Ennþá spenna á vinnumarkaði þótt hægi á efnahagsumsvifum
Þegar heimsfaraldrinum linnti færðist hratt spenna yfir íslenskan vinnumarkað. Eftirspurn eftir vinnuafli var í hæstu hæðum, atvinnuleysi undir 3% og laun hækkuðu verulega, bæði vegna ríflegra kjarasamningsbundinna hækkana en einnig launaskriðs. Launavísitalan hækkaði um 8,3% árið 2022 og um 9,8% á síðasta ári.
Gengið illa að draga úr spennu
Allt frá því peningastefnunefnd Seðlabankans hóf að hækka vexti hefur eitt helsta keppikeflið verið að draga úr spennu á vinnumarkaði. Með auknum slaka á vinnumarkaði minnkar eftirspurn eftir vinnuafli, samningsstaða launafólks versnar og þannig minnka líkurnar á óhóflegum launahækkunum sem kynda undir þenslu í hagkerfinu. Þótt vextir hafi borið árangur víða í hagkerfinu, hægt á íbúðaverðshækkunum og dregið úr einkaneyslu, hefur ekki enn tekist að draga nægilega úr spennu á vinnumarkaði. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sögðust stjórnendur 63% fyrirtækja að þeir teldu nægt framboð af starfsfólki en 37% töldu skorta starfsfólk. Þótt hlutfall þeirra stjórnenda sem telja vanta starfsfólk sé lægra en það var rétt eftir faraldurinn eru hlutföllin nú svipuð og þau voru á árunum 2017 og 2018 þegar ferðaþjónustan var í örum vexti. Eftirspurn eftir starfsfólki er mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem 47% fyrirtækja vilja fjölga starfsfólki. Eftirspurnin er einnig þó nokkur í greinum tengdum ferðaþjónustu, verslun og iðnaði.
Hverjar eru horfurnar á vinnumarkaði?
Í nýrri hagspá sem nær til ársins 2026 spáum við meðal annars fyrir um horfur á vinnumarkaði. Við gerum ráð fyrir að laun hækki þónokkuð minna næstu ár en á síðustu tveimur árum, um 6,6% á þessu ári, 6,1% á næsta ári og um 5,5% árið 2026.
Sé miðað við verðbólguspá okkar má gera ráð fyrir að kaupmáttur aukist um 0,6% á þessu ári, 1,6% á því næsta og 2% árið 2026. Kaupmáttaraukningin er þó nokkuð undir meðalaukningu síðustu ára en eykst þó eftir því sem líður á spátímann og verðbólga hjaðnar.
Launaspáin byggir aðallega á nýjum kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum og þeirri forsendu að samningar á vinnumarkaðnum í heild taki að miklu leyti mið af þeim sem þegar hafa verið undirritaðir. Þótt prósentuhækkanir séu á bilinu 3,25%-3,5% er í samningunum gert ráð fyrir lágmarkshækkun sem tryggir að tekjulægstu hóparnir fái hlutfallslega meiri launahækkun, sem eykur lítillega hlutfallshækkunina í heild.
Spenna á vinnumarkaði kyndir undir launaskrið
Í ljósi þrálátrar spennu á vinnumarkaði má ætla að áfram beri á nokkru launaskriði. Hversu mikið launaskriðið verður fer að miklu leyti eftir því hversu hratt aðhaldssöm peningastefna slær á eftirspurn í hagkerfinu á næstu mánuðum og árum. Undir lok síðasta árs var fjárfesting minni en árið á undan og það sama má segja um einkaneyslu. Kortavelta landsmanna hefur minnkað statt og stöðugt síðustu 12 mánuði og ekki ólíklegt að sú þróun haldi áfram á meðan vextir eru eins háir og raun ber vitni.
Við spáum því að einkaneysla aukist hóflega á þessu ári og að hátt vaxtastig haldi aftur af henni. Þegar vextir taka að lækka er viðbúið að einkaneysla aukist meira, en þó lítið í sögulegu samhengi. Við spáum því að einkaneysla aukist um 0,9% á þessu ári, 1,8% á næsta ári og loks um 2,5% á árinu 2026.
Hófstilltar sveiflur í atvinnuleysi
Þrátt fyrir aukinn slaka á vinnumarkaði næstu mánuði teljum við að atvinnuleysi aukist fremur hóflega. Almennt virðist aukinn hreyfanleiki vinnuafls og aðflutningur launafólks hingað til lands draga úr sveiflum í atvinnuleysi. Þegar umsvif aukast og störfum fjölgar er eftirspurn eftir vinnuafli að miklu leyti mætt með aðflutningi launafólks án þess að það fækki verulega í hópi atvinnulausra. Þegar hægir á í efnahagslífinu og störfum fækkar flytur svo hluti vinnuaflsins úr landi og litlar breytingar verða á atvinnuleysi. Minnkandi efnahagsumsvif auka þannig minna á atvinnuleysi en ella. Við spáum því þó að atvinnuleysi aukist lítillega á næstu misserum, verði að meðaltali 4,0% í ár, 4,2% á næsta ári og 3,9% árið 2026.