Áfram mikill slaki á vinnumarkaði – en vonandi er botninum náð
Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands er áætlað að um 194.400 manns hafi verið á vinnumarkaði í janúar 2020, sem jafngildir 76% atvinnuþátttöku. Af fólki á vinnumarkaði voru um 182.300 starfandi og um 17.100 atvinnulausir og í atvinnuleit. Starfandi fólki fækkaði um 12.500 milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 8.600. Hlutfall starfandi var 69,5% í janúar og hafði minnkað um 6 prósentustig frá janúar 2020.
Núna um áramótin voru gerðar töluverðar breytingar á úrvinnslu vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar með það fyrir augum að draga úr brottfallsskekkju í niðurstöðum og fá fram nákvæmara og stöðugra mat á mannfjölda. Með nýjum vogum benda niðurstöður til þess að atvinnuleysi hafi verið nokkuð vanmetið fram til þessa.
Í apríl 2020 fór atvinnuþátttaka niður í 73,4% og hafði ekki verið lægri a.m.k. frá árinu 2003, þegar vinnumarkaðskönnunin hófst. Atvinnuþátttaka mældist meiri í maí og júní en hefur síðan minnkað og mældist 76% nú í janúar, sem er 2,3 prósentustigum lægra en í janúar 2020. Sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal var atvinnuþátttaka mest um mitt ár 2017, en þá fór hún upp í 82%. Samsvarandi tala nú er 77,2% og hefur atvinnuþátttaka verið á nær stöðugri niðurleið frá 2017 miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða.
Atvinnuleysi samkvæmt mælingum Hagstofunnar var 8,6% í janúar og hafði aukist um 4,4 prósentustig frá janúar 2020. Eins og áður segir hefur Hagstofan nú birt endurmetnar tölur um atvinnuleysi aftur í tímann. Almennt atvinnuleysi skráð hjá Vinnumálastofnun var hins vegar 11,6% og hafði aukist um 6,8 prósentustig frá desember 2020. Því til viðbótar var atvinnuleysi vegna hlutabóta mælt sem 1,2% í janúar. Vinnumarkaðskönnunin mælir því áfram töluvert minna atvinnuleysi en Vinnumálastofnun gerir.
Fjölda starfandi í janúar 2021 hafði fækkað um 6,4% frá janúar 2020. Á sama tímabili lengdist vinnutími um 0,5% þannig að heildarvinnustundum fækkaði um 5,9% milli ára sem er mesta fækkun á einum ársfjórðungi frá því að vinnustundum tók að fækka í upphafi 2020. Vinnuaflsstundum hefur nú fækkað stöðugt frá því í mars 2020.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Áfram mikill slaki á vinnumarkaði – en vonandi er botninum náð