Leikir sem fræðsla um netöryggi

Með miðlun á þeirri miklu sérfræðiþekkingu sem í bankanum býr viljum við efla fjármálalæsi, stuðla að fjárhagslegri heilsu viðskiptavina og hafa jákvæð áhrif á samfélagið.
Fræðsla og traust upplýsingagjöf er ein besta leiðin sem við höfum til að efla þekkingu og vitund um mikilvæg mál sem snerta alla – fjármál. Það er okkur því kappsmál að nota öll verfærin sem í boði eru til að ná til sem flestra og á sem breiðustum grunni. Við höfum um árabil gefið út greinar, bæði á okkar eigin vef og í blöðum. Sérfræðingar bankans eru duglegir að mæta í viðtöl og við höldum vinsæla fræðslufundi um fjölbreytt efni víðs vegar um land. Á síðustu árum höfum við tekið samfélagsmiðla æ meira í notkun og birtum þar létt og fræðandi efni sem gjarnan byggir meira á myndskeiðum en texta. Við leitum alltaf leiða til að þróast og auka fjölbreytni í miðlun fræðslu og markaðsefnis.
Með það mið fyrir augum höfum við nú bætt þrautum og leikjum við fræðsluframboðið hjá okkur, en leikjavæðing er fersk og gangvirk leið til að miðla upplýsingum. Haustið er tími allskonar tilboðsdaga og mikið um að svikahrappar reyni að leiða fólk í gildru. Við ríðum því á vaðið með þraut sem gengur út á að bera kennsl á svikin. Allir geta reynt sig á vefnum okkar og þau sem standa sig vel eiga möguleika á að vinna 25.000 Aukakrónur. Við vonum að sem flestir hafi gagn og gaman af!









