Hagsjá: Hækkun fasteignaverðs í stærri bæjum - mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins
Samantekt
Sé litið á tölur úr verðsjá Þjóðskrár Íslands um þróun fasteignaverðs í stærri bæjum (sveitarfélögum) á milli 2. ársfjórðungs 2018 og 2019 má sjá að verð hækkaði markvert meira á Akranesi og í Reykjanesbæ og Árborg en á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri á því tímabili. Verð hækkaði langmest á Akranesi, bæði milli ára og frá fyrri ársfjórðungi. Hækkunin var minnst á Akureyri milli ára og næst minnst á höfuðborgarsvæðinu frá fyrri ársfjórðungi.
Vegið fermetraverð fjölbýlis og sérbýlis er enn mun hærra á höfuðborgarsvæðinu en gerist í stóru bæjunum fjórum. Á öðrum ársfjórðungi í ár var meðalfermetraverð fjölbýlis og sérbýlis miðað við viðskipti um 453 þús. kr. á höfuðborgarsvæðinu á meðan það var um 298 þús.kr. í Árborg, þar sem það var lægst af þessum bæjum. Sé fermetraverðið sett á vísitöluform miðað við 100 á höfuðborgarsvæðinu má sjá að verðið á Akureyri er rúmlega þrír fjórðu hlutar af verðinu á höfuðborgarsvæðinu og verðin í hinum bæjunum tæplega og í kringum 70%. Bilið á milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins hefur verið svipað í nokkur ár, en hinir bæirnir þrír hafa minnkað bilið nokkuð á síðustu árum.
Séu tölur um fermetraverð bornar saman við stöðuna í upphafi árs 2015 kemur í ljós að verð á Akureyri er nú ívið hærra hlutfall af verðinu á höfuðborgarsvæðinu en var fyrir fjórum árum. Allir fjórir bæirnir hafa unnið á miðað við höfuðborgarsvæðið á þessum tíma, sérstaklega Árborg og Reykjanesbær, þar sem breytingin er veruleg.
Sé litið á þróunina til lengri tíma má sjá að talsvert hægði á verðhækkunum á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017. Á sama tíma héldu hækkanir áfram í bæjunum fjórum. Sums staðar hafa hækkanir verið verulegar á ýmsum tímum, t.d. í Reykjanesbæ frá árinu 2017, í Árborg 2016 og 2017 og á Akranesi 2017.
Þeir bæir sem eru skoðaðir hér eru mismunandi stórir og því eðlilegt að fjöldi viðskipta með íbúðarhúsnæði sé mismunandi. Sé þróunin borin saman á vísitöluformi og miðað við 1. ársfjórðung 2015 sem grunn sést að Árborg sker sig nokkuð úr hvað fjölgun viðskipta snertir, en marga síðustu ársfjórðunga hafa viðskipti verið um 80% færri en í upphafi árs 2015. Svipað má segja um Reykjanesbæ, en þar hafa sveiflurnar verið meiri. Á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og Akureyri var fjöldi viðskipta svipaður í lok tímabilsins og í upphafi. Eins og sjá má eru sveiflur miklar milli árfjórðunga og því getur val á upphafspunkti haft töluverð áhrif á niðurstöðuna.
Töluvert hefur verið byggt af nýjum íbúðum í öllum þessum bæjum á síðustu árum. Sé litið á hlutfall nýrra íbúða af viðskiptum hefur það verið mismunandi. Árborg sker sig nokkuð úr, en engar nýjar íbúðir voru seldar á árunum 2015 og 2016. Á árinu 2018 voru um 30% viðskipta með íbúðir í fjölbýli nýjar og á fyrri hluta þessa árs voru yfir 60% seldra íbúða nýjar. Á Akureyri voru um 25% seldra íbúða nýjar á árinu 2018 og í Reykjanesbæ hafa um 25% seldra íbúða á fyrri hluta 2019 verið nýjar.
Fermetraverð nýrra íbúða er að jafnaði hærra en á þeim eldri. Munurinn hefur þó verið mismunandi milli sveitarfélaga. Á höfuðborgarsvæðinu hefur fermetraverð nýrra íbúða að jafnaði verið 20-25% hærra en eldri íbúða á tímabilinu 2015-2019. Verðmunurinn milli nýrra og eldri íbúða hefur verið mestur á Akranesi á þessu tímabili, en hann hefur þó farið minnkandi. Á árinu 2015 var fermetraverð nýrra seldra íbúða um 70% hærra en á þeim eldri. Upp á síðkastið hefur verðmunurinn verið um 40%. Verðmunur nýrra og eldri íbúða á Akureyri hefur verið nokkuð stöðugur allt tímabilið.
Tölurnar hér að framan sýna að frá upphafi ársins 2015 hefur fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað minna en í fjórum stærstu bæjunum utan þess. Sá tími virðist því liðinn að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækki mun meira en annars staðar á landinu. Af stærri bæjum landsins eru verðhækkanir greinilega meiri í stærri sveitarfélögunum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en á Akureyri þar sem markaðurinn virðist hafa róast á síðasta ári.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Hækkun fasteignaverðs í stærri bæjum - mest í nágrenni höfuðborgarsvæðisins (PDF)