Atvinnuleysi hefur minnkað hraðar en reiknað var með

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var skráð atvinnuleysi í júní 3,3% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og minnkaði úr 3,9% frá því í maí. Alls voru 6.675 á atvinnuleysisskrá í lok júní.
Skráð atvinnuleysi náði hámarki í maí 2021 þegar það var 11,6% og hefur því minnkað um 8,3 prósentustig síðan.
Í síðustu þjóðhagsspá Hagfræðideildar gerðum við ráð fyrir að meðalatvinnuleysi á árinu 2022 yrði 4,5% sem er sama spá og Seðlabankinn birti í Peningamálum í maí. Verði atvinnuleysi óbreytt það sem eftir lifir ársins 2022 verður meðalatvinnuleysi ársins hins vegar 3,9%. Þess er kannski ekki að vænta að atvinnuleysi minnki verulega úr þessu, en það eru heldur ekki mikil teikn um að það aukist mikið. Það eru því töluverðar líkur á því að meðalatvinnuleysi ársins verði í kringum 4% sem er talsvert minna en spáð hafði verið. Atvinnuleysi hefur þannig minnkað álíka hratt eða hraðar en það jókst í upphafi ársins 2020. Atvinnuleysið hefur einnig minnkað mun hraðar en reyndin var eftir fjármálakreppuna þegar það lækkaði lítillega á milli ára í nokkur ár.
Atvinnuleysi minnkaði alls staðar á landinu milli mánaða, mest um 0,8 prósentustig á Suðurnesjum og Norðurlandi eystra. Minnst minnkaði atvinnuleysi á Norðurlandi vestra, um 0,3 prósentustig.
Atvinnuleysi er áfram langmest á Suðurnesjum, 5,8%, en hefur ekki verið minna síðan í mars 2019. Hæst fór atvinnuleysið þar í 24,5% í júní 2021. Atvinnuleysi á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra er alls staðar undir 2% af áætluðum fjölda fólks á vinnumarkaði og fer tæplega neðar en það er nú.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Atvinnuleysi hefur minnkað hraðar en reiknað var með









