Það er ekki ofsagt sem heyrist gjarnan að hér hafi orðið hrun - í tónlistarsölu. Árið 1999 seldust 868 þúsund hljóðrit á Íslandi, langmest geisladiskar. Sextán árum síðar voru þau 154 þúsund, eða innan við fimmtungur af því sem var rétt fyrir aldamót.
Bjartsýnisraddir benda á að á móti hefur áskrifendum að tónlistarveitum á borð við Spotify og Tónlist.is fjölgað, sérstaklega allra síðustu ár. Tekjur af streymi hafa margfaldast frá því að þær fóru fyrst að berast árið 2010 en samanlagðar tekjur af sölu og streymi á íslenskri tónlist hafa engu að síður lækkað um 200 milljónir króna síðan. Það er næstum helmingslækkun á nokkrum árum. Það er ansi þungt högg og upphæðirnar sýna vel að plötugerð er enginn milljarðabransi í dag.
Hvernig fara þá tónlistarmenn að því að lifa af? Með ráðdeild og útsjónarsemi, virðist vera. Guðmundur Óskar Guðmundsson, bassaleikari í Hjaltalín, Tilbury og hljómsveit Snorra Helgasonar, hægri hönd Sigríðar Thorlacius og atvinnutónlistarmaður allt frá 2004, segir að það sé voðalega lítill peningur í því að vera í rokkhljómsveit á Íslandi, „jafnvel þótt þú spilir fyrir fullu húsi á Húrra nokkrum sinnum á ári, sem er svona það sem aðrir en þeir allra stærstu geta gert sér vonir um. Í þeim hljómsveitum sem ég hef verið í þá er yfirleitt ekki borgað út heldur er peningunum safnað í sjóð til að borga fyrir upptökur sem koma út á plötum sem enginn kaupir.
Fyrir einhverjum árum síðan gátu hljómsveitir komist af með því að spila úti á landi. Þar voru stöðug böll áratugum saman. Sláturfélagið á Siglufirði hélt þorrablót eða flöskuball eða álíka; það var bara annar kúltúr. Í dag eru bara tónleikar. Á ball fékkstu kannski þúsund manns en maður er að rembast við að smala fimmtíu hræðum á tónleika á landsbyggðinni í dag. Það gengur kannski að fara hringinn ef þú ert einn, í mesta lagi tvö.“ Enda er lykillinn að lifibrauði Guðmundar sá að hann starfar sem undirleikari Sigríðar Thorlacius. Þau koma fram nokkrum sinnum í viku á hvers kyns lokuðum eða opinberum viðburðum þar sem er óskað eftir tónlist og í langflestum tilfellum eru það bara þau tvö sem eru á launaskránni. „Tónlistarflutningurinn þarf því ekki að kosta mikið fyrir kaupandann en tryggir okkur engu að síður mannsæmandi laun,“ segir hann.
Þótt netið hafi gert út af við plötusölu þá hefur það á sama tíma opnað heiminn fyrir íslenskum tónlistarmönnum og auðveldað þeim að koma tónlist sinni á framfæri erlendis.
Fyrir vikið hefur samkeppni meðal tónlistarmanna á alþjóðamarkaði harðnað til muna. Sem dæmi má nefna að á hverri einustu mínútu er tólf klukkustundum af ókeypis frumsömdu efni hlaðið upp á tónlistarveituna SoundCloud. Það þýðir að á hálfum sólarhring er heilu ári af tónlist hlaðið þangað inn. Þegar framboðið af tónlist er svo gríðarlegt þarf kannski ekki að undra að verðið á tónlist nálgist núll. Í þvílíkum hafsjó af nýrri tónlist getur verið erfitt að láta taka eftir sér og því skiptir máli að hafa góða samstarfsmenn. „Ég er með ótrúlega góðan bókara sem vinnur líka fyrir mjög þekkta tónlistarmenn eins og Sufjan Stevens og Bon Iver. Hann sá mig spila á Iceland Airwaves 2012 og eftir að við fórum að vinna saman hef ég fengið miklu betri gigg,“ segir Sóley. Guðmundur bætir við: „Fyrir virkar hljómsveitir sem eru að leita sér að plötusamningi eða verkefnum úti í heimi þá hefur það heilmikið að segja að hafa Iceland Airwaves.“
Gengið í öll störf
Hljómsveitir Guðmundar hafa ekki hlotið sama brautargengi erlendis og Sóley. Hann segir því að það sé mikilvægt að geta gengið í ótal störf innan tónlistargeirans. Hann spilar á bassa inn á plötur og á tónleikum, hann sest í upptökustjórastólinn, framleiðendasætið og semur tónlist fyrir auglýsingar, leikhús og kvikmyndir. „Stundum hef ég áhyggjur af því að ég sé ekki framúrskarandi á neinu þeirra sviða sem ég starfa á. En ég held að það væri ekkert meira að gera hjá mér ef ég væri bassaleikari á heimsmælikvarða - á Íslandi. En þetta hefur líka þróast svona því ég vil geta gert alls konar og skipt um umhverfi og unnið ólík verkefni með ólíku fólki.“
Sumir hafa viðrað áhyggjur af því að tónlistarbransinn sé að þróast á þann veg að tónlistin sjálf verði aukaatriði við hliðina á lækfjölda og Twitter-fylgjendum.