Samantekt
Í september komu um 180 þús. ferðamenn til landsins um Leifsstöð og voru þeir 21% færri en í september fyrir ári síðan. Allt frá áramótum hefur verið stöðug fækkun á mánaðarlegum komum ferðamanna til landsins samanborið við sama mánuð árið áður og á fyrstu 9 mánuðum ársins komu 14% færri ferðamenn til landsins samanborið við fyrstu 9 mánuðina í fyrra.
Fækkun ferðamanna hefur auðvitað þau áhrif að erlend kortavelta hér á landi dregst einnig saman. Kortaveltan dróst saman um 10% í september samanborið við sama tíma í fyrra í krónum talið og um 16% sé litið til veltunnar miðað við fast gengi.
Ef heildarkortaveltu erlendra greiðslukorta er deilt niður á fjölda ferðamanna má áætla meðaleyðslu hvers ferðamanns. Miðað við þann mælikvarða eyddi hver ferðamaður um 119 þús. kr. í heimsókn sinni hér á landi í september sem er 14% meira en hver ferðamaður eyddi í september í fyrra í krónum talið. Gengið veiktist yfir tímabilið sem gerir það að verkum að kaupmáttur ferðmanna jókst og því gátu þeir eytt fleiri krónum án þess að vera að eyða meiru í sinni eigin mynt.
Hver ferðamaður sem kom hingað til lands í september dvaldi að meðaltali 5,4 nætur, óháð gististað, sem er heilli gistinótt lengur en meðal ferðamaðurinn dvaldi hér á landi í september í fyrra. Það kemur því ekki á óvart að meðalkortavelta ferðamanna hafi aukist þegar dvalartíminn lengist.
Ferðamenn virðast þó eyða minna á hvern dag eftir því sem dvölin verður lengri. Í september eyddi hver ferðamaður um 160 evrum á dag sem jafngildir 22 þús. kr. Fyrir ári síðan eyddi hver ferðamaður 183 evrum á dag sem jafngilti rúmum 23 þús. kr. Samdrátturinn í september varð meiri í evrum en í krónum sem skýrist af gengisveikingu krónunnar.
Lesa Hagsjána í heild









