Búferlaflutningar litaðir af Covid-faraldrinum
Aðflutningur hingað til lands jókst nokkuð á öðrum ársfjórðungi þegar alls 2.490 einstaklingar fluttu til landsins samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands sem er tæplega helmingi fleiri en fluttu hingað til lands á sama ársfjórðungi í fyrra. Fjöldi aðfluttra í heild er nokkuð áþekkur því sem sást á öðrum ársfjórðungi 2019 áður en heimsfaraldurinn braust út. Samsetning aðfluttra hefur þó tekið breytingum þar sem íslenskir ríkisborgarar eru hlutfallslega fleiri en áður.
Brottfluttum fjölgaði nokkuð eftir að heimsfaraldurinn braust út og mælast þeir enn örlítið fleiri en á sama tíma árið 2019. Það eru helst erlendir ríkisborgarar sem hafa flutt af landi brott. Færri íslenskir ríkisborgarar hafa flutt búferlum til útlanda, en heimsfaraldurinn virðist hafa gert það að verkum að margir snéru til síns heima eða frestuðu flutningum til útlanda.
Ef árið í heild er skoðað má sjá að í fyrra fluttu alls 2.667 íslenskir ríkisborgarar til landsins sem er nokkuð áþekkur fjöldi og hefur mælst á síðustu árum. Einungis 2.161 fluttu hins vegar af landi brott og hafa þeir ekki verið færri síðan 1993. Samanlagt fluttu 506 fleiri íslenskir ríkisborgarar til landsins en frá því í fyrra og hefur sá fjöldi ekki verið meiri síðan 1987.