Ferða­menn færri en fyr­ir far­ald­ur en eyða meiru

Tæplega 121 þúsund erlendir ferðamenn lögðu upp frá Keflavíkurflugvelli í janúar, álíka margir og í janúar 2020, rétt áður en ferðatakmarkanir settu strik í reikninginn. Ferðamenn eru þó nokkuð færri en í janúar 2018 og 2019, en eyða að jafnaði meiri pening en þá. Ferðir Íslendinga til útlanda hafa aldrei verið fleiri í janúar en nú, brottfarirnar voru 41.500.
Flugvél á flugvelli
13. febrúar 2023

Brottfarir erlendra ferðamanna voru tæplega 121 þúsund í janúar. Þær voru álíka margar og í janúar 2020, 13% færri en í janúar árið 2019, síðasta árið fyrir faraldur, en fjöldinn á síðustu mánuðum hefur verið mjög sambærilegur því sem var árið 2019. Ferðamenn eru enn þó nokkuð færri en þeir voru á metferðamannaárinu 2018. Nú í janúar var fjöldinn til dæmis 82% af því sem hann var í janúar það ár.

Bretar og Bandaríkjamenn fóru tæplega helming ferðanna um Keflavíkurflugvöll, tæplega 30.000 voru Bretar og rúmlega 28.000 Bandaríkjamenn. Næstfjölmennastir þar á eftir voru Kínverjar (5,1% af heild), Þjóðverjar (4,7%) og Pólverjar (4,3%).

Ferðatakmarkanir til og frá Kína voru nýlegar afnumdar og má gera ráð fyrir að kínverskum ferðamönnum fjölgi á næstu mánuðum. Hlutfall kínverja af heildarfjölda ferðamanna svipar til þess sem var í janúar 2018 og 2019.

Met í brottförum Íslendinga

Íslendingar slógu janúarmet í ferðalögum með 41.500 brottförum frá Keflavíkurflugvelli. Áður voru brottfarirnar flestar í janúar 2019, 40.600 og í janúar 2018 voru þær 39.000. Íslendingar virðast því enn vera að bæta upp fyrir sólarlanda- og skíðaferðir sem þeir slepptu þegar faraldurinn stóð sem hæst. Landsmenn virðast þó einnig hafa gert vel við sig innanlands í mánuðinum en samkvæmt gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar sem birtust fyrr í dag jókst neyslan um rúm 10% að raunvirði milli ára, aðallega vegna aukinna þjónustukaupa. Ein skýring á aukinni neyslu og ferðagleði landsmanna gætu verið nýlega umsamdar launahækkanir.

Erlendir ferðamenn eyða meiru en áður

Ljóst er að hver ferðamaður eyðir meiru á Íslandi en áður, á föstu gengi, sem þýðir að þeir eyða meiru í eigin mynt. Kortavelta ferðamanna nam 16,7 milljörðum í janúar samkvæmt gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar, 117% meiru en í sama mánuði árið áður á föstu gengi og 8% meiru en í janúar árið 2020, þótt ferðamenn hafi verið 5% færri nú en þá. Kortaveltan var jafnmikil og hún var í janúar árið 2019 þótt ferðamenn hafi verið 17% færri nú en þá.

Ferðamenn greiddu rúma fjóra milljarða króna með greiðslukortum fyrir gistiþjónustu í janúar, um 2,5 milljarða í verslun og aðra 2,5 milljarða í veitingaþjónustu. Tæpir tveir milljarðar fóru í leigu á bílum og rúmlega hálfur í menningu, tómstundir og afþreyingu.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Fólk við Geysi
13. mars 2023

Vikubyrjun 13. mars 2023

Mannfjöldi hér á landi var 388 þúsund 1. janúar 2023. Íbúum fjölgaði um 11.500 í fyrra, sem samsvarar 3,1% fólksfjölgun, sé horft til breytinga milli 1. janúar hvers árs. Landsmönnum hefur aldrei fjölgað jafnmikið og á síðasta ári.
6. mars 2023

Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf

Meðfylgjandi er nýjasta mánaðarlega yfirlit Hagfræðideildar um sértryggð skuldabréf.
Fimmþúsundkrónu seðlar
6. mars 2023

Vikubyrjun 6. mars 2023

Þótt verðbólgan sé svipuð nú og í júlí í fyrra hefur orðið sú breyting á að verðbólgan er almennari. Í júlí í fyrra höfðu 17% undirliða hækkað um meira en 10% yfir árið, en núna í febrúar var það hlutfall komið upp í 35%.
Frosnir ávextir og grænmeti
28. feb. 2023

Kröftugur hagvöxtur á síðasta ári, í samræmi við væntingar

Hagvöxtur mældist 6,4% árið 2022, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Hagvöxturinn var drifinn áfram af kröftugum vexti einkaneyslu og fjármunamyndunar. Útflutningur og innflutningur jukust verulega á milli ára, en heildaráhrif utanríkisverslunar á hagvöxt voru engin að þessu sinni. Tölurnar eru í takt við opinberar spár, en í nýjustu spá okkar frá því í október í fyrra gerðum við ráð fyrir 6,5% hagvexti.
Fataverslun
27. feb. 2023

Ársverðbólgan komin í tveggja stafa tölu

Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,39% milli mánaða í febrúar og ársverðbólgan jókst úr 9,9% í 10,2%. Þetta er mesta verðbólga sem hefur mælst í yfirstandandi verðbólgukúfi, og tveggja stafa verðbólga hefur ekki mælst á Íslandi síðan í september 2009. Verðbólgan var mun meiri en við áttum von á, en við höfðum spáð 9,6% ársverðbólgu í febrúar.
Grafarholt
27. feb. 2023

Vikubyrjun 27. febrúar 2023

Íbúðamarkaður heldur áfram að kólna og íbúðaverð lækkaði milli mánaða í janúar, þriðja mánuðinn í röð. 280 kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru gefnir út á höfuðborgarsvæðinu og hafa þeir ekki verið færri í janúar síðan 2011.
Ferðafólk
23. feb. 2023

Launavísitalan enn á fullri ferð

Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli desember 2022 og janúar 2023 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,6%, sem er lækkun frá síðasta mánuði og nálgast mánuðina þar á undan.
Íbúðahús
22. feb. 2023

Íbúðaverð lækkar þriðja mánuðinn í röð

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,5% milli mánaða í janúar. Síðustu þrjá mánuði hefur vísitalan lækkað um 1,4% sem er mesta lækkun á þriggja mánaða grunni síðan í ágúst 2010. Fáir kaupsamningar voru undirritaðir í janúar og augljóst að markaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er farinn að kólna töluvert.
Símagreiðsla
20. feb. 2023

Vikubyrjun 20. febrúar 2023

Velta greiðslukorta heimilanna bendir til þess að hægt hafi á aukningu einkaneyslu á síðustu þremur mánuðum ársins 2022, en að hún hafi farið aftur á flug nú í janúar.
16. feb. 2023

Spáum að verðbólga lækki í 9,6% í febrúar

Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,88% milli mánaða í febrúar. Gangi spáin eftir lækkar ársverðbólgan úr 9,9% í 9,6%. Spá okkar til næstu mánaða gerir ráð fyrir örlítið meiri verðbólgu en í síðustu spá sem við birtum í lok janúar. Við teljum engu að síður að verðbólgan hjaðni næstu mánuði.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur