Faraldurinn hefur leikið vinnumarkaðinn grátt
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 voru bæði atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi af mannfjölda með því lægsta sem mælst hefur í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Atvinnuþátttaka 16 til 74 ára mældist 76,5% á fyrsta ársfjórðungi í ár sem er sama hlutfall og mældist á sama ársfjórðungi í fyrra. Atvinnuþátttaka hefur aðeins tvisvar áður mælst lægri en 77%, á fyrsta og fjórða ársfjórðungi 2020.
Á fyrsta ársfjórðungi 2021 voru 185.600 manns starfandi, eða 70,7% af mannfjölda. Starfandi fólki fækkaði um 4.700 manns frá fyrsta ársfjórðungi 2020 og hlutfall þess af mannfjölda lækkaði um 2,5 prósentustig. Hlutfall starfandi hefur aldrei mælst jafn lágt á fyrsta ársfjórðungi og nú og er mælingin á meðal þriggja lægstu frá upphafi, eða frá árinu 2003. Hlutfall starfandi kvenna var 66,2% og starfandi karla 74,8%, en samsvarandi tölur árið áður voru 69,6% og 76,5%.
Í síðustu uppsveiflu náði atvinnuþátttaka hámarki á árunum 2015 og 2016. Þá varð hún álíka mikil og á árinu 2007 en í það skipti féll atvinnuþátttaka síðan verulega á árinu 2008. Svipaða sögu er að segja um hlutfall starfandi. Þar varð hámarkið í síðustu uppsveiflu á miðju ári 2016 þegar hlutfallið fór yfir 80%. Það var svipuð staða og var miðju ári 2007.
Þeir sem voru við vinnu unnu að jafnaði 1,4 stundum styttri vinnuviku á fyrsta ársfjórðungi í ár en á sama tíma 2020. Vinnutíminn styttist verulega í fjármálakreppunni, eða um u.þ.b. 2 stundir á viku, og hefur ekki náð fyrri lengd síðan.
Á 1. ársfjórðungi 2021 voru 61.700 manns utan vinnumarkaðar, eða 23,5% af mannfjölda 16-74 ára. Af konum voru 27,8% utan vinnumarkaðar og 20% karla. Þessar tölur eru svipaðar og á 1. ársfjórðungi 2020.
Allt frá árinu 2016 hefur þeim fjölgað hlutfallslega sem eru utan vinnumarkaðar. Um mitt ár 2007 voru 16-17% utan vinnumarkaðar og eilítið fleiri 2008. Fólki utan vinnumarkaðar fór svo að fjölga allt til ársins 2011 en tók að fækka aftur á árinu 2013. Á 1. og 2. ársfjórðungum áranna 2015 og 2016 voru hlutfallslega álíka margir utan vinnumarkaðar og fyrir fjármálakreppuna. Síðan hefur fólki utan vinnumarkaðar fjölgað nær stöðugt. Á öllu árinu 2016 voru 18,1% utan vinnumarkaðar en 22,6% á árinu 2020. Aukningin er 4,6 prósentustig.
Af þeim sem voru utan vinnumarkaðar á fyrsta ársfjórðungi 2021 voru flestir, eða 30,5%, á eftirlaunum, 26,5% voru nemar, 20,9% öryrkjar og 10,6% voru veikir eða tímabundið ófærir til vinnu..
Ekki hafa orðið miklar breytingar á ástæðum sem fólk gefur fyrir því að vera utan vinnumarkaðar frá 2016. Þannig hefur fólki á eftirlaunum og öryrkjum t.d. fækkað hlutfallslega, en heimavinnandi fólki hefur fækkað töluvert. Sé 2020 borið saman við 2007 eru breytingarnar meiri, t.d. voru hlutfallslega mun fleiri í námi þá og færri á eftirlaunum eða öryrkjar eða fatlaðir. Þá voru hlutfallslega mun fleiri í fæðingarorlofi 2007 en í fyrra.