Landsbankinn kolefnisjafnar starfsemina
Landsbankinn hefur kolefnisjafnað starfsemina fyrir árið 2020 og hlotið hina alþjóðlega viðurkenndu CarbonNeutral® vottun. Starfsemi bankans var kolefnisjöfnuð með bindingu eða með því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samstarfi við Natural Capital Partners, fyrirtæki sem er leiðandi á sviði sjálfbærni á alþjóðavettvangi. Bindingin er vottuð samkvæmt ströngustu alþjóðlegu stöðlum (CDM og VCS) og hefur þegar átt sér stað. Þetta á við hefðbundna starfsemi í rekstri bankans, s.s. orku- og eldsneytislosun, vinnuferðalög, vöruflutninga o.s.frv.
Reynir Smári Atlason, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum, segir: „Með þessu höfum við tekið stórt framfaraskref í átt að sjálfbærni og Landsbankinn bæst í hóp leiðandi alþjóðlegra fyrirtækja sem vilja stuðla að sjálfbærri framtíð. Starfsemin er kolefnisjöfnuð í gegnum alþjóðlega vottuð verkefni, þar sem keyptar eru kolefniseiningar sem hafa hlotið stranga gæðavottun, og sannarlega hafa leitt til bindingar eða leitt til minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda. Með þessu móti náum við að vega á móti þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem óhjákvæmilega verður í rekstrinum. Við munum halda áfram að vinna ötullega að sjálfbærni og hjálpa viðskiptavinum okkar að gera það líka.“