Hinsegin félagsmiðstöðin hóf starfsemi árið 2016 og er ætluð börnum og ungmennum upp að 18 ára. Mætingin hefur aukist jafnt og þétt og starfið orðið öflugra með hverju árinu sem líður.
Yrsa Björt Leiknisdóttir Kvien, sem er sjálfboðaliði hjá félagsmiðstöðinni, bendir á að þótt félagsmiðstöðin starfi í Reykjavík komi krakkarnir úr mörgum bæjarfélögum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og af landsbyggðinni. „Við erum með opið einu sinni í viku, á þriðjudagskvöldum. Krakkarnir sem eru á aldrinum 13-16 ára hittast í Hinsegin félagsmiðstöðinni en eldri hópurinn hittist á Suðurgötunni í húsnæði Samtakanna ´78. Við fáum að meðaltali alls um 130 krakka á hverja opnun.“ Það þykir góð mæting í hvaða félagsmiðstöð sem er og óvíst hvort mætingin sé einhvers staðar betri, þ.e. á einu kvöldi.
Atriði Hinsegin félagsmiðstöðvar var eitt af fimmtán sem hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Landsbankans og Hinsegin daga en Landsbankinn hefur verið stoltur styrktaraðili hátíðarinnar frá upphafi.
Ekki eru öll sem koma í Hinsegin félagsmiðstöðina komin út úr skápnum, en sækjast eftir starfinu og félagsskapnum. Öll eru krakkarnir velkomin og að flestu leyti er allt eins og í hverri annarri félagsmiðstöð. Stundum er boðið upp á brjóstsykursgerð, bíókvöld eða spilakvöld og svo framvegis en þar sem krakkarnir móta dagskrána að miklu leyti sjálf er að sjálfsögðu mikið fjallað um málefni sem standa þeim nærri.
Ungmennin ekki örugg hvar sem er
Þegar Yrsa er spurð hvers vegna þörf sé á sérstakri félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni nefnir hún fyrst að börnin upplifi að þar séu þau örugg. „Þau eru nefnilega ekki örugg hvar sem er. Það er mikið áreiti í garð hinsegin ungmenna og það hefur aukist. Hér finna þau að þau eru í öruggu umhverfi og þeim er tekið eins og þau eru. Hér þurfa þau ekki að útskýra neitt,“ segir Yrsa.
Meðal þess sem rætt er um í félagsmiðstöðinni er þetta aukna áreiti. „Við vorum komin á ágætan stað, þótt ástandið hafi ekki verið fullkomið. En eftir Covid-faraldurinn kom bakslag. Það er ekki bara mín skoðun heldur er þetta altalað í hinsegin samfélaginu.
Núna er rosalega mikið áreiti í garð trans fólks og hinsegin ungmenna. Ungmennin verða fyrir öðruvísi og nýrri tegund af áreiti sem er mikið til á netinu, á TikTok, Instagram og öðrum samfélagsmiðlum. Það eru tekin af þeim myndbönd og sett á netið með niðrandi hætti. Og ef þau setja sjálf inn færslur eiga þau á hættu að fá mjög ljótar athugasemdir þar sem þau eru jafnvel hvött til að fyrirfara sér,“ segir hún. Áreiti eigi sér líka stað í raunheimum, t.d. með því að gerendur gelti á hinsegin ungmenni í strætó. Yrsa segir að áreiti sem þetta, sérstaklega þegar ungmenni eiga í hlut, sé mjög alvarlegt og geti haft miklar og ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
„Þau koma hingað í félagsmiðstöðina og við ræðum þessi mál. Hér starfar fjölbreyttur hópur og öll geta þau fundið einhvern sem þau geta treyst og rætt við. Við höfum verið með kynningar um hvernig eigi að takast á við þetta og nýtt okkur aðstoð frá Samtökunum ‘78 sem bjóða upp á alls konar hjálp.“
Hvað þarf að breytast til að baráttan sé búin?
Síðustu daga hafa krakkarnir í félagsmiðstöðinni, starfsfólk og sjálfboðaliðar unnið hörðum höndum að því að undirbúa vagninn fyrir gleðigönguna en félagsmiðstöðin hefur tekið þátt frá árinu 2017. Vagninn er engin smásmíði, hvorki meira né minna en 14 metrar og með pláss fyrir yfir 100 krakka.
Yrsa segir að vagninn sé litríkur og stórglæsilegur. Um leið verður mikilvægum skilaboðum komið rækilega á framfæri því á hlið vagnsins verður ritað stórum stöfum: „Baráttan er ekki búin fyrr en …“ og síðan verður setningin botnuð á skiltum frá krökkunum þar sem mun koma fram hvað þeim finnist að þurfi að breytast svo segja megi að baráttan sé búin. Setningarnar eru botnaðar á ýmsan hátt, meðal annars svona:
Baráttan er ekki búin fyrr en setningin „þetta er bara tímabil“ hverfur.
Baráttan er ekki búin fyrr en við fáum jöfn réttindi.
Baráttan er ekki búin fyrr en amma og afi samþykkja baráttuna.
„Félagsmiðstöðin og þátttaka okkar í gleðigöngunni er mikilvæg. Hinsegin ungmenni þurfa að finna og sjá að þau eru hluti af samfélaginu, jafnvel þó þau upplifi oft að þau passi ekki inn í það,“ segir Yrsa.
Stöndum með þeim í allri þeirra baráttu
Hinsegin félagsmiðstöðin er samvinnuverkefni Samtakanna ‘78 og Félagsmiðstöðvarinnar Tjarnarinnar sem er rekin af Reykjavíkurborg. Hluti starfsfólks er á launaskrá en flestir eru sjálfboðaliðar, líkt og Yrsa. „Ég gerðist sjálfboðaliði vegna þess að systir mín hefur sótt hingað síðan hún var 13 ára. Ég er líka svo heppin að tilheyra stórum vinahópi með hinsegin einstaklingum. Mig langaði að styðja við þetta samfélag og sýna að það er til fólk sem er ekki endilega hinsegin en stendur samt við bakið á þeim öllum og í allri þeirra baráttu.“
Og sú barátta er greinilega alls ekki búin.
Myndirnar sem fylgja greininni tók Birgir Ísleifur Gunnarsson.