Samantekt
Jöfnuður vöru- og þjónustuviðskipta við útlönd á fyrri hluta ársins var jákvæður um 12,8 ma. kr. Þetta er minnsti afgangur af utanríkisviðskiptum síðan árið 2008 þegar halli mældist upp á 46,3 ma. kr. á sama tímabili. Afgangurinn á fyrri árshelmingi 2017 nam 23,2 ma. kr. og dróst því saman um 10,5 ma. kr. milli ára. Þetta er þriðja árið í röð sem afgangurinn á fyrri helmingi ársins dregst saman milli ára, en hann nam 74,5 ma. kr. árið 2015 sem þá var mesti afgangurinn síðan árið 2010.
Mikill afgangur af þjónustuviðskiptum en töluverður halli á vöruviðskiptum
Enn mælist töluverður afgangur á þjónustujöfnuði og er þetta þriðji mesti afgangur á þjónustujöfnuði á fyrri árshelmingi. Afgangurinn nam 90 ma. kr. til en til samanburðar nam hann 104 ma. kr. á sama í fyrra og 93 ma .kr. árið 2016. Árið í ár var það 12. í röðinni sem afgangur mælist á þjónustujöfnuði á fyrri árshelmingi, en síðast mældist halli árið 2006 og nam hann 12 ma. kr. Halli á vöruskiptum nam 77 mö. kr. á fyrri árshelmingi, sem er heldur minni halli en á sama tímabili í fyrra þegar hann nam 80 ma. kr. en meiri halli en árið 2016 þegar hann nam 66 ma. kr. Þetta er sjöunda árið í röð sem halli mælist á vöruskiptum gagnvart útlöndum á fyrri árshelmingi.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum fer stöðugt minnkandi (PDF)