Hagsjá: Fjölgun starfa frá 2010 að mestu leyti í ferðaþjónustu
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands um einkennandi atvinnugreinar í ferðaþjónustu fjölgaði starfsfólki í þessum greinum um rúmlega 16 þúsund frá árinu 2010 til 2018 sé tekið mið af meðaltölum áranna. Mest var fjölgunin í rekstri gististaða og veitingasölu og -þjónustu.
Nokkur fækkun starfsfólks var í greininni milli 2008 og 2009 en svo mikil og stöðug fjölgun allt fram til ársins 2018. Meðalfjölgun á ári á öllu tímabilinu var 8,7% og frá árinu 2010 fram til 2018 var meðalfjölgunin á ári 11,6%.
Sé litið á fyrstu þrjá mánuði ársins 2018 og 2019 fækkaði um u.þ.b. 630 í þessum greinum, fyrst og fremst í rekstri gististaða. WOW air var enn í rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins 2019 þannig að áhrifa gjaldþrots félagsins gætir ekki í þessum tölum.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar um fjölda starfsfólks á vinnumarkaði hér á landi fjölgaði starfsfólki um rúm 40 þúsund frá 2010-2018. Ferðaþjónustan skapaði því fjögur af hverjum tíu störfum sem urðu til á þessum 8 árum.
Sé litið á þær greinar þar sem fjölgun starfsfólks var mest kemur ekki á óvart að margar þeirra tengjast ferðaþjónustu. Mesta fjölgunin var í rekstri gististaða og veitingarekstri, eða um tæp 8 þúsund manns. Fjölgun var næstmest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, um 5.700 manns, en frá 2008 til 2010 hafði starfsfólki í greininni fækkað um helming, úr 15.000 manns niður í 7.500. Rekstur ferðaskrifstofa og tengd starfsemi var með þriðju mesta fjölgunina og þar á eftir komu flutningar með flugi og smásöluverslun. Þær níu greinar sem voru með mesta fjölgun starfa á þessu tímabili skiluðu um 27.500 nýjum störfum, eða tæplega 70% nýrra starfa í hagkerfinu á þessum tíma.
Langmesta fækkun starfa á milli áranna 2010 og 2018 var í fjármálaþjónustu (án tryggingarfélaga og lífeyrissjóða) en þar fækkaði um 1.100 manns, til viðbótar við fækkun um 1.300 manns á tímabilinu 2008-2010, eða um 2.400 manns frá 2008-2018. Næstmesta fækkunin var í útgáfustarfsemi og í fiskveiðum og fiskeldi. Fækkun starfsfólks í þeim 10 greinum þar sem fækkunin var mest var samtals um 2.800 manns frá 2010 til 2018.
Tölurnar um ferðaþjónustuna ná einungis fram í mars á þessu ári, en á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 fækkaði um u.þ.b. 630 manns í einkennandi atvinnugreinum ferðaþjónustu þrátt fyrir að WOW air hafi enn verið í rekstri á þeim tíma. Tölur um fjölda starfsfólks í hagkerfinu öllu á fyrsta ársfjórðungi eru ekki enn komnar fram.
Skráð atvinnuleysi skv. tölum Vinnumálastofnunar var að meðaltali 3,1% á fyrsta ársfjórðungi 2019,en var komið upp í 3,6% í maí. Sé litið sérstaklega á Suðurnes þar sem ferðaþjónustan vegur einna þyngst var atvinnuleysið að meðaltali 5,1% fyrstu mánuði ársins, en var komið upp í 6,6% í apríl.
Atvinnuleysi hefur aukist síðustu mánuði, aðallega á Suðurnesjum, þar sem samdráttur í ferðaþjónustu kemur mest fram. Almennt er spáð samdrætti í hagkerfinu á þessu ári, en að sú staða verði ekki langvinn. Þess er því að vænta að sú mikla fjölgun starfa sem við höfum séð á síðustu árum verði mun hægari eða þróunin jafnvel neikvæð á allra næstu misserum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Fjölgun starfa frá 2010 að mestu leyti í ferðaþjónustu (PDF)