Líf­fræði­leg­ur fjöl­breyti­leiki lyk­ill­inn að far­sæld – líka í fjár­mál­um

Fjölbreytileiki lífríkis er ein sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni. Vinna þarf samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkisins.
13. júní 2023

Sjálfbærni er hugtak sem er öllum tamt í dag enda þótt fáir hafi þekkt það fyrir nokkrum árum. Sjálfbærni er yfirgripsmikið hugtak og undir það falla mörg atriði en mest hefur borið á loftslagsmálum undanfarin ár. Nú er svo komið að fjármálafyrirtæki hafa fellt loftslagsmálin inn í sína verkferla í gegnum loftslagsbókhald yfir beina og óbeina losun gróðurhúsalofttegunda og framkvæma tvöfalda mikilvægisgreiningu (e. double materiality) til að meta bæði fyrir hvaða áhrifum starfsemin getur orðið og hvaða áhrif hún hefur. Fjármálafyrirtæki fylgjast einnig með loftslagsáhættu í gegnum umbreytingaráhættu og raunlæga áhættu sem reksturinn stendur frammi fyrir. Það má því segja að loftslagsmálin séu komin í einhvern farveg, sérstaklega með innleiðingu á nýju regluverki hjá Evrópusambandinu.

Sjálfbærni er oft greind niður í umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) þegar fjallað er um rekstur fyrirtækja og mikilvægt er að sinna þeim öllum vel til að ná fram jákvæðum rekstraráhrifum. Rannsókn Eccles, Ioannou og Serafeim á 180 fyrirtækjum á árunum 1993 til 2009 sýndi fram á að afkoma fyrirtækja sem sinna sjálfbærnimálum er marktækt betri, hvort sem þau eru á markaði eða ekki.1 Árangurinn felst í samspili þessara þriggja þátta og til þess að hægt sé að hlúa að félagslegum þáttum og stjórnarháttum þarf að tryggja stöðugleika og öryggi í náttúrunni, þ.e. í umhverfismálum. Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni og þess vegna hafa loftslagsmálin verið sá hluti sjálfbærni sem mesta athygli hafa hlotið undanfarin ár. Nú hefur kastljósið einnig færst yfir á líffræðilegan fjölbreytileika.

Hvað er líffræðilegur fjölbreytileiki og hvers vegna er hann mikilvægur?

Í grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa segir:

„Líffræðileg fjölbreytni nær yfir allar tegundir dýra, plantna, sveppa, og annarra lífvera s.s. bakteríur og veirur sem finnast á jörðinni, þann breytileika sem er milli einstaklinga sömu tegundar og allt erfðaefni þeirra. Líffræðileg fjölbreytni fjallar einnig um búsvæði allra lifandi lífvera, vistkerfi og vistgerðir sem þær mynda og sjálfbæra nýtingu þeirra.“2

Eins og nefnt var hér áðan hefur mikilvægi fjölbreytilegs lífríkis ekki verið gert jafn hátt undir höfði og loftslagsbreytingum. Samt sem áður verður ekki hægt að tryggja stöðugleika fyrir líf á jörðu öðruvísi en að tryggja fjölbreytileika lífríkis. Eftirfarandi mynd eftir Ed Hawkins3, einn höfunda sjöttu skýrslu IPCC, sýnir þróun meðalhitastigs á jörðinni frá 1850 til dagsins í dag. Það er greinilegt að jörðin hefur hitnað hratt síðustu áratugi en það sést á því að meðalhiti hvers árs er túlkaður á litrófi þar sem blátt er kaldast en rautt heitast.

Mynd sótt af síðu: https://www.science.smith.edu/climatelit/warming-stripes/

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum er fjölbreytileiki lífríkis sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni.4 Evrópusambandið hefur einnig bent á að áhrifaríkast væri að vinna samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkis og var fjallað um það á COP26 í Glasgow 2021.5 Rúmlega ári síðar, á COP15 í Montreal, náðist tímamótasamkomulag um verndun fjölbreytileika lífríkis: Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework eða Kunming-Montreal samkomulagið. Yfir 200 ríki, Ísland þar á meðal, hafa undirritað samkomulagið og ætla að tryggja verndun a.m.k. 30% haf- og landsvæða fyrir 2030.6

Eins og myndin hér á undan sem sýnir meðalþróun hitastigs á jörðinni frá því 1850 sýnir sambærileg mynd byggð á gögnum úr Living Planet Index gagnagrunninum þróun fjölbreytileika lífríkis frá árinu 1970. Sú mynd sýnir hnignun fjölbreytileika lífríkis frá grænu yfir í grátt, þar sem grænt táknar fjölbreytileika lífríkis og grátt hnignun þess. Þegar þessar myndir eru skoðaðar saman er augljóst að hlýnun jarðar og hnignun fjölbreytileika lífríkis helst í hendur.

Mynd sótt af síðu: https://biodiversitystripes.info/globalbiowarming

Verndun fjölbreytileika lífríkis er algjört grundvallaratriði og snýst í raun um að verja tilvist mannkynsins, enda tilheyrum við lífríki og vistkerfi Jarðar rétt eins og aðrar dýrategundir.

Mikilvægi fjármagns

World Economic Forum telur að helmingur vergrar landsframleiðslu heimsins, um 44 billjónir Bandaríkjadala (e. trillion), velti á fjölbreytileika lífríkis og að eyðing þess stöðvist.7 Nægilegt fjármagn hefur verið skilgreint sem lykilatriði til að ná markmiðum Kunming-Montreal samkomulagsins í ljósi þess að það þarf að tryggja aðgang fátækari ríkja að nægu fjármagni til að stuðla að verndun líffræðilegs fjölbreytileika.

Fjármagn skiptir því sköpum. Þess vegna er fjármálakerfið svo mikilvægt í umbreytingarferlinu sem við erum stödd í núna. Ef fjármagni er ekki úthlutað í verkefni sem hafa neikvæð áhrif á loftslagið og líffræðilegan fjölbreytileika koma þau að sjálfsögðu ekki til framkvæmda. Fjármálakerfið er ekki síður mikilvægt til að stuðla að jákvæðum breytingum og getur t.d. lagt áherslu á að fjármagna umbreytingu þeirra fyrirtækja sem hafa neikvæð áhrif yfir í rekstur sem hefur hlutlaus eða jákvæð áhrif á loftslagið og líffræðilegan fjölbreytileika. Þessa þróun höfum við séð eiga sér stað í fjármálakerfinu í tengslum við loftslagsmál undanfarin ár og þar fer Evrópusambandið fremst í flokki með tilheyrandi reglugerðum og flokkunarkerfi til að samræma og stýra aðgerðum fjármálafyrirtækja. Evrópusambandið horfir líka til fjármálakerfisins þegar kemur að líffræðilegum fjölbreytileika og ætlar til að byrja með að tryggja fjármagn til þess að vinna að markmiðum ESB í átt að líffræðilegum fjölbreytileika fyrir árið 2030.8

Samstillt átak þarf til að stöðva hnignun fjölbreytileika lífríkis. Við erum samt ekki alveg á byrjunarreit  og getum horft til reynslu fyrri ára og þeirra aðferða sem hafa verið innleiddar til að bregðast við loftslagsbreytingum.

Nauðsynlegt að meta og skilja eigin áhrif

Til þess að bregðast á áhrifaríkan hátt við neikvæðum áhrifum á líffræðilegan fjölbreytileika og beina fjármagni í rekstur sem eflir jákvæð áhrif þarf að greina og þekkja þessi áhrif. Samtök um þróun bókhalds fyrir líffræðilegan fjölbreytileika (Partnership for Biodiversity Accounting Financials (PBAF)) eru systursamtök Samtaka um þróun loftslagsbókhalds fyrir fjármálafyrirtæki (Partnership for Carbon Accounting Financials (PCAF)) sem þróuðu fyrstu samræmdu og vísindalegu aðferðafræðina til að mæla fjármagnaða óbeina losun gróðurhúsalofttegunda hjá fjármálafyrirtækjum. Hlutverk PBAF er að búa til samræmda og vísindalega aðferðafræði til að mæla áhrif fjármálafyrirtækja á líffræðilegan fjölbreytileika.9 Þegar áhrifin eru þekkt er hægt að setja markmið, tímasetja þau og gera aðgerðaráætlun til að ná þeim.

Annað nauðsynlegt skref er að meta hversu útsett fyrirtæki eru fyrir áhættu vegna breytinga á fjölbreytileika lífríkis. Seðlabankar heims hafa flokkað hnignun fjölbreytileika lífríkis sem kerfislæga áhættu (e. systemic risk), rétt eins og loftslagsbreytingar.10 Til að meta áhættu af völdum loftslagsbreytinga nota flest, ef ekki öll, fjármálafyrirtæki aðferðafræði starfshóps um upplýsingagjöf vegna loftslagsbreytinga (Taskforce on Climate-related Financial Disclosures (TCFD)) og nú hefur verið settur á fót starfshópur um upplýsingagjöf vegna umhverfismála (Taskforce on Nature-related Financial Disclosures (TNFD)).11 Tilgangur TNFD er að meta áhættu af völdum hnignunar fjölbreytileika lífríkis fyrir starfsemi fjármálafyrirtækja.Mjög einföld útskýring á afurð TNFD-mats er hitakort yfir kerfislæga áhættu sem fyrirtæki standa frammi fyrir ef röskun verður á fjölbreytileika lífríkis. Lagt er mat á umfang hverrar áhættu og hverjar fjárhagslegu afleiðingarnar gætu orðið ef hún raungerist. Fyrirtæki geta byggt viðbrögð sín og áhættustjórnun á þessu mati.

Oft var þörf, en nú er nauðsyn

Horft fram á veginn er alveg ljóst að til að tryggja áframhaldandi stöðugleika fyrir afkomu mannkyns þarf að bregðast við bæði loftslagshlýnun og hnignun líffræðilegs fjölbreytileika. Þetta tvennt er óaðskiljanlegt. Nái heimurinn ekki markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C að meðaltali mun loftslagshlýnun verða aðalvaldur hnignunar fjölbreytileika lífríkis.12 Áframhaldandi hnignun fjölbreytileika lífríkis hefur á sama hátt áhrif til aukinnar loftslagshlýnunar. Fjármálakerfið er í lykilstöðu til að hafa áhrif til góðs eða ills, ekki einungis til að tryggja afkomu fyrirtækja heldur mannkynsins alls.

Greinin birtist fyrst í Vísbendingu 26. maí 2023.

Heimildir

  1. Eccles, R. G., Ioannou, I., & Serafeim, G. (2014). The Impact of Corporate Sustainability on Organizational Processes and Performance. Management Science, 60(11), 2835–2857. http://www.jstor.org/stable/24550546
  2. Grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa.
  3. Warming stripes used in latest IPCC report.
  4. Biodiversity - our strongest natural defense against climate change.
  5. Climate change and biodiversity loss should be tackled together.
  6. COP15 ends with landmark biodiversity agreement.
  7. Half of World’s GDP Moderately or Highly Dependent on Nature, Says New Report.
  8. Nature and biodiversity.
  9. A Biodiversity Accounting Standard for the Financial Industry.
  10. Central banking and supervision in the biosphere: an agenda for action on biodiversity loss, financial risk and system stability.
  11. Taskforce on Nature-related Financial Disclosures.
  12. WWF (2022) Living Planet Report 2022 – Building a naturepositive society.

Þú gætir einnig haft áhuga á
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
29. nóv. 2023
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Myndlistarsýning
17. ágúst 2023
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Sýningin Hringrás er úrval verka úr listasafni Landsbankans. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur