Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir árið 2024

Hagnaður Landsbankans á árinu 2024 nam 37,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 33,2 milljarða króna árið áður.
Austurbakki
30. janúar 2025
  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2024 nam 37,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 33,2 milljarða króna árið áður.
  • Arðsemi eiginfjár árið 2024 var 12,1%, samanborið við 11,6% árið áður.
  • Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2024 var 10,6 milljarðar króna og arðsemi eiginfjár var 13,3%.
  • Bankaráð hyggst leggja til við aðalfund að greiða tæplega 19 milljarða króna í arð vegna ársins 2024, eða sem nemur um 50% af hagnaði ársins.
  • Heildarskattgreiðslur bankans, bæði vegna tekjuskatts og sérstakra skatta á fjármálafyrirtæki, voru 17,2 milljarðar króna.
  • Rekstrarkostnaður eykst í takt við verðlag en kostnaðarhlutfall hefur aldrei verið lægra, eða 32,4%.
  • Útlán á árinu jukust um 177 milljarða króna, eða um 10,8%. Á sama tíma jukust innlán um 180 milljarða króna, eða um 17,2%.
  • Aukin umsvif og ný þjónusta stuðluðu að auknum þjónustutekjum og hækkuðu hreinar þjónustutekjur um 2,3%.  
  • Vaxtamunur sem hlutfall af meðalstöðu heildareigna nam 2,7% á árinu 2024, samanborið við 3,0% á árinu 2023. Vaxtamunur heimila var 2,1%.
  • Notkun á Landsbankaappinu hélt áfram að aukast og kannanir sýna mikla ánægju notenda með appið. Á árinu fjölgaði þeim sem spara í appinu um 39% og nú nota um 59.000 einstaklingar appið til að ávaxta sparnaðinn sinn á bestu kjörum sem eru í boði á óbundnum reikningum.
  • Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 2,8 milljarða króna, en þar af má rekja 2,7 milljarða króna til náttúruhamfaranna á Reykjanesskaga.
  • Eiginfjárhlutfall bankans í lok ársins var 24,3%. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands gerir 20,4% heildarkröfu um eiginfjárgrunn.
  • Bankinn gefur í dag út ítarlegar sjálfbærniupplýsingar, þ.m.t. útreikning á kolefnisspori lánasafns síns, en það hefur lækkað um 20% frá viðmiðunarárinu 2019.
  • Á árinu 2024 var 57,7% af nýrri fjármögnun bankans græn og í heildina er 61,3% af erlendri fjármögnun græn.
  • Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands birti í september niðurstöður mats síns um að bankinn væri hæfur til að fara með virkan eignarhlut í TM tryggingum hf. Beðið er niðurstöðu málsmeðferðar Samkeppniseftirlitsins.
  • Pillar III áhættuskýrsla fyrir árið 2024 kemur út samhliða birtingu ársuppgjörsins.
  • Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans kemur út 13. febrúar 2025.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Landsbankinn náði öllum helstu markmiðum sínum á árinu 2024, hvort sem þau lúta að þjónustu við viðskiptavini, fjárhag eða rekstri. Hagnaður nam 10,6 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi og 37,5 milljörðum króna yfir árið í heild. Arðsemi eiginfjár á ársgrundvelli var 12,1%. Fjórði ársfjórðungur var einn sá sterkasti í sögu bankans.

Góð rekstrarafkoma bankans byggir á traustum grunni. Á síðustu tíu árum hafa heildareignir bankans aukist um 1.083 milljarða króna og eigið fé um 74 milljarða króna, samhliða arðgreiðslum til eigenda samtals að upphæð 192 milljarðar króna. Kostnaður við rekstur bankans hefur verið stöðugur, stöðugildum hefur fækkað samhliða aukinni tæknivæðingu og rekstrarkostnaður sem hlutfall af stöðu heildareigna, sem er algengur mælikvarði á hagkvæmni banka, hefur aldrei verið lægri. Með þessu hefur samkeppnishæfni og slagkraftur bankans aukist sem gerir honum kleift að styðja enn betur við verðmætasköpun og fjárfestingar. Vaxtamunurinn lækkar á milli tímabila og bankinn er í aðstöðu til að bjóða betri kjör en um leið skila ásættanlegri arðsemi.

Sterk staða bankans skilar sér meðal annars út í samfélagið með aukinni útlánagetu en alls nam útlánaaukning ársins 177 milljörðum króna og var um 60% aukningarinnar vegna útlána til fyrirtækja. Landsbankinn er sem fyrr umfangsmesti lánveitandinn til byggingariðnaðarins og hélt sterkri stöðu í útlánum til sjávarútvegs, þrátt fyrir harða samkeppni frá erlendum lánastofnunum sem geta boðið betri kjör í erlendum gjaldmiðlum í krafti enn meiri stærðarhagkvæmni, lægri fjármagnskostnaðar og lægri skatta. Áhersla okkar á að bæta þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki bar góðan árangur og við sjáum mörg tækifæri á þeim markaði. Eftirspurn eftir íbúðalánum bankans var meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og greinilegt að lántakar sækja í samkeppnishæf kjör, skjóta afgreiðslu og vandaða þjónustu. Þegar fastvaxtatímabili íbúðalána lauk hjá viðskiptavinum sem höfðu fest vexti þegar þeir voru hvað lægstir, hringdum við í þá alla og buðum þeim ráðgjöf og fórum yfir þá valkosti sem voru í boði.

Aukin útlán hvíla á traustri fjármögnun, ekki síst á auknum innlánum sem jukust um 180 milljarða króna á árinu. Góð kjör og stafræn þjónusta í fremstu röð spila þar lykilhlutverk. Á árinu fjölgaði viðskiptavinum sem spara í appi, og njóta þannig bestu kjara á óbundnum reikningum, um 39% og nú nýta um 59.000 einstaklingar sér þessa hagstæðu og einföldu sparnaðarleið. Fjármögnun á erlendum og innlendum verðbréfamörkuðum gekk sömuleiðis vel og er rétt að nefna sérstaklega útgáfu á víkjandi forgangsbréfum en um var að ræða fyrstu slíka útgáfu hjá íslenskum banka. Vel heppnaðar skuldabréfaútgáfur staðfesta sterka stöðu bankans sem endurspeglaðist einnig í hækkun á lánshæfismati. Við teljum allar forsendur vera fyrir frekari styrkingu lánshæfismatsins á næstu misserum.

Vaxtamunur bankans fór lækkandi á árinu, í lækkandi vaxtaumhverfi, og hreinar vaxtatekjur drógust lítillega saman. Á hinn bóginn var vöxtur í þóknanatekjum, ekki síst vegna góðs árangurs í færsluhirðingu bankans sem hefur stimplað sig rækilega inn. Á árinu komu 757 ný fyrirtæki í færsluhirðingu til okkar, þar af mörg af stærstu smásölufyrirtækjum landsins. Færsluhirðingin hefur aukið breiddina í þjónustu bankans, stuðlað að aukinni ánægju viðskiptavina og gefið bankanum ný sóknarfæri á fyrirtækjamarkaði en tæplega 40% af fyrirtækjunum sem komu í færsluhirðingu voru ekki í neinum viðskiptum við okkur áður.

Kaup bankans á TM munu sömuleiðis gefa bankanum mörg sóknartækifæri, bæði meðal fyrirtækja og einstaklinga. Við teljum að samþætting banka- og tryggingastarfsemi komi sér vel fyrir viðskiptavini, sé hagkvæm og feli í sér mörg tækifæri, eins og reynslan af slíkum rekstri víða í Evrópu hefur sýnt. Um leið munu kaupin fjölga tekjustoðum og styðja við arðsemi til framtíðar. Það er ekki síst markviss stefna bankans undanfarin ár, að bjóða viðskiptavinum um allt land framúrskarandi þjónustu, bæði með því að vera á staðnum og í gegnum frábært app og aðrar tæknilausnir, sem skapar tækifæri fyrir bankann og TM.

Meðal helstu tíðinda í íslensku viðskiptalífi á liðnu ári var yfirtaka JBT á Marel. Landsbankinn hefur lengi, í gegnum Eyri Invest, átt óbeinan eignarhlut í Marel sem rekja má til endurfjármögnunar Eyris Invest árið 2009. Virði eignarhlutarins í Eyri hefur sveiflast mikið á undanförnum árum og stundum haft töluverð áhrif á uppgjör bankans, en á heildina litið hefur aðkoma bankans að Marel og Eyri verið afar farsæl.

Langflestir viðskiptavinir okkar nota Landsbankaappið til að sinna bankaerindum sínum. Appið er þjált í notkun, býður upp á ýmsa möguleika sem hvergi eru í boði annars staðar og mælingar sýna mikla ánægju hjá notendum. Það er líka í stöðugri þróun en alls gáfum við út 33 uppfærslur af appinu á síðasta ári. Samhliða áherslu á framþróun í appinu og öðrum tæknilausnum, leggjum við áfram rækt við mannlega þáttinn. Við erum með 35 útibú og afgreiðslur um allt land og á árinu lögðum við enn meiri áherslu á að gera starfsfólki víða um land kleift að vinna verkefni sem eru óháð staðsetningu. Árangurinn er ótvíræður og birtist meðal annars í styttri afgreiðslu- og biðtíma en einnig í aukinni ánægju starfsfólks sem er ánægt með fjölbreytt og krefjandi verkefni. Landsbankinn er traustur banki fyrir farsæla framtíð og árangur bankans undanfarin ár sýnir og sannar að með traustu og metnaðarfullu starfsfólki er allt hægt.“

Helstu atriði úr rekstri árið 2024

  • Hagnaður á árinu 2024 nam 37,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 33,2 milljarða króna á árinu 2023.
  • Arðsemi eiginfjár eftir skatta var 12,1% samanborið við 11,6% arðsemi árið áður.
  • Hreinar vaxtatekjur námu 57,2 milljörðum króna á árinu 2024 samanborið við 57,6 milljarða króna á árinu 2023.
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna var 2,7% árið 2024 samanborið við 3,0% árið 2023.
  • Hreinar þjónustutekjur námu 11,4 milljörðum króna á árinu 2024 samanborið við 11,2 milljarða króna á árinu 2023.
  • Aðrar rekstrartekjur voru jákvæðar um 11,1 milljarð króna en voru jákvæðar um 5,1 milljarð króna árið 2023. Virðisbreyting útlána og krafna var neikvæð um 2,8 milljarða króna árið 2024 samanborið við neikvæða virðisbreytingu upp á 3,1 milljarð króna árið 2023.
  • Laun og launatengd gjöld námu 16,5 milljörðum króna á árinu 2024, samanborið við 15,9 milljarða króna árið áður.  
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og tengdum gjöldum nam 10,2 milljörðum króna samanborið við 10,1 milljarð króna árið 2023.
  • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) var 32,4% árið 2024 samanborið við 33,7% árið 2023.
  • Tekjuskattur á árinu 2024 nam 12,9 milljörðum króna samanborið við 12,4 milljarða króna á árinu 2023. Heildarskattgreiðslur bankans námu 17,2 milljörðum króna.
  • Meðalstöðugildi ársins voru 811 en voru 849 árið 2023. Stöðugildi í árslok 2024 voru 822.  

Helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi (4F) 2024

  • Hagnaður á 4F 2024 nam 10,6 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 10,8 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2023. 
  • Arðsemi eiginfjár eftir skatta var 13,3% á 4F 2024, samanborið við 14,5% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan. 
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 13,1 milljarður króna en þær námu 14,8 milljörðum króna á 4F 2023.  
  • Hreinar þjónustutekjur námu 3,3 milljörðum króna en voru 3,1 milljarður króna á 4F 2023.  
  • Virðisbreyting útlána og krafna var neikvæð um 754 milljónir króna á 4F 2024 en var neikvæð um 1,3 milljarða króna á 4F 2023.  
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna var 2,4% á 4F 2024 en var 3,0% á 4F 2023.  
  • Laun og launatengd gjöld á 4F 2024 námu 4,5 milljörðum króna samanborið við 4,3 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2023.  
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,6 milljörðum króna á 4F 2024 samanborið við 3,0 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2023.  
  • Kostnaðarhlutfall (K/T) á fjórða ársfjórðungi 2024 var 32,8%samanborið við 31,6% á sama ársfjórðungi árið á undan.   

Efnahagur

  • Á árinu 2024 greiddi Landsbankinn 16,5 milljarða króna í arð til hluthafa.
  • Útlán til einstaklinga jukust um 68 milljarða króna og útlán til fyrirtækja um 109 milljarða króna.
  • Útlán jukust um 177 milljarða króna á árinu en af þeirri upphæð eru áhrif gengis um 8,0 milljarðar króna til lækkunar. Á árinu var mikil aukning verðtryggðra íbúðalána samhliða uppgreiðslum og endurfjármögnun óverðtryggðra íbúðalána.
  • Á árinu 2024 hækkaði liðurinn eignir til sölu um 1,3 milljarða króna sem skýrist meðal annars af því að nú er 47,9% eignarhlut bankans í Greiðslumiðlun Íslands haldið til sölu.    
  • Á árinu var áframhaldandi vöxtur innlána en aukningin nam 180 milljörðum króna. Innlán frá viðskiptavinum eru stærsti hluti fjármögnunar bankans og námu heildarinnlán 1.228 milljörðum króna í lok árs.
  • Fjármögnun bankans hefur gengið vel á árinu, heildarútgáfan hefur aukist um 35 milljarða króna og nemur 569 milljörðum króna í lok árs 2024. Á árinu gaf bankinn í fyrsta sinn út víkjandi forgangsbréf.
  • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu sinni í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 164% í lok árs 2024 samanborið við 181% í lok árs 2023.  
  • Vanskil einstaklinga og fyrirtækja eru áfram lág í sögulegu samhengi. Vandræðalán eru 1,1% af útlánum í árslok samanborið við 1,0% í árslok 2023.  

Lykiltölur samstæðunnar

Rekstur

Fjárhæðir í milljónum króna

  2024 2023 Breyting Breyting% 4F 2024 4F 2023 Breyting Breyting%
Hagnaður tímabilsins 37.508 33.167 4.341 13,1% 10.600 10.784 (184) (1,7%)
Hreinar vaxtatekjur 57.197 57.559 (362) (0,6%) 13.107 14.783 (1.676) (11,3%)
Hreinar þjónustutekjur 11.405 11.153 252 2,3% 3.337 3.066 271 8,8%
Aðrar rekstrartekjur 11.101 5.136 5.965 116,1% 4.656 3.986 670 16,8%
Rekstrartekjur 79.703 73.848 5.855 7,9% 21.100 21.835 (735) (3,4%)
Laun og launatengd gjöld (16.534)
(15.866) (668) 4,2% (4.529) (4.332) (197) 4,5%
Annar rekstrarkostnaður (10.202)
(10.092) (110) 1,1% (2.633) (2.979) 346 (11,6%)
Rekstrargjöld (29.333)
(28.248) (1.085) 3,8% (7.804) (7.838) 34 (0,4%)

Efnahagur

Fjárhæðir í milljónum króna

  31.12.2024 31.12.2023 Breyting Breyting%
Heildareignir 2.181.759 1.960.776 220.983 11,3%
Útlán til viðskiptavina 1.807.437 1.630.894 176.543 10,8%
Innlán frá viðskiptavinum 1.228.444 1.048.537 179.907 17,2%
Eigið fé 324.649 303.754 20.895 6,9%

Kennitölur

  2024 2023 4F 2024 4F 2023
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 12,1% 11,6% 13,3% 14,5%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna 2,7% 3,0% 2,4% 3,0%
Rekstrarkostnaður í hlutfalli af meðalstöðu eigna 1,3% 1,4% 1,3% 1,5%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T)* 32,4% 33,7% 32,8% 31,6%
  31.12.2024 31.12.2023 31.12.2022 31.12.2021 31.12.2020
Eiginfjárhlutfall alls 24,3% 23,6% 24,7% 26,6% 25,1%
Samtals MREL fjármögnun 38,2% 37,9% 40,4%    
Samtals undirskipuð MREL fjármögnun 25,5% 23,6%      
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 143% 145% 132% 142% 132%
Heildarlausafjárþekja 164% 181% 134% 179% 154%
Lausafjárþekja erlendra mynta EUR (LCR FX til og með 2022) 951% 1.499% 351% 556% 424%
Vandræðalán 1,1% 1,0% 1,0% 1,7% 2,0%
Meðalstöðugildi 811 849 843 890 921
Stöðugildi í lok tímabils 822 817 813 816 878

*K/T = Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur - virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri bankans á árinu 2024

  • S&P Global Ratings hækkaði lánshæfismat bankans í BBB+ með jákvæðum horfum.
  • Fjöldi nýjunga bættust við Landsbankaappið og notendum fjölgaði um 11% en alls skráðu um 164.200 notendur sig inn í appið á árinu. Að meðaltali skrá um 137.900 viðskiptavinir sig inn í appið í hverjum mánuði.
  • Eignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans jukust um rúmlega 22% og voru 789 ma.kr. í árslok.
  • Við gerðum viðskiptavinum mun auðveldara um vik að sækja um lífeyrissparnað í appinu og í kjölfarið hækkaði sjálfsafgreiðsluhlutfall upp í 81%. Mesta fjölgun á nýjum viðskiptavinum í skyldulífeyrissparnaði var á meðal fólks á aldrinum 16-24 ára en í þeim aldurshópi nam fjölgunin 23%.
  • Viðskiptavinir Landsbankans söfnuðu samtals 643 milljónum Aukakróna á árinu, sem er met í söfnun, og nýttu þær til kaupa á vörum og þjónustu fyrir samtals 583 milljónir.
  • Starfsfólk á landsbyggðinni annaðist 80% fjarfunda sem viðskiptavinir bókuðu.
  • Við héldum fjölda fræðslufunda, um leiðir til að stækka fyrirtæki, um fjármál, lífeyrismál og netöryggi og birtum fræðsluefni á vefnum okkar og samfélagsmiðlum. Fundirnir voru haldnir víða um land og voru vel sóttir.
  • Landsbankinn tekur, ásamt öðrum bönkum og lífeyrissjóðum, þátt í fjármögnun á Fasteignafélaginu Þórkötlu ehf.  sem ríkissjóður stofnaði í þeim tilgangi að kaupa íbúðarhúsnæði í Grindavík. Meirihluti viðskiptavina í Grindavík með íbúðalán hjá bankanum hefur kosið að selja Fasteignafélaginu Þórkötlu ehf. fasteignir sínar. Í árslok var búið að greiða upp íbúðalán til 477 einstaklinga sem eru í viðskiptum við bankann og veita fasteignafélaginu lán að fjárhæð 12,8 milljarða króna. Endanleg lánsfjárhæð til fasteignafélagsins liggur ekki enn fyrir, né heldur heildarfjárhæð íbúðalána til viðskiptavina bankans sem kjósa ekki að nýta sér úrræðið.
  • Í UFS-áhættumati Sustainalytics, sem tekur til umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta, fékk bankinn 15,4 í einkunn og er talin lág áhætta á að bankinn verði fyrir fjárhagslegum áhrifum tengdum UFS-þáttum. Í nýjasta UFS-mati Reitunar fékk bankinn framúrskarandi einkunn og er í flokki A3.
  • Stefna bankans er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og styðja við verkefni sem stuðla að uppbyggingu og framþróun. Við vörðum um 200 milljónum króna í ýmis konar styrki og samstarf, m.a. Gleðigönguna, Hönnunarmars, KSÍ, Skólahreysti og Upprásina, auk stuðnings við íþrótta- og góðgerðafélög um allt land. Við veittum sjálfbærni- og samfélagsstyrki og styrktum framúrskarandi námsmenn.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Hjón úti í náttúru
13. feb. 2025
Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans komin út
Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans fyrir árið 2024 er komin út. Í skýrslunni er fjallað um þróun og breytingar á þjónustu bankans, árangur í rekstri, trausta fjármögnun og áhættustjórnun, jákvæð áhrif bankans á samfélagið og ýmislegt fleira.
Austurbakki
13. des. 2024
Góð kjör í útgáfu víkjandi skuldabréfa
Landsbankinn lauk í dag útboði víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar 2 (e. Tier 2).
Austurbakki
23. okt. 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 nam 26,9 milljörðum króna eftir skatta, þar af 10,8 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 11,7% samanborið við 10,5% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur