Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir árið 2017

Hagnaður Landsbankans á árinu 2017 nam 19,8 milljörðum króna, eftir skatta. Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 8,2% á árinu 2017, samanborið við 6,6% árið 2016. Kostnaðarhlutfall lækkaði á milli ára og var 46,1% á árinu 2017.
15. febrúar 2018 - Landsbankinn
 • Útlán Landsbankans jukust um 72 milljarða króna og skiptist aukningin jafnt á milli lána til fyrirtækja og íbúðalána til einstaklinga. Vanskilahlutfall útlána hélt áfram að lækka og var 0,9% í lok árs 2017.
 • Eigið fé Landsbankans nam 246,1 milljarði króna í árslok 2017 og eiginfjárhlutfallið var 26,7% af áhættugrunni.
 • Lagt verður til við aðalfund að greiddur verði 15,4 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2017.
 • Ársskýrsla Landsbankans fyrir árið 2017 kemur út samhliða birtingu ársuppgjörsins. Skýrslan er aðgengileg á vef bankans.

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2017 nam 19,8 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 16,6 milljarða króna á árinu 2016. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 8,2% á árinu 2017, samanborið við 6,6% árið 2016. Hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 1,6 milljarða króna milli ára og námu 36,3 milljörðum króna árið 2017. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 8% á milli ára og námu 8,4 milljörðum króna. Tekjuaukning er einkum vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu. Aðrar rekstrartekjur námu 7 milljörðum króna og hækkuðu um 7% á milli ára. Skýrist hækkunin einkum af jákvæðum gangvirðisbreytingum óskráðra hlutabréfa. Jákvæð virðisbreyting útlána nam 1,8 milljarði króna samanborið við neikvæða virðisbreytingu upp á 318 milljónir króna árið 2016.

Rekstrarkostnaður var 23,9 milljarðar króna og hækkar um 1,4% frá árinu á undan. Laun og launatengd gjöld standa í stað á milli ára. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 3,4%, aðallega vegna hærri framlaga til Fjármálaeftirlitsins og umboðsmanns skuldara og vegna aukins kostnaðar við upplýsingatækni.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2017 var 29,7 milljarðar króna samanborið við 25,2 milljarða króna árið 2016. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 10,6 milljarðar króna árið 2017 samanborið við 9,2 milljarða króna árið 2016.

Heildareignir Landsbankans jukust um 81,7 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2017 alls 1.193 milljörðum króna. Útlán jukust um 8,5% milli ára, eða um 72 milljarða króna. Aukningin skiptist jafnt á milli lána til fyrirtækja og íbúðalána til einstaklinga. Vanskilahlutfall útlána heldur áfram að lækka en það var 0,9% í lok árs 2017, samanborið við 1,5% í lok árs 2016.

Í árslok 2017 voru innlán frá viðskiptavinum 605 milljarðar króna, samanborið við 590 milljarða króna í árslok 2016.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2017 var 246,1 milljarður króna samanborið við 251,2 milljarða króna í árslok 2016. Á árinu 2017 greiddi Landsbankinn 24,8 milljarða króna í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2017 var 26,7%, samanborið við 30,2% í árslok 2016. Fjármálaeftirlitið gerir 21,4% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.

Bankaráð mun leggja til við aðalfund þann 21. mars 2018 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2017 sem nemur 0,65 krónum á hlut, eða samtals 15,4 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur um 78% af hagnaði ársins 2017.

Ársreikningur samstæðu 2017

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2017

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, kynnir afkomu bankans árið 2017 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma (02.36).

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:„Rekstur Landsbankans gekk vel á árinu 2017 og afkoma bankans var í samræmi við væntingar. Markaðshlutdeild jókst og hefur aldrei mælst hærri á einstaklingsmarkaði, kannanir sýndu aukið traust til bankans og meiri ánægju viðskiptavina með þjónustuna.

Aukin umsvif í þjóðfélaginu og markviss markaðssókn bankans valda því að þjónustutekjur jukust á milli ára, einkum vegna þjónustu við fyrirtæki og fagfjárfesta. Sömu þættir styðja við vöxt útlána til fyrirtækja og einstaklinga. Rekstrarkostnaður stóð nánast í stað og var kostnaðarhlutfall nálægt því markmiði bankans að kostnaður verði ekki meiri en 45% af tekjum.

Á árinu 2017 hagnaðist bankinn um 19,8 milljarða króna og arðsemi af eigin fé var 8,2%. Landsbankinn er vel fjármagnaður og í árslok nam eigið fé bankans 246 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið var 26,7% sem er töluvert umfram kröfur eftirlitsaðila. Markmið bankans er að ná 10% arðsemi af eigin fé árið 2020.

Stefna Landsbankans um að vaxa á ábyrgan hátt í takti við samfélagið hefur gengið eftir. Reksturinn er stöðugur og bankinn hefur skilað raunhæfri ávöxtun á eigið fé. Með góðri stýringu lausafjár hefur verið hægt að greiða umtalsverðan arð til eigenda undanfarin ár.

Á erlendum fjármálamörkuðum nýtur Landsbankinn sífellt meira trausts. Kjörin sem bankanum buðust voru betri en áður og mikil umframeftirspurn fjárfesta gefur fyrirheit um að aðgangur bankans að erlendu lánsfjármagni sé greiður. Bankinn mun áfram vinna að því að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan sinni á næstunni, m.a. með útgáfu víkjandi skuldabréfa.

Undir lok árs tók Landsbankinn í notkun nýtt innlána- og greiðslukerfi og styrkti með því innviði sína á sviði upplýsingatækni til mikilla muna. Um leið dró bankinn úr rekstraráhættu sem fólst í notkun gamalla tölvukerfa. Á næstu árum mun Landsbankinn leggja aukna áherslu á nýjar stafrænar lausnir og gera þannig þjónustu bankans enn betri, skilvirkari og aðgengilegri fyrir viðskiptavini.

Landsbankinn er leiðandi í fjármálaþjónustu á Íslandi og er vel undirbúinn fyrir þær breytingar sem framundan eru í bankaþjónustu. Við munum áfram kappkosta að veita einstaklingum og fyrirtækjum um allt land fyrirmyndarþjónustu.“

Helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi (4F) 2017

 • Hagnaður Landsbankans á 4F nam 2,9 milljörðum króna, samanborið við 243 milljónir króna á sama fjórðungi 2016.
 • Arðsemi eiginfjár hækkar talsvert á milli tímabila og var 4,8% á 4F, samanborið við 0,4% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
 • Virðisbreyting útlána var neikvæð um 282 milljónir króna á 4F 2017 en var neikvæð um 4,7 milljarða króna á 4F 2016.
 • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 9,2 milljarðar króna en þær námu 8,4 milljörðum króna á 4F 2016.
 • Hreinar þjónustutekjur voru 1,8 milljarðar króna en þær voru 1,9 milljarðar króna á 4F 2016.

Helstu atriði úr rekstri og efnahag árið 2017

Rekstur:

 • Hagnaður Landsbankans á árinu 2017 nam 19,8 milljörðum króna, samanborið við 16,6 milljarða króna á árinu 2016.
 • Arðsemi eigin fjár eftir skatta hækkar. Arðsemin var 8,2% samanborið við 6,6% árið 2016.
 • Hreinar vaxtatekjur hækka um 1,6 milljarð króna frá fyrra ári. Þær námu 36,3 milljörðum króna á árinu 2017 samanborið við 34,7 milljarða króna á árinu 2016.
 • Vaxtamunur eigna og skulda hækkar á milli ára, var 2,5% árið 2017 en 2,3% árið 2016.
 • Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 8% á milli ára, einkum vegna aukinna viðskipta og aukinna tekna vegna eignastýringar og greiðslukorta. Stærsti hluti þjónustutekna bankans er vegna viðskipta við fyrirtæki og fagfjárfesta.
 • Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 1,8 milljarð króna á árinu 2017 samanborið við neikvæðar virðisbreytingar að fjárhæð 318 milljónum króna árið 2016.
 • Aðrar rekstrartekjur námu 7 milljörðum króna samanborið við 6,6 milljarða króna árið 2016. Hækkunin skýrist aðallega af jákvæðum gangvirðisbreytingum óskráðra hlutabréfa.
 • Laun og launatengd gjöld standa í stað á milli ára.
 • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og tengdum gjöldum hækkar um 3,4% á milli ára.
 • Kostnaðarhlutfall lækkar á milli ára. Það var 46,1% árið 2017 samanborið við 48,4% árið 2016.
 • Stöðugildum í Landsbankanum fækkaði um 15 á árinu 2017 og voru þau 997 í árslok.
 • Skattar Landsbankans á árinu 2017 voru 9,9 milljarðar króna samanborið við 8,5 milljarða króna á árinu 2016.

Efnahagur:

 • Eigið fé Landsbankans í árslok 2017 var 246,1 milljarðar króna, sem er 5,2 milljörðum króna lægra en það var í árslok 2016. Á árinu 2017 greiddi Landsbankinn 24,8 milljarða króna í arð til hluthafa.
 • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) í lok árs 2017 var 26,7% en var 30,2% í lok árs 2016. Það er verulega umfram 21,4% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins.
 • Heildareignir bankans námu 1.193 milljörðum króna í lok árs 2017 og hækkuðu um rúmlega 7% á milli ára.
 • Landsbankinn lánaði 279 milljarða króna í ný útlán á árinu 2017 en vegna afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta jukust heildarútlán um samtals 72 milljarða króna. Heildarútlán námu 926 milljörðum króna í lok ársins 2017.
 • Innlán viðskiptavina, að fjármálafyrirtækjum undanskildum, jukust um 2,6% á árinu 2017, eða um 15,4 milljarða króna. Innlán frá fjármálafyrirtækjum hækkuðu um tæpa 12 milljarða króna á árinu.
 • Lausafjárstaða bankans er sem fyrr sterk og vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 157% í lok árs 2017.
 • Á árinu 2017 lækkaði liðurinn eignir til sölu um 3,8 milljarða króna.
 • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila lækkuðu í 0,9% í lok árs 2017, úr 1,5% í lok árs 2016.

Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)

  2017 2016 4F 2017 4F 2016
Hagnaður eftir skatta  19.766 16.643 2.925 243
Arðsemi eigin fjár eftir skatta  8,2% 6,6% 4,8% 0,4%
Leiðrétt arðsemi eftir skatta *  9,0% 7,7% 6,0% 1,5%
Vaxtamunur eigna og skulda **  2,5% 2,3% 2,5% 2,2%
Kostnaðarhlutfall ***  46,1% 48,4% 50,7% 50,7%

Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)

  31.12.2017 31.12.2016
Heildareignir  1.192.870 1.111.157
Útlán til viðskiptavina  925.636 853.417
Innlán frá viðskiptavinum  605.158 589.725
Eigið fé  246.057 251.231
Eiginfjárhlutfall alls (TCR)  26,7% 30,2%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta  179% 154%
Heildar lausafjárhlutfall (LCR)  157% 128%
Lausafjárhlutfall erlendra mynta  931% 743%
Vanskilahlutfall (>90 daga)  0,9% 1,5%
Stöðugildi  997 1.012

* Leiðrétt arðsemi eftir skatta = (Hagnaður eftir skatta – jákvæðar virðisbreytingar eftir skatta – skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja – hagnaður af aflagðri starfsemi eftir skatta) / meðalstaða eigin fjár.
** Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur/meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld/meðalstaða heildarskulda).
*** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri Landsbankans á árinu 2017

 • Samkvæmt mælingum Gallup var Landsbankinn að meðaltali með 37,9% markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði á árinu 2017 og hefur bankinn verið með mestu markaðshlutdeild íslensku bankanna fjögur ár í röð. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei mælst jafn há.
 • Markaðshlutdeild á fyrirtækjamarkaði hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og mældist 34,8% í árslok 2017.
 • Landsbankinn var sem fyrr leiðandi á markaði með skráð verðbréf. Á árinu 2017 var bankinn með mestu hlutdeild á skuldabréfamarkaði í Kauphöll Íslands og næstmestu hlutdeild á hlutabréfamarkaði.
 • Í janúar var Umræðan, nýr vefur Landsbankans, valin besta efnis- og fréttaveitan og farsímabanki Landsbankans, l.is, besta vefappið af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna fyrir árið 2016.
 • Lilja Björk Einarsdóttir hóf störf sem bankastjóri Landsbankans 15. mars 2017.
 • Á aðalfundi Landsbankans 22. mars 2017 var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða 24,8 milljarða króna í arð vegna rekstrarársins 2017. Annars vegar var um að ræða 13 milljarða króna arðgreiðslu vegna rekstrarársins 2016, sem samsvarar um 78% af hagnaði ársins, og hins vegar sérstakan arð til hluthafa að fjárhæð 11,8 milljarðar króna. Alls námu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2017 um 107 milljörðum króna.
 • Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti endurnýjaði í mars viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum fyrir tímabilið 2016-2017.
 • Bankaráð Landsbankans ákvað í maí að byggja húsnæði fyrir starfsemi bankans við Austurhöfn í Reykjavík. Sex arkitektateymi skiluðu frumtillögum að hönnun nýbyggingar fyrir Landsbankann við Austurhöfn í Reykjavík þann 19. janúar sl. Bankaráð og framkvæmdastjórn fara nú yfir tillögurnar og þeim til aðstoðar er þriggja manna ráðgjafaráð. Val á tillögu verður tilkynnt í lok febrúar.
 • Þann 22. júní greiddi Landsbankinn að fullu upp eftirstöðvar skuldabréfa sem gefin voru út til gamla Landsbanka Íslands, nú LBI ehf., vegna eigna og skulda sem færðar voru frá LBI til bankans í október 2008. Við uppgreiðslu námu eftirstöðvar skuldarinnar um 16,2 milljörðum króna en þegar skuldabréfin til LBI voru upphaflega gefin út nam fjárhæð þeirra samtals um 350 milljörðum króna á þáverandi gengi.
 • Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hækkaði í október lánshæfiseinkunn Landsbankans í BBB+/A-2 með stöðugum horfum.
 • Í nóvember tók Landsbankinn í notkun nýtt innlána- og greiðslukerfi í samvinnu við Reiknistofu bankanna og Sopra Banking Software. Landsbankinn var fyrsti íslenski bankinn til að taka kerfið í notkun.
 • Landsbankinn tók í nóvember þátt í stofnun IcelandSIF sem eru samtök um ábyrgar fjárfestingar. Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Bankinn gekk í sama mánuði í samtökin Nordic Financial CERT, samtök norrænna fjármálafyrirtækja sem vinna að því að efla netöryggi og verjast glæpastarfsemi á netinu.

Ársreikningur samstæðu 2017

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2017

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Austurbakki
22. mars 2024
Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins frá 18. mars sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um kaup bankans á TM tryggingum.
Austurbakki
19. mars 2024
Aðalfundi Landsbankans frestað til 19. apríl
Á fundi bankaráðs Landsbankans þann 19. mars 2024 var ákveðið að fresta aðalfundi bankans, sem vera átti miðvikudaginn 20. mars 2024. Að höfðu samráði við Bankasýslu ríkisins var ákveðið að halda aðalfundinn föstudaginn 19. apríl.
Austurbakki
17. mars 2024
Tilboð Landsbankans í TM samþykkt
Landsbankinn og Kvika banki hafa komist að samkomulagi um að hefja einkaviðræður um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. („TM“) á grundvelli kauptilboðs sem bankinn lagði fram í allt hlutafé félagsins þann 15. mars sl. Möguleg kaup eru m.a. háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Austurbakki
7. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn miðvikudaginn 20. mars 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur