árinu 2014.
31% stjórnenda taldi aðstæður í atvinnulífinu góðar í lok ársins 2018, samanborið við 70% árið áður, og 23% töldu þær slæmar. 10% fyrirtækjanna bjóst við fjölgun starfsmanna en 30% þeirra við fækkun á næstu sex mánuðum. Samsvarandi tölur árið áður voru 28% sem reiknuðu með fjölgun og 13% með fækkun.
Sú bjartsýni sem hefur ríkt í íslensku efnahagslífi síðustu ár virðist því á undanhaldi. Væntingar stjórnenda til aðstæðna í atvinnulífinu eftir sex mánuði voru þannig minni í lok ársins 2018 en frá upphafi mælinga árið 2002. 68% stjórnenda töldu að aðstæður myndu versna samanborið við 24% árið áður.
Það er nokkuð ljóst að mikil óvissa um framgang kjarasamninga hefur haft áhrif á afstöðu og væntingar stjórnenda í könnun Gallup í lok síðasta árs. Sú óvissa hefur síst minnkað og því til viðbótar hafa borist ýmis neikvæð tíðindi fyrir íslenskt atvinnulíf eins og engin loðnuveiði í ár, erfiðleikar á byggingamarkaði og samdráttur í framboði flugferða til og frá landinu. Það er því líklegt að niðurstöður næstu könnunar Gallup um þessi mál verði frekar neikvæðari en jákvæðar.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Hagtölur sýna sterkan vinnumarkað en væntingar stjórnenda neikvæðar (PDF)