Samantekt
Síðustu ár hefur íbúðaverð víða hækkað hraðar á þéttbýlissvæðum utan höfuðborgarsvæðis en innan þess. Í Árborg hefur verð tvöfaldast frá upphafi árs 2015 á sama tíma og verð hækkaði um 49% á höfuðborgarsvæðinu. Svipaða sögu er að segja um Reykjanesbæ þar sem verð hefur hækkað um meira en 90%. Verð á Akranesi og Akureyri hafa einnig hækkað meira en á höfuðborgarsvæðinu.
Á þeim svæðum þar sem verðhækkanir hafa verið hvað mestar hefur gengið vel að selja nýjar íbúðir. Líkt og greint var frá í Hagsjá Hagfræðideildar í síðustu viku hefur meirihluti seldra íbúða í Árborg á þessu ári verið í nýbyggingu. Ekkert var hins vegar selt af nýjum íbúðum þar á árunum 2015 og 2016 og því nokkuð skarpar verðhækkanir sem koma fram núna þegar nýjar, og þar með dýrari íbúðir, vega þyngra í sölu.
Fermetraverð nýbygginga er lægst í Árborg, tæplega 380 þús.kr., og hæst á höfuðborgarsvæðinu, rúmlega 550 þús.kr. Á báðum þessum svæðum eru seldar nýbyggingar tæplega 100 m2 að stærð. Á Akureyri er að finna næsthæsta fermetraverð nýbygginga, um 450 þús.kr., en seldar nýbyggingar, það sem af er ári, eru rúmlega 80 m2 að stærð þar. Í Reykjanesbæ hafa nýjar íbúðir selst á tæplega 400 þús. kr. á fermetra.
Margir þættir hafa áhrif þegar kemur að ákvörðun fólks um búsetusvæði og er lægra íbúðaverð sennilega með þeim veigamestu. Nýbyggingar eru á bilinu 25-32% ódýrari á hvern fermetra í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins samkvæmt þinglýstum kaupsamningum á árinu og hefur það mjög líklega sterk áhrif á val fólks um búsetusvæði.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Líflegur íbúðamarkaður utan höfuðborgarsvæðisins (PDF)