Bein áhrif stríðsins á íslenskan efnahag léttvæg
Sé litið til beinna áhrifa er rétt að horfa til vægis Rússlands og Úkraínu í utanríkisviðskiptum Íslands en það hefur verið mjög lítið á síðustu árum. Um 1,6% af heildarútflutningi frá Íslandi fór samanlagt til Rússlands og Úkraínu árið 2020. Útflutningurinn nam 15,7 mö.kr. af samtals 1.010 ma.kr. heildarútflutningi vara og þjónustu frá Íslandi árið 2020.
Útflutningur til landanna aðeins meiri en innflutningur
Innflutningur til Íslands frá þessum tveimur löndum var 0,5% af heildarinnflutningi árið 2020. Heildarinnflutningur hér á landi af vörum og þjónustu var 1.031 ma.kr. en innflutningurinn frá þessum tveimur löndum nam 4,9 mö.kr. Útflutningur til landanna hefur verið nokkrum milljörðum krónum meiri en innflutningur. Af þeim sökum kunna áhrif stríðsins á gengi krónunnar, að öðru óbreyttu, að verða til örlítillar veikingar til skemmri tíma litið.