Mikilvægt að þekkja raunveruleg umhverfisáhrif banka
Bankar eru með ákveðna sérstöðu í hagkerfum. Þeir eru hreyfiafl sem getur, ólíkt flestum öðrum tegundum fyrirtækja, snúið ákveðnum hjólum hagkerfisins með stefnum sínum og aðgerðum. Sérstaða banka felst m.a. í því að þeir ákveða hverjum skal lána fjármagn og í hverju á að fjárfesta. Þær ákvarðanir hafa eðlilega afleiðingar fyrir þau sem sækjast eftir fjármögnun. Ekki er hægt að líta fram hjá þessari ábyrgð banka innan hagkerfa við mat á umhverfisáhrifum frá rekstri þeirra. Ákveði banki að lána fjármagn til mengandi starfsemi, getur hann ekki haldið því fram að bankastarfsemi sín sé samt sem áður umhverfisvæn, enda sé hún jú eingöngu skrifstofustarfsemi. Bankar þurfa því að þekkja þessi óbeinu áhrif sín til að geta tekið mið af þeim við ákvarðanir.
Fíllinn í herberginu
Það má segja að óbein umhverfisáhrif bankastarfsemi hafi verið eins og fíllinn í herberginu. Umræðan hefur átt sér stað en skort hefur aðferðafræði til að nálgast vandann. Ekki hefur verið til nein sannfærandi leið fyrir banka að reikna út óbein umhverfisáhrif frá eignasafni sínu, þar með talið frá útlánum til viðskiptavina. Einnig hefur hvatinn verið lítill fyrir banka að taka af skarið og skoða þessi áhrif. Vitneskja um óbeina losun gróðurhúsalofttegunda gæti mögulega komið sér illa fyrir banka út á við, enda munu bankar sem reikna út óbein áhrif gefa upp langtum meiri losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni en þeir sem einungis líta á sig sem skrifstofufyrirtæki.
Undanfarin tvö ár hafa verið mjög merkileg í umhverfi banka með tilliti til sjálfbærni.
PCAF boðar breytta tíma með nýjum loftslagsmæli
Nú hafa margir af stærstu bönkum heims tekið höndum saman og þróað aðferðafræði við að reikna út óbeina losun frá útlánum og eignum banka. Samtökin Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF) hafa nú birt ítarlega aðferðafræði um slíka útreikninga og því er ekki lengur hægt að bera fyrir sig skort á aðferðafræði.
Landsbankinn tók virkan þátt í þróun á aðferðafræði PCAF, einn íslenskra banka, og vinnur nú af krafti að því að meta og skilja óbein áhrif sín.Við höfum sett okkur það markmið að birta upplýsingar um losunarumfang lána- og eignasafns bankans eins fljótt og auðið er. Alls tóku 16 fjármálafyrirtæki víðsvegar að úr heiminum þátt í þróun loftslagsmælsins, þar á meðal Morgan Stanley, Bank of America, ABN AMRO og Robeco. Nú þegar eru 86 fjármálafyrirtæki aðilar að verkefninu.
Í dag er staðan sú að frekar er rýnt í hversu mikið af óbeinum áhrifum bankarnir reikna og birta. Bankar keppast ekki endilega við að sýna fram á sem minnst kolefnisspor, heldur sem bestu upplýsingagjöf og þróun á kolefnisspori. Það að fyrirtæki sýni fram á jákvæða þróun á losun gróðurhúsalofttegunda er því gjarnan talið betra en að hann sýni endilega lágt kolefnisspor.
Erlendir bankar hafa tekið af skarið af einhverju leyti. ABN AMRO hefur til dæmis birt upplýsingar um óbeina losun. Sú losun er margfalt meiri en frá rekstri bankans sem skrifstofufyrirtækis. ABN AMRO er hinsvegar víðsvegar hrósað fyrir þessa upplýsingagjöf, þrátt fyrir að nýjar upplýsingar margfaldi í raun kolefnisspor bankans.
Hvað þýðir þessi þekking?
Með því að mæla óbeina losun frá eignasafni sínu fá bankar áður ónýttar upplýsingar sem má nýta á ýmsan máta. Vöruframboð banka má t.d. sníða þannig að sem mest áhrif náist með tilliti til sjálfbærni. Bankar geta gert fjárfestingar í umhverfisvænni lausnum innan mengandi iðnaða í útlánasafni sínu meira aðlaðandi með bættum kjörum.
Slíkt vöruframboð gæti leitt til minni losunar gróðurhúsalofttegunda innan þess iðnaðar og þar af leiðandi dregið úr óbeinni losun bankans.
HSBC hefur greint frá því að bankinn muni reyna að ná kolefnishlutleysi árið 2050 eða fyrr, að meðtöldu útlána- og eignasafni sínu. Þetta er áhugaverð nálgun hjá HSBC. Með þessari stefnu viðurkennir HSBC um leið áhrif sín í hagkerfinu og að bankinn hafi getu til þess að beina fjárfestingum í átt að kolefnishlutleysi. Upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda má einnig nýta innan áhættugreiningar, ásamt öðrum viðeigandi sjálfbærnimælikvörðum. Þekki bankinn losun gróðurhúsalofttegunda í eignasafni sínu getur hann einnig metið hvaða áhrif kolefnisgjald og önnur tól sem stjórnvöld geta gripið til, geta haft á eignasafn sitt.
Hagkerfin færist í átt að sjálfbærni
Í dag þykir eðlilegt að bankar séu meðvitaðir um og reikni út beina og óbeina losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni. Spurningin er því hvort sú losun lækki með árunum og hvort sú viðleitni banka að þekkja óbein áhrif sín og þær upplýsingar sem úr þeirri vinnu koma, verði í raun nýttar til að þrýsta hagkerfum í átt að kolefnishlutleysi.
Fjármálafyrirtæki munu ekki komast upp með að telja sig til hefðbundinna skrifstofufyrirtækja í nánustu framtíð því almenningur og fjármálaheimurinn veit betur og gerir kröfu um gagnsæi. Aðferðafræðin er til og krafan er skýr um gagnsæi óbeinna áhrifa. Það sama á við aðrar greiningar banka á sjálfbærni í lána- og eignasöfnum sínum. Hér má t.d. nefna grænar eða sjálfbærar fjármálaumgjarðir og hversu mikið af núverandi útlánum fellur undir þær. Líklegt verður að teljast að hlutfall útlána og fjárfestinga sem fellur undir slíkar umgjarðir muni aukast á næstu árum með tilheyrandi vöruframboði og þróun innan hagkerfa í átt að sjálfbærni. Ef ekki dregur úr óbeinni losun, eða hlutfall útlána og fjárfestinga sem falla undir sjálfbærar fjármálaumgjarðir hækkar ekki, eru bankar ekki að ýta hagkerfum í átt að sjálfbærni, heldur að nýta umræðuna til skammgóðs vermis