Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í desember 4,9% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og var óbreytt frá því í nóvember. 10.161 manns voru á atvinnuleysisskrá í lok desember.
Skráð atvinnuleysi náði hámarki í janúar 2021 þegar það var 11,6%. Atvinnuleysið hefur því minnkað um 6,7 prósentustig frá sem mest var. Í desember 2020 var almennt atvinnuleysi 10,7% og það hefur því minnkað um 5,8 prósentustig á einu ári. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi muni aukast í janúarmánuði og verði í kringum 5,2%.
Almennt atvinnuleysi var að meðaltali 7,7% á árinu 2021, 0,2 prósentustigum lægra en árið 2020. Atvinnuleysið á árunum 2009 og 2010 var 8,0% og 8,1% þannig að 2021 er þriðja hæsta atvinnuleysisárið frá aldamótum. Í þessu sambandi ber að líta til þess að þessar tölur eru án hlutabóta, en atvinnuleysi vegna hlutabóta var töluvert á árinu 2020 og fram á mitt ár 2021.
Almennt atvinnuleysi jókst alls staðar á landinu nema á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vestfjörðum milli nóvember og desember. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu og Vestfjörðum minnkaði um 0,1 prósentustig milli mánaða og um 0,2 prósentustig á Suðurnesjum. Atvinnuleysi jókst mest um 0,4 prósentustig á Vesturlandi og Austurlandi. Atvinnuleysi er eftir sem áður langmest á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, en það hefur nú verið undir 10% á Suðurnesjum í fimm mánuði, en hæst fór það í 24,5% í janúar 2021. Atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum var þó áfram 10% í desember og minnkaði um 0,4 prósentustig milli mánaða.
Fjöldi langtímaatvinnulausra (atvinnuleysi lengur en í 12 mánuði) jókst jafnt og þétt á árunum 2019 og 2020 og tók að herða á fjölguninni eftir að faraldurinn brast á. Fjöldinn tók svo stökk upp á við í upphafi ársins 2021, ári eftir að áhrif faraldursins birtust, og náði hámarki í apríl. Eftir að atvinnuleysi tók að minnka hefur langtímaatvinnulausum fækkað um 2000.
Sé litið á innbyrðis hlutföll atvinnuleysis eftir lengd var staðan sú að langtímaatvinnulausir voru í kringum 20% af fjölda atvinnulausra fram á fyrstu mánuði ársins 2021, en þá fór þeim að fjölga hlutfallslega samfara minnkun atvinnuleysis. Fjöldi langtímaatvinnulausra af heildinni fór yfir 40% í júní í fyrra og fór hæst í 44% í ágúst og september. Síðan hefur hlutfall þeirra farið lækkandi og var komið niður í 37% nú í desember. Þeim sem hafa verið atvinnulausir í 6-12 mánuði hefur einnig fækkað, en að sama skapi fjölgar þeim hlutfallslega sem hafa verið atvinnulausir í styttri tíma.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi í desember undir 5% þriðja mánuðinn í röð