Fjárlög síðustu tveggja ríkisstjórna – hver hefur áherslan verið?
Frá árinu 2017 fram í desember 2021 hækkaði vísitala neysluverðs um 16,3%. Samþykkt rammasett útgjöld í fjárlögum hafa hækkað um 27,2% milli fjárlaga áranna 2017 og 2022. Útgjöld ríkisins á þennan mælikvarða hafa þannig hækkað um 9,4% umfram almenna verðlagsþróun á þessu tímabili.
Fyrra ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttir tók við völdum í lok nóvember 2017 þannig að segja má að það tímabil sem hér er skoðað sé starfstími þeirrar ríkisstjórnar og fyrstu fjárlög annars ráðuneytis Katrínar.
Sjúkrahúsaþjónusta er langstærsti einstaki málefnaflokkurinn í fjárlögum ársins 2022, rúmir 136 ma.kr. Þar á eftir koma málefni aldraðra og síðan málefni tengd örorku og fötluðu fólki. Nú er ekki gefið að flokkunarkerfi eins og þetta gefi bestu mynd af starfsemi ríkisins, en fimm stærstu útgjaldaflokkarnir eru á sviði félags- og heilsumála. Þessir fimm málaflokkar nema samtals rúmum 46% af rammasettum útgjöldum í fjárlögum ársins 2022.
Í krónum talið hefur sjúkrahúsaþjónusta hækkað langmest frá fjárlögum 2017 fram til fjárlaga 2022, um 32,6 ma.kr. Næstmesta hækkunin í krónum hefur farið til málefna tengdra örorku og fötluðu fólki og þar á eftir koma fjölskyldumál og málefni aldraðra. Það er auðvitað ekki gefið að upphafs- og endapunktar samanburðar af þessu tagi séu þeir bestu. En samanburðurinn sýnir að þessir fjórir málaflokkar, sem allir eru á sviði félags- og heilsumála, skýra 41% af aukningu allra rammasettra útgjalda á tímabilinu.
Eins og áður segir hafa rammasett útgjöld á fjárlögum hækkað um 27,2% milli fjárlaga 2017 og 2022. Af einstökum málefnaflokkum hafa útgjöld til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hækkað langmest, eða um 106%. Þar á eftir kemur alþjóðleg þróunarsamvinna sem hefur hækkað um 82%. Útgjöld til sveitarfélaga og byggðamála hafa hækkað um 69% og útgjöld æðstu stjórnsýslu hafa hækkað um 65%. Einungis einn þeirra málaflokka af þeim níu sem hafa hækkað mest er meðal þeirra 9 stærstu á fjárlögum, en það eru fjölskyldumál.
Þær breytingar sem hér hefur verið farið yfir geta mögulega verið vísbending um áherslur. Fljótt á litið benda þessar tölur til þess að áherslur núverandi stjórnvalda fara ekki endilega saman við alla þá gagnrýni sem umræðan um ríkisútgjöld hefur fram að færa. Sé litið á aukningu í krónum virðast félags- og heilsumál vera í forgangi, en að sumra mati virðist forgangurinn ekki vera nægur. Sé litið á hlutfallslega aukningu virðast nýsköpun, rannsóknir og þróunarsamvinna vera í nokkurri sérstöðu og þá virðist sveitarfélögum og byggðamálum gert hátt undir höfði. Töluverður hluti umræðunnar virðist ganga út á að ekki sé nógu vel að gert á einmitt þessum sviðum.
Útgjöld ríkissjóðs hafa aukist umfram almenna verðlagsþróun á síðustu árum. Til þess að auka framlög á einu sviði þarf væntanlega að halda aftur af öðrum. Það er einmitt þetta sem val stjórnmálanna gengur út á.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Fjárlög síðustu tveggja ríkisstjórna – hver hefur áherslan verið?