Atvinnuleysi jókst minna í desember en reikna mátti með

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var almennt skráð atvinnuleysi í desember 10,7% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og hafði aukist úr 10,6% frá því í nóvember. Um 26.500 manns voru á atvinnuleysisskrá, þar af um 21.400 atvinnulausir og um 5.100 atvinnulausir í minnkuðu starfshlutfalli. Atvinnuleysi sem tengist hlutabótaleið var áfram 1,4% og var óbreytt milli mánaða. Heildaratvinnuleysi í desember var því 12,1% samanborið við 12,0% í nóvember og jókst þannig um 0,1 prósentustig.
Almennt atvinnuleysi jókst nær stöðugt allt árið í fyrra og hafa sveiflur í því einungis tengst hlutabótaleiðinni. Meðalatvinnuleysi ársins var 7,9% sem er veruleg hækkun frá 3,6% meðalatvinnuleysi í fyrra. Meðalatvinnuleysi karla á árinu var 7,8% og 7,9% meðal kvenna.
Almennt er reiknað með að atvinnuleysi minnki þegar líður á árið 2021 samhliða því að tök náist á faraldrinum og landið opnist meira. Atvinnuleysi í upphafi ársins 2021 verður væntanlega á bilinu 11,3-11,7% samkvæmt spá Vinnumálastofnunar - það var 4,8% í janúar 2020.
Almennt atvinnuleysi á Suðurnesjum var 21,9% í desember og hlutabótaatvinnuleysi 1,5%, samtals 23,4%. Almennt atvinnuleysi þar er því rúmlega tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem það var næst mest, eða um 10,6%. Þriðja mesta atvinnuleysið var á Suðurlandi, 10%. Minnsta atvinnuleysið var á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra eins og verið hefur.
Alls höfðu 4.213 manns verið án atvinnu í almenna kerfinu í meira en 12 mánuði í lok desember, en þeir voru 1.648 í desemberlok 2019. Fjölgun langtímaatvinnulausra hefur því verið um 2.565 milli ára. Þá hefur þeim sem hafa verið atvinnulausir í 6-12 mánuði einnig fjölgað mikið. Þeir voru 6.661 í lok desember en 2.172 fyrir ári.
Atvinnulausum í almenna kerfinu fjölgaði í öllum atvinnugreinum milli desembermánaða 2019 og 2020. Aukningin var mest í ferðatengdri starfsemi, t.d. í farþegaflutningum og gistiþjónustu. Þá var töluverð aukning í menningartengdri þjónustu. Minnsta aukningin var í sjávartengdri starfsemi, byggingariðnaði, upplýsingatækni, fjármála- og tryggingastarfsemi, auk þjónustu og verslunar og vöruflutningum.
Um 8.700 erlendir ríkisborgarar voru atvinnulausir í almenna kerfinu í lok desember, en það svarar til um 24% atvinnuleysis í þeim hópi. Auk þess voru um 1.500 erlendir ríkisborgarar á hlutabótaleið og því má ætla að heildaratvinnuleysi erlendra ríkisborgara hafi verið nálægt 27,0% í desember. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er nú um 41% og hefur verið í kringum 40% frá því haustið 2019, fyrir utan vormánuðina 2020, þegar atvinnuleysi var sem mest.
Það er ljóst að árangur næst ekki að neinu ráði í baráttunni við atvinnuleysið fyrr en landið nær að opnast meira. Í því sambandi skiptir ekki einungis máli hver staðan er hér á landi, ástandið í heimalöndum væntanlegra ferðamanna skiptir ekki síður máli. Nú hefur verið ákveðið að taka upp litakerfi við landamærin í takti við önnur Evrópulönd þann 1. maí og þannig reynt að auka fyrirsjáanleika varðandi komur til Íslands næsta sumar. Árangur í bólusetningum hér og annars staðar skiptir mestu máli í þessu sambandi.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi jókst minna í desember en reikna mátti með









