Áfram mikil hækkun launavísitölu í október
Launavísitalan hækkaði um 0,5% milli september og október samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,6%, sem er svipaður árstaktur og verið hefur síðustu mánuði.
Launavísitalan hækkaði um 3,7% í janúar vegna áfangahækkana í kjarasamningum og hefur hækkað nokkuð jafnt og þétt síðan. Hún hefur nú hækkað um samtals 7% á fyrstu tíu mánuðum ársins. Ekki hefur verið um almennar launahækkanir að ræða samkvæmt kjarasamningum síðan í janúar og kjarasamningsbundnar hækkanir verða næst í janúar 2022. Árshækkunartaktur launa hefur verið vel ofan við 7% allt frá því í október 2020 sem er töluvert hærra en hefur verið frá miðju ári 2017.
Verðbólga í október mældist 4,5% en árshækkun launavísitölunnar um 7,6%. Kaupmáttur launa jókst því um 3% þrátt fyrir óvenju mikla verðbólgu. Kaupmáttaraukning launa er því áfram nokkuð stöðug og mikil í sögulegu samhengi. Kaupmáttarvísitalan hefur lækkað eilítið frá því í janúar og var kaupmáttur launa í október 1% lægri en í janúar, en þá var kaupmáttur í sögulegu hámarki.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli ágústmánaða 2020 og 2021 sést að laun á almenna markaðnum hækkuðu um 6,3% á þessum tíma og um 11,3% á þeim opinbera; þar af 9,9% hjá ríkinu og 13,2% hjá sveitarfélögunum.
Opinberi markaðurinn hefur þannig verið leiðandi í launabreytingum á tímabilinu. Launastig er almennt lægra á opinbera markaðnum en á þeim almenna og því eðlilegt að kjarasamningsbundin krónutöluhækkun launa skili sér í hlutfallslega meiri hækkunum vegna áfangahækkana. Á þessu ári hefur hluti hækkunarinnar á opinbera markaðnum komið til vegna vinnutímastyttingar, líkt og gerðist á almenna markaðnum í fyrra. Áhrif styttingar vinnutíma eru á hinn bóginn ekki metin inn í launavísitölu nema þau séu talin ígildi launahækkana.
Í nokkurn tíma hefur verið ljóst að mögulega myndu laun hækka vegna hagvaxtarauka í maí á næsta ári og myndu þær hækkanir koma til viðbótar launahækkunum 1. janúar nk. Þann 1. janúar 2022 munu taxtalaun hækka um kr. 25.000 á mánuði og öll önnur laun um kr. 17.250. Sé tekið mið af nýrri spá Seðlabankans um hagvöxt og fólksfjöldatölum Hagstofunnar má gera ráð fyrir að taxtalaun hækki svo aftur um kr. 8.000 þann 1. maí 2022 og öll önnur laun um kr. 6.000. Gangi spá Seðlabankans eftir má ætla að samsvarandi launahækkanir verði kr. 13.000 og 9.750 þann 1. maí 2023.
Í kjölfar síðustu stýrivaxtaákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabankans hefur umræða um launaþróun verið óvenju hvöss. Bæði seðlabankastjóri og einstakir nefndarmenn peningastefnunefndar hafa tekið sterkt til orða út af stöðunni og hefur þeim verið svarað fullum hálsi úr röðum samtaka launafólks.