Fleiri ferðamenn en minni verðmæti
Erlendum ferðamönnum fækkaði um 2,3% á milli ára í maí, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Engu að síður hafa fleiri ferðamenn aðeins tvisvar heimsótt Ísland í maí mánuði, í fyrra og á metárinu 2018. Á fyrstu fimm mánuðum ársins hefur ferðamönnum aftur á móti alls fjölgað um 3,9% frá sama tíma í fyrra.
Gista skemur og eyða minna
Fyrstu fjóra mánuði ársins voru skráðar gistinætur 0,5% færri en á sama tíma í fyrra, samkvæmt nýlega uppfærðum tölum Hagstofunnar. Áður höfðu bráðabirgðatölur um gistinætur gefið til kynna rúmlega 6% fækkun gistinótta á milli ára. Samkvæmt uppfærðum tölum voru gistinætur í fyrra færri en bráðabirgðatölurnar gáfu til kynna og fækkun gistinótta í ár því mun minni en áður virtist.
Erlend kortavelta innanlands hefur einnig dregist saman á fyrstu fjórum mánuðum ársins samkvæmt tölum Seðlabankans, eða um 1,9% frá fyrra ári. Eins og áður hefur verið fjallað um virðist vanta hluta af erlendri kortaveltu í kortaveltutölur Seðlabankans, sem skýrist af því að fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa fært færsluhirðingu til erlendra færsluhirða. Það er því líklegt að kortavelta hafi dregist minna saman en opinberar tölur segja til um, en óljóst hversu mikið umfangið er.
Tölur um gistinætur og erlenda kortaveltu fylgjast nokkuð vel að á síðustu mánuðum og í raun betur en tölur um fjölda erlendra ferðamanna og kortavelta eða gistinætur. Tölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins benda til þess að verðmæti ferðaþjónustunnar hafi dregist örlítið saman á fyrstu mánuðum ársins, hvort sem hægt er að taka fyllilega mark á tölum um kortaveltu eða ekki.
Samdráttur á fyrsta ársfjórðungi
Niðurstöður úr nýlega birtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar sýna einnig að ferðaþjónustan hefur dregist saman á fyrsta fjórðungi ársins frá fyrra ári, mælt á föstu verðlagi. Í þjóðhagsreikningum samanstendur ferðaþjónusta af tveimur liðum, farþegaflutningum með flugi annars vegar og ferðalögum hins vegar. Ferðalagaliðurinn, sem nær yfir neyslu ferðamanna fyrir utan flugfargjöld, dregst saman á milli ára, en farþegaflutningaliðurinn eykst aftur á móti frá fyrra ári. Þetta skýrist líklega af auknu flugframboði íslenskra flugfélaga en einnig stækkandi hlutfalli tengifarþega um Keflavíkurflugvöll.
Saman sýna þessir liðir þó samdrátt um sirka 2,7% á milli ára, á föstu verðlagi. Hagstofan tekur reyndar fram að galli sé á gögnum um þjónustuútflutning, en einnig að gallinn ætti ekki að hafa mikil áhrif á niðurstöðurnar. Það kemur ekki fram í hverju gallinn felst, en ekki er ólíklegt að það hafi með kortaveltugögn að gera. Unnið er að frekari sannprófun, samkvæmt frétt Hagstofunnar, og vonandi fæst betri mynd af heildarumfangi ferðaþjónustunnar með uppfærðum gögnum.
Hefur ferðaþjónustan náð jafnvægi?
Eins og við höfum fjallað um var síðasta ár metár í ferðaþjónustunni á flesta mælikvarða, þó fjöldametið frá 2018 hafi ekki verið slegið. Þeir ferðamenn sem komu í fyrra gistu lengur og eyddu meira en á metárinu. Met var því slegið í erlendri kortaveltu á föstu gengi og í fjölda gistinótta, sem skilaði sér í að hlutur ferðaþjónustunnar af landsframleiðslu hefur aldrei verið meiri en í fyrra.
Það sem af er ári hefur ferðamönnum haldið áfram að fjölga en aðeins hefur dregið úr fjölda gistinótta og erlendri kortaveltu. Neysluhegðun ferðmanna er því orðin líkari því sem hún var á toppi síðustu ferðamannasveiflu á árunum fyrir faraldurinn.
Þó árið hafi farið rólega af stað var ferðaþjónusta enn stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar á þessu tímabili, sú sem skilaði mestum útflutningsverðmætum á fyrsta fjórðungi ársins. Stærstu mánuðir ársins í ferðaþjónustunni eru framundan og sumarmánuðirnir hafa langmest að segja um það hvernig árið í heild kemur út fyrir ferðaþjónustuna.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.