Landsbankinn fær lán frá NIB til fjármögnunar lítilla og meðalstórra fyrirtækja
Lánið verður notað til að fjármagna lítil og meðalstór fyrirtæki í ýmsum atvinnugreinum, svo sem fiskveiðum, fiskvinnslu, iðnaði, ferðaþjónustu og uppbyggingar atvinnuhúsnæðis. Lánveitingarákvarðanir verða grundvallaðar á því hve vel verkefnin falla að því markmiði Norræna fjárfestingarbankans að efla samkeppnishæfni og stuðla að umhverfisvernd í aðildarríkjum bankans.
Þetta er annað lánið sem Norræni fjárfestingarbankinn veitir Landsbankanum. Fyrra lánið var veitt árið 2015 og hefur að fullu verið endurlánað í samræmi við stefnu Norræna fjárfestingarbankans.
„Samstarf okkar við Landsbankann, sem miðar að því að ná til lítilla og meðalstórra íslenskra fyrirtækja, hefur verið mjög árangursríkt og það gleður okkar að halda því áfram með nýrri lánveitingu,“ segir Henrik Normann, forstjóri Norræna fjárfestingarbankans.
„Lánasamningurinn við NIB rennir styrkari og fjölbreyttari stoðum undir erlenda fjármögnun Landsbankans. Með samningnum er staðfest, enn og aftur, að bankinn nýtur aukins trausts meðal erlendra lánveitenda. Samvinnan við NIB hefur verið árangursrík og mun hún halda áfram að koma viðskiptavinum okkar til góða ásamt því að styðja vel við samfélagsstefnu bankans,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta aðildarlanda: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. Norræni fjárfestingarbankinn fær hæstu mögulega lánshæfiseinkunn, AAA/aaa, hjá leiðandi matsfyrirtækjunum Standard & Poor’s og Moody’s.