Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2022
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins var 3,2 milljarðar króna. Arðsemi eiginfjár var 4,7%. Hreinar þjónustutekjur jukust um 28,5% á milli ára, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum. Hreinar vaxtatekjur jukust um 19%, aðallega vegna þess að efnahagsreikningur er stærri og ávöxtun lausafjár betri. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði mældist 39% í lok tímabilsins, heldur meiri en á sama tíma í fyrra. Kostnaðarhlutfall (K/T) var 54,9% og kostnaður er áfram stöðugur. Hlutfall rekstrarkostnaðar af meðalstöðu heildareigna er 1,4%. Dregið hefur úr vexti íbúðalána en útlán til fyrirtækja jukust um 20,7 milljarða króna, ef gengisáhrifa hefði ekki gætt. Um 90% af nýjum íbúðalánum á fyrsta ársfjórðungi voru óverðtryggð og 58% lánanna voru með fasta vexti, í flestum tilvikum til þriggja ára. Landsbankinn varð aðalleyfishafi hjá Visa sem eykur hagkvæmni í rekstri og gerir bankanum m.a. auðveldara að bjóða upp á nýjungar í kortaþjónustu. Fyrsta rafræna þinglýsing íbúðaláns fór fram í febrúar og var Landsbankinn fyrstur íslenskra banka til að bjóða upp á þessa þjónustu. Kaup í sjóðum Landsbréfa hafa aukist um 30% á milli ára.