Launasumma, fjöldi starfsfólks og meðaltekjur – mismunandi breytingar
Launasumman, staðgreiðsluskyld laun allra á vinnumarkaði, hækkaði um 9,5% milli áranna 2020 og 2021 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Launavísitalan hækkaði um 8,3% á sama tíma og því hækkuðu heildarlaunatekjur Íslendinga mun meira en föst mánaðarlaun. Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,4% á þessum tíma þannig að launasumman hefur hækkað um u.þ.b. 4,9% að raungildi.
Frá árinu 2015 hefur launasumman aukist um 49% að meðaltali á nafnvirði í öllum atvinnugreinum. Sé litið til valinna greina hefur launasumman aukist mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, eða rúmlega tvöfaldast, og þar hefur þróunin verið nokkuð jöfn upp á við. Þarnæst hefur launasumman aukist mest í opinberri stjórnsýslu, með um 65% hækkun og mjög jafnri þróun. Sveiflur hafa verið meiri í öðrum greinum, aðallega í ferðaþjónustu, þar sem launasumman var um 22% meiri 2021 en hún var 2015. Miklar breytingar hafa orðið í ferðaþjónustunni þar sem launasumman var 75% meiri 2018 en hún var 2015. Sjávarútvegur og fjármála- og vátryggingarstarfsemi hafa nokkra sérstöðu meðal þessara greina. Þar hefur launasumman aukist minnst og á það einkum við um fjármála- og vátryggingarstarfsemina.
Fjöldi starfsfólks í öllum greinum jókst um 9% milli 2015 og 2021, en einungis um 1,2% milli 2020 og 2021. Af völdum greinum hefur fjöldi starfsfólks aukist langmest í byggingarstarfsemi. Þar náði fjöldinn hámarki árið 2019 og hefur minnkað dálítið síðan. Frá 2015 til 2021 fjölgaði starfsfólki í byggingarstarfsemi um nær 50%, þar af um 4,6% milli 2020 og 2021. Sveiflan í ferðaþjónustunni er aðeins minni en gilti með launagreiðslurnar, en engu að síður mjög mikil. Enn og aftur hafa sjávarútvegur og fjármála- og vátryggingarstarfsemi sérstöðu meðal þessara greina, en þar var um nær stöðuga fækkun starfsfólks að ræða milli 2015 og 2021.
Meðaltekjur í öllum greinum voru samkvæmt þessum tölum um 650 þús. kr. á mánuði 2021 og höfðu hækkað úr 600 þús. kr. árið áður. Tekjur voru hæstar í fiskveiðum, um 1.345 þús. kr. á mánuði, og næsthæstar í fjármála- og vátryggingarstarfsemi, um 930 þús. kr. Þar á eftir kom sjávarútvegur, sem er samtala fiskveiða og fiskvinnslu. Tekjur í fiskveiðum voru um tvöfalt hærri en í fiskvinnslu. Þá má einnig benda á að laun í fiskeldi eru töluvert hærri en í fiskvinnslu.
Lægstu tekjurnar voru í landbúnaði á árinu 2021, um 313 þús. kr. á mánuði, og næstlægstar í gistingu og veitingastarfsemi, um 358 þús. kr. á mánuði. Í þessum greinum kann fjöldi hlutastarfa að skipta miklu máli.
Á milli 2020 og 2021 hækkuðu launagreiðslur langmest í gistingu og veitingastarfsemi, um rúm 20%. Það er nokkuð ljóst að faraldurinn hefur haft mjög mikil áhrif á þá atvinnugrein þar sem hvorugt árið getur talist dæmigert. Næstmesta hækkun launagreiðslna var í fiskvinnslu, um 12%. Minnsta hækkun launagreiðslna milli ára var í fjármála- og vátryggingarstarfsemi og í ýmissi sérhæfðri þjónustu, innan við 1%.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Launasumma, fjöldi starfsfólks og meðaltekjur – mismunandi breytingar