Netöryggisleikur Landsbankans spilaður 25.500 sinnum

Í byrjun nóvember gaf Landsbankinn í fyrsta sinn út leik sem miðaði að því að efla vitund og þekkingu um netöryggi. Markmiðið með því að nota leikjaformið var að virkja fólk til varna um eigið netöryggi.
Leikurinn er í formi spurninga þar sem þátttakandi þarf að greina á milli sanns og ósanns, svikapósta og raunverulegra samskipta á virkan hátt. Þannig þurfti að flokka myndir, henda svikaskeytum í ruslið og svara spurningum um góðar netöryggisvenjur. Leikurinn var opinn öllum og birtur á vef bankans. Þau sem stóðu sig vel í leiknum áttu möguleika á að vinna 25.000 Aukakrónur.
Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi farið fram úr væntingum, en á tæpum mánuði var leikurinn spilaður rúmlega 25.500 sinnum og næstum 14.000 þátttakendur komust í lukkupottinn. Dregið var úr pottinum í gær og fá þrír flinkir netöryggissérfræðingar Aukakrónur frá bankanum. Við óskum þeim til hamingju og þökkum öllum fyrir þátttökuna.
Þó enginn vinningur sé í boði lengur er enn hægt að spila leikinn og æfa sig í góðum netöryggisvenjum. Við mælum með því!









