Samantekt
Velta innlendra greiðslukorta jókst um 5,7% að raunvirði milli ára í desember. Velta tengd verslun og þjónustu innanlands jókst um 5,1% milli ára miðað við fast verðlag og 8,6% í viðskiptum erlendis miðað við fast gengi. Ekkert lát virðist því hafa verið á verslunargleði landsmanna yfir hátíðirnar, þvert á móti var hún meiri en á fyrra ári.
Líkt og í síðasta mánuði, vekur athygli að kortavelta erlendis jókst á sama tíma og utanlandsferðum fækkaði. Utanlandsferðir Íslendinga voru 12% færri í desember samanborið við desembermánuð árið áður, en þrátt fyrir það jókst kortavelta umtalsvert miðað við fast gengi. Aukningin hefur raunar ekki verið meiri síðan í apríl á þessu ári þegar veltan jókst um 9% milli ára. Í þeim mánuði voru utanlandsferðir landsmanna býsna margar sökum páskaleyfis. Líkleg skýring á aukningunni nú gæti verið aukin verslun landsmanna í gegnum erlendar netverslanir fyrir jólin.
Kortavelta jókst alls að raunvirði um 3,3% milli ára á fjórða ársfjórðungi. Það er talsvert meiri vöxtur en á fyrri fjórðungum ársins þegar vöxtur mældist á bilinu 0,3-1,6% milli ára. Aukin kortavelta á fjórða ársfjórðungi er ef til vill vísbending um kraftmeiri vöxt einkaneyslu á síðari hluta árs. Líkt og við greindum frá í síðasta mánuði jókst einkaneysla nokkuð meira á þriðja ársfjórðungi en á öðrum, og eru gögn um kortaveltu á þeim fjórða vísbending um að einkaneysla gæti hafa aukist enn frekar.