Allir þurfa að borða, greiða leigu eða afborganir af fasteignalánum. Það þarf líka að borga fyrir sjónvarpsáskriftirnar og símanotkunina. Áhugamálin kosta sitt, svo ekki sé talað um útgjöld vegna blessaðra barnanna. Svigrúmið til að skera niður föst útgjöld þannig að virkilega muni um í heimilisbókhaldinu er oft lítið. Ein uppspretta fastra útgjalda liggur þó vel við höggi og betur en flestar aðrar, nefnilega einkabíllinn.
Mánaðarlegur kostnaður við bílinn 93.000 kr.
Allir vita að það er dýrt að reka bíl en margir súpa hveljur þegar þeir átta sig á að kostnaður við að eiga og reka nýjan bíl er hvorki meira né minna en 93.000 krónur á mánuði, eða um 1,1 milljón króna á ári, samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda. Þetta er lægsta upphæðin sem FÍB gefur upp og miðar við bíl sem kostar 2,6 milljónir króna og er ekið um 15.000 km á ári. Hér er ekki reiknað með kostnaði við bílalán því FÍB reiknar með að bíllinn hafi verið staðgreiddur en á hinn bóginn er gert ráð fyrir kostnaði við að hafa fjármagn bundið í bílnum. Eftir því sem bíllinn er dýrari, þyngri og eyðslufrekari er kostnaðurinn auðvitað meiri. Árlegur kostnaður við að reka og eiga bíl sem kostar 4,8 milljónir króna er um 140.000 krónur á mánuði, eða um 1,7 milljónir króna á ári.
Margir bíleigendur malda eflaust í móinn þegar þeir sjá þessar tölur og segja að það geti nú ekki verið svona dýrt að eiga einn bíl. Þeim má benda á að FÍB vandar til verka og miðar m.a. tölur um verðrýrnum við upplýsingar sem eru unnar upp úr gögnum frá bílasölum bifreiðaumboðanna. Efasemdarmenn geta kíkt á útreikninga FÍB.
Ígildi ríflegrar kauphækkunar
Árið 2017 voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 706.000 krónur á mánuði. Miðgildi heildarlauna var 618.000 krónur sem þýðir að helmingur launamanna var með laun undir þeirri upphæð og helmingur yfir. Fyrir launamann sem er með 618.000 krónur í heildartekjur munar augljóslega mikið um 93.000 króna útgjöld á mánuði. Með því að selja bílinn, þennan sem kostaði 2,6 milljónir króna, getur meðalmaðurinn aukið ráðstöfunartekjur sínar um 22% á mánuði. Ef hann vill eiga bílinn áfram en samt auka ráðstöfunartekjur sínar um 93.000 krónur á mánuði þyrftu laun hans að hækka úr 618.000 krónum upp í um 780.000 krónum, eða um tæplega 27%.
Glöggir lesendur taka sjálfsagt eftir að hér er ekki gert ráð fyrir kostnaði við reiðhjólið. Það skiptir þó í rauninni ekki miklu máli í stóra samhenginu. Reiðhjól eru ekki ýkja dýr og það er ekki kostnaðarsamt að halda þeim við. Á mörgum vinnustöðum eru þar að auki í boði samgöngustyrkir fyrir þá sem hjóla eða taka strætó.
Óþarfi að finna upp hjólið
Auðvitað geta ekki allir hjólað til vinnu. Sumir þurfa að sækja vinnu um langan veg eða geta vegna annarra aðstæðna ekki sleppt bílnum. Það er hins vegar ljóst að margir sem keyra í vinnuna gætu allt eins hjólað þangað. Andlegan stuðning, góð ráð og félagsskap má sækja víða, m.a. hjá Samtökum um bíllausan lífsstíl (Facebook), og Landssamtökum hjólreiðamanna. Ég ætla ekki að tíunda hér um jákvæð áhrif hjólreiða í stað bílferða á umhverfið og eigin heilsu, til þess þyrfti lengri grein.
Ég tala af reynslu. Ég hafði lengi haft hug á að selja annan fjölskyldubílinn og hjóla í vinnuna og tækifæri til þess gafst snemma árs 2009, eftir að ég flutti aðeins nær þáverandi vinnustað. Ég hef hjólað til og frá vinnu síðan, allan ársins hring. Ég mæli með hjólreiðum við hvern sem er. Ekki bara vegna hins gríðarlega fjárhagslega ávinnings (samtals um 10 milljónir króna frá 2009 en hvert fóru þær?) heldur aðallega vegna þess að það er hressandi og skemmtilegt og gerir mann fallegri og gáfaðri.
Þessi pistill er í raun uppfærður pistill frá 2014 sem líka birtist hér á vefnum.