Yfirlýsing frá bankaráði Landsbankans
Líkt og fram kemur í greinargerð bankaráðs Landsbankans til Bankasýslu ríkisins frá 22. mars sl. þá átti bankaráð, frá miðju ári 2023, frumkvæði að því að upplýsa Bankasýsluna um áhuga bankans á að kaupa TM. Þann 20. desember 2023, sama dag og bankinn gerði óskuldbindandi tilboð í félagið, var Bankasýslan upplýst í símtali um að bankinn væri þátttakandi í söluferli TM. Bankasýslan setti aldrei fram athugasemdir eða óskaði eftir frekari upplýsingum eða gögnum fyrr en eftir að tilboð bankans hafði verið samþykkt.
Bankaráð starfar í samræmi við eigandastefnu ríkisins og samning bankans við Bankasýsluna frá 2010. Líkt og á við um stjórnir annarra hlutafélaga, þá er bankaráð Landsbankans sjálfstætt í störfum sínum og ber að gæta að hagsmunum félagsins í hvívetna. Bankaráð hefur unnið að fullum heilindum að kaupum á TM og er fullvisst um að kaupin munu auka virði bankans til lengri tíma, stuðla að aukinni arðsemi og betri þjónustu. Þetta mat bankaráðs byggir á ítarlegu mati og greiningu, m.a. með aðkomu utanaðkomandi ráðgjafa.
Bankaráð vísar m.a. til þess að í eigandastefnunni segir: „Ríkið stefnir ekki að því að eiga meiri hluta í fjármálafyrirtækjum á almennum markaði til lengri tíma. Því er mikilvægt að umsýsla þessara eignarhluta sé fagleg, traust og á markaðsforsendum, m.a. til að hámarka söluandvirði og arðgreiðslur fyrir skattgreiðendur, enda er um verðmætar samfélagseignir að ræða.“ Eftir þessu hefur bankaráð starfað.
Eins og þegar hefur verið staðfest af Bankasýslunni var ákvörðun um að leggja fram tilboð í TM á forræði bankaráðs. Hafi Bankasýslan talið að þrátt fyrir það þyrfti að afla samþykkis hluthafafundar fyrir kaupunum, þá hafði hún mörg tækifæri til að koma því áliti á framfæri.
Bankaráð uppfyllti skyldur sínar til upplýsingagjafar til Bankasýslunnar en finnst miður að stofnunin líti svo á að þær upplýsingar hafi ekki verið veittar með nægjanlega formlegum hætti. Fyrri samskipti við Bankasýsluna gáfu ekki tilefni til að ætla að samskiptin hefðu átt að fara fram með öðrum hætti.
Bankaráði þykir miður að ákvörðun um kaup á TM, sem var tekin með hagsmuni Landsbankans, hluthafa og viðskiptavina að leiðarljósi, hafi orðið jafn umdeild og raun ber vitni.