Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir fyrri helm­ing árs­ins 2022

Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins var 5,6 milljarðar króna, þar af 2,3 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár á fyrri helmingi ársins var 4,1%. Arðsemin er undir 10% arðsemismarkmiði bankans, einkum vegna lækkunar á gangvirði hlutabréfaeignar bankans. 
21. júlí 2022 - Landsbankinn
  • Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins var 5,6 milljarðar króna, þar af 2,3 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi.
  • Arðsemi eiginfjár á fyrri helmingi ársins var 4,1%. Arðsemin er undir 10% arðsemismarkmiði bankans, einkum vegna lækkunar á gangvirði hlutabréfaeignar bankans. 
  • Hreinar þjónustutekjur jukust um 24% á milli ára, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum.
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 13%, aðallega vegna stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs.
  • Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og mælist nú 39,3%. 
  • Rekstrarkostnaður bankans heldur áfram að lækka og mælist nú innan við 1,4% af meðalstöðu heildareigna.
  • Útlán til fyrirtækja jukust um 33 milljarða króna á fyrri helmingi ársins, ef gengisáhrifa hefði ekki gætt, aðallega til fyrirtækja í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.
  • Undanfarið hafa mjög margir viðskiptavinir fest vexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Í árslok 2021 voru 29% íbúðalána með fasta óverðtryggðra vexti en hlutfallið var komið í 42% þann 30. júní sl.

Á fyrri árshelmingi námu hreinar vaxtatekjur 21,4 milljörðum króna samanborið við 19,0 milljarða króna á sama tímabili árið áður sem er 13% hækkun á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 5,4 milljörðum króna samanborið við 4,4 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 4,0 milljarða króna en voru jákvæðar um 6,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2021. Virðisbreytingar útlána eru jákvæðar um 43 milljónir króna það sem af er ári samanborið við jákvæðar virðisbreytingar útlána upp á 2,8 milljarða króna á sama tíma á síðasta ári.

Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 2,5% á fyrri helmingi ársins 2022 samanborið við 2,4% hlutfall og á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans var 12,9 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 13,0 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 7,3 milljarðar króna samanborið við 7,5 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 4,5 milljarðar króna, sama fjárhæð og á sama tímabili árið áður.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fyrri helmingi ársins 2022 var 52%, samanborið við 43,7% á sama tímabili árið 2021.

Heildareignir bankans lækka um 1,7 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.728 milljörðum króna í lok fyrri helmings ársins 2022. Útlán jukust aftur á móti um 57,9 milljarða króna á fyrri helming ársins 2022. Í lok fyrri helmings ársins 2022 voru innlán frá viðskiptavinum 935 milljarðar króna, samanborið við 900 milljarða króna í árslok 2021, og höfðu því aukist um 35 milljarða króna.

Eigið fé Landsbankans var 267,7 milljarðar króna þann 30. júní sl. og eiginfjárhlutfall alls var 24,9%.

Aðalfundur bankans, sem haldinn var þann 23. mars 2022, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2021 að fjárhæð 14.409 milljónir króna. Einnig samþykkti aðalfundurinn tillögu bankaráðs um sérstaka arðgreiðslu að fjárhæð 6.141 milljón króna. Arðgreiðslur bankans frá árinu 2013 nema samtals 166,7 milljörðum króna.

Árshlutauppgjör 6M

Fréttatilkynning 21.07.2022

Glærukynning

Fjárhagsbók (pdf) 2. ársfj.

Fjárhagsbók (xls) 2. ársfj.

Áhættuskýrsla - viðauki 2F

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Það er kraftur í bankanum og það sést meðal annars á þeim fjölda nýjunga sem við höfum kynnt að undanförnu. Appið er í stöðugri þróun, verðbréf í appi hafa slegið í gegn og rafræn þinglýsing íbúðalána var frábær áfangi. Markaðshlutdeild bankans heldur áfram að aukast og kannanir sýna að viðskiptavinir eru mjög ánægðir með þjónustuna og að tryggð við bankann hefur aukist.

Eins og uppgjörið ber með sér er rekstur bankans traustur og stöðugur en sveifluliðir tengdir hlutabréfamörkuðum draga úr hagnaði það sem af er ári. Vaxtatekjur aukast í takt við aukin umsvif og þjónustutekjur halda áfram að vaxa, einkum vegna góðs árangurs í eignastýringu og markaðsviðskiptum sem byggir á skýrri stefnu bankans. Rekstrarkostnaður lækkar örlítið frá sama tímabili 2021 en hann hefur verið stöðugur árum saman.

Við höfum haldið úti öflugri lánastarfsemi. Útlán til fyrirtækja jukust um 33 milljarða króna á fyrri árshelmingi, ef horft er framhjá gengisáhrifum. Mesta aukningin var hjá útflutningsgreinum, bæði ferðaþjónustu og sjávarútvegi, sem er skýrt merki um styrk þessara atvinnugreina. Útlán vegna uppbyggingar á íbúðarhúsnæði eru áfram stór þáttur í útlánastarfsemi bankans en í byggingargeiranum er hringrás útlána og endurgreiðslna hraðari sem veldur því að heildarútlán eru í jafnvægi. Við aukum framlag til að mæta mögulegri virðisrýrnun sem helst stafar af aukinni áhættu tengdri hærri verðbólgu og vaxtastigi. Almennt er staða lántaka í dag mjög góð og lítið um vanskil. Við erum með fjölbreytt úrræði til að aðstoða viðskiptavini sem lenda í fjárhagslegum skakkaföllum og hvetjum viðskiptavini til að vera í sambandi við bankann til að fá ráðgjöf eða aðstoð.

Bankinn hefur lengi lagt áherslu á sjálfbærni og nýtt mat frá alþjóðlega matsfyrirtækinu Sustainalytics staðfestir annað árið í röð að það er hverfandi hætta á að bankinn verði fyrir fjárhagslegu tjóni vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Bankinn er þar með meðal fremstu banka í Evrópu á þessu sviði. Þetta er mikilvæg niðurstaða og treystir orðspor Landsbankans. Það er líka ánægjulegt að sjá hversu mörg fyrirtæki eru farin að huga að sjálfbærni því þannig treysta þau reksturinn til framtíðar og stuðla að því að auðlindir séu nýttar vel og á eins ábyrgan hátt og kostur er. Við höldum áfram að veita sjálfbærnimerki Landsbankans til þeirra fyrirtækja sem uppfylla skilyrði um sjálfbæra fjármögnun.

Árangur bankans byggir á traustum grunni og frábæru starfsfólki. Við viljum að vinnustaðurinn sé lifandi og skemmtilegur en líka að starfsfólk hafi sveigjanleika og geti sinnt starfinu í fjarvinnu til lengri eða skemmri tíma þegar það hentar báðum aðilum. Á síðasta ársfjórðungi kynntum við ný viðmið um fjarvinnu og sveigjanleika sem mælast virkilega vel fyrir. Einnig ákváðum við að tryggja starfsfólki í fæðingarorlofi 80% af launum sem kemur sér vel fyrir ungt fólk.

Ég er ánægð með rekstrarniðurstöðuna. Við ætlum að ná markmiði um 10% arðsemi jafnframt því að bjóða viðskiptavinum góð og samkeppnishæf kjör. Við leggjum áherslu á að einfalda viðskiptavinum lífið með snjöllum  lausnum, góðu aðgengi að ráðgjöf og styðja vel við fyrirtækjarekstur og fjárfestingar. Við erum Landsbanki nýrra tíma, banki sem er nútímalegur en með mannlega nálgun. Það skilar sér í traustu viðskiptasambandi og gerir Landsbankann að frábærum samstarfsaðila.“

Helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi (2F) 2022

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á 2F 2022 nam 2,3 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 6,5 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2021.
  • Arðsemi eiginfjár var 3,5% á 2F 2022, samanborið við 9,8% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 11,2 milljarðar króna en þær námu 10,3 milljörðum króna á 2F 2021.
  • Virðisbreyting útlána og krafna var neikvæð um 735 milljónir króna á 2F 2022 samanborið við jákvæða virðisbreytingu upp á 293 milljónir króna á 2F 2021.
  • Hreinar þjónustutekjur námu 2,8 milljörðum króna en voru 2,3 milljarður króna á 2F 2021. 
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna var 2,6% á 2F 2022 en var 2,5% á sama tímabili árið áður. 
  • Laun og launatengd gjöld námu 3,6 milljörðum króna samanborið við 3,7 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2021.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,1 milljarði króna á 2F 2022 samanborið við 2,2 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2021.
  • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á 2F 2022 var 49,3% samanborið við 41,7% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 30. júní 2022 voru 786 en voru 844 á sama tíma fyrir ári.

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans nam 267,7 milljörðum króna í lok júní 2022.
  • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) þann 30. júní 2022 var 24,9% en var 26,6% í lok árs 2021. Það er verulega umfram 18,8% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlits Seðlabankans.
  • Heildareignir bankans námu 1.728 milljörðum króna í lok júní 2022.
  • Útlán jukust um 57,9 milljarða króna á fyrri helmingi ársins 2022. Útlán til einstaklinga jukust um 35 milljarða króna en útlán til fyrirtækja jukust um 23 milljarða króna.
  • Innlán viðskiptavina námu 935 milljörðum króna í lok júní 2022, samanborið við 900 milljarða króna í lok árs 2021.
  • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu sinni í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 144% í lok júní 2022 samanborið við 179% í lok árs 2021.
  • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila voru 0,2% af útlánum. Vegna tímabundinna Covid-19-úrræða og frestunar á greiðslum má ætla að vanskil mælist minni en ella. 

Fjárhæðir í milljónum króna

  1H 2022 1H 2021 2F 2022 2F 2021
Hagnaður eftir skatta 5.557 14.104 2.341 6.487
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 4,1% 10,8% 3,5% 9,8%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna 2,5%

2,4% 2,6% 2,5%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T)* 52,0%
43,7%

49,3% 41,7%
  30.06.2022 30.06.2021 31.12.2021 31.12.2020
Heildareignir 1.728.143 1.677.297 1.729.798 1.564.177
Útlán til viðskiptavina 1.445.399 1.328.031 1.387.463 1.273.426
Innlán frá viðskiptavinum 835.123 842.624 900.098 793.427
Eigið fé 267.650 267.871 282.645 258.255
Eiginfjárhlutfall alls 24,9% 25,1% 26,6% 25,1%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 136% 140% 142% 132%
Heildarlausafjárþekja 144% 180% 179% 154%
Lausafjárþekja erlendra mynta 184% 420% 556% 424%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,2% 0,4% 0,3% 0,8%
Stöðugildi 786 844 816 878

*K/T - Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur - virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri bankans á fyrri helmingi ársins 2022

  • Markaðshlutdeild bankans hélt áfram að vaxa. Hún er nú rúmlega 39,3% á einstaklingsmarkaði. 
  • Við höfum nú opnað fyrir möguleika þriðju aðila til að birta upplýsingar um greiðslureikninga viðskiptavina okkar í sínum eigin lausnum. Með þessu náðum við mikilvægum áfanga við að uppfylla PSD2-tilskipunina og urðum fyrsti íslenski bankinn til að bjóða upp á þennan möguleika. 
  • Við fengum sterk og jákvæð viðbrögð viðskiptavina þegar við ákváðum að fasteignamat 2023 yrði látið gilda sem viðmið við endurfjármögnun um leið og það var birt í júní. Margir viðskiptavinir gátu þannig létt greiðslubyrði sína af húsnæðislánum.
  • Ellefu fyrirtæki hafa nú fengið sjálfbærnimerki Landsbankans. Merkið er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn eða félagsleg verkefni. 
  • Í vor ákváðum við að tryggja fastráðnu starfsfólki 80% af launum í fæðingarorlofi með viðbótarstyrk á móti fæðingarorlofssjóði í sex mánuði. Þetta er gert til að hvetja og auðvelda öllum foreldrum að nýta fæðingarorlofið.
  • Við tókum upp ný viðmið um fjarvinnu og miðum almennt við að starfsfólk vinni fjarvinnu átta daga í mánuði og ekki lengur en tvo daga samfleytt. Fjarvinna getur verið góður kostur en við teljum líka mikilvægt að starfsfólk mæti á vinnustaðinn. Hægt er að óska eftir lengri samfelldri fjarvinnu, s.s. vegna búferlaflutninga eða fjölskylduaðstæðna. 
  • Í maí gerðum við breytingar á innskráningu í netbanka og app sem felast í því að viðskiptavinir, sem nota notandanafn og lykilorð til að skrá sig inn, staðfesta innskráningu með öryggisnúmeri sem berst með SMSi. Ástæðan er nýjar reglur um greiðsluþjónustu. 
  • Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans var viðurkenndur ráðgjafi Alvotech við skráningu félagsins á Nasdaq First North Iceland vaxtarmarkaðinn og var meðal ráðgjafa við hlutafjáraukningu félagsins í aðdraganda skráningar á Nasdaq New York.  
  • Í júní fengu sex verkefni styrk úr Sjálfbærnisjóði Landsbankans. Þetta var í fyrsta skipti sem úthlutað var úr sjóðnum. Við úthlutuðum einnig námsstyrkjum til fimmtán framúrskarandi námsmanna úr Samfélagssjóðnum.
  • Samkvæmt uppfærðu UFS-áhættumati frá Sustainalytics er hverfandi áhætta á að bankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS-þátta).
  • Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í maí að það hefði hækkað lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa útgefnum af Landsbankanum. 
  • Úrslitakeppni Skólahreysti fór fram í maí. Alls tóku lið frá 67 skólum þátt í undanriðlum, tólf kepptu til úrslita og stóð Flóaskóli uppi sem sigurvegari. Landsbankinn er aðalbakhjarl Skólahreysti. 
  • Hagfræðideild Landsbankans birti í maí þjóðhags- og verðbólguspá til ársloka 2024.
  • Landsbankinn varð í maí fyrstur banka til að bjóða upp á rafræna þinglýsingu við endurfjármögnun íbúðalána.
  • Í janúar var greint frá því að Landsbankinn hefði mælst efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu, þriðja árið í röð.

Árshlutauppgjör 6M

Fréttatilkynning 21.07.2022

Glærukynning

Fjárhagsbók (pdf) 2. ársfj.

Fjárhagsbók (xls) 2. ársfj.

Áhættuskýrsla - viðauki 2F

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Austurbakki
22. mars 2024
Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins frá 18. mars sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um kaup bankans á TM tryggingum.
Austurbakki
19. mars 2024
Aðalfundi Landsbankans frestað til 19. apríl
Á fundi bankaráðs Landsbankans þann 19. mars 2024 var ákveðið að fresta aðalfundi bankans, sem vera átti miðvikudaginn 20. mars 2024. Að höfðu samráði við Bankasýslu ríkisins var ákveðið að halda aðalfundinn föstudaginn 19. apríl.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur