Ársskýrsla Landsbankans 2017 aðgengileg á vefnum
Ársskýrsla Landsbankans fyrir árið 2017 er nú aðgengileg á ársskýrsluvef bankans. Í ársskýrslunni er fjallað um helstu þætti í rekstri Landsbankans á árinu 2017.
Markaðshlutdeild Landsbankans hélt áfram að aukast á árinu 2017 og fjórða árið í röð var bankinn með mestu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði. Kannanir sýndu aukna ánægju viðskiptavina með þjónustu bankans og vaxandi traust. Rekstur bankans gekk vel. Hagnaður Landsbankans á árinu 2017 nam 19,8 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 16,6 milljarða króna árið 2016. Arðsemi eiginfjár eftir skatta á árinu 2017 var 8,2%. Tekjur jukust umtalsvert en kostnaður í krónum talið stóð nánast í stað.
Lestu ársskýrslu Landsbankans 2017
Aðgengileg umfjöllun um starfsemi bankans
Í ársskýrslunni er m.a. fjallað um nýjar áherslur í stefnu bankans, þróun í bankastarfsemi og þjónustu, ábyrgar fjárfestingar, samfélagsábyrgð, mannauðs- og jafnréttismál, margvíslegan stuðning bankans við samfélagið og fjölbreytt samstarf, að ógleymdri umfjöllun um fjármál og áhættustjórnun.
Tillaga um 15,4 milljarða króna arð
Í ávarpi formanns bankaráðs kemur m.a. fram að bankaráð mun leggja til við aðalfund bankans að greiddur verði 15,4 milljarða króna arður vegna rekstrarársins 2017, sem er um 78% af hagnaði þess árs.
Markmiðið með rafrænni útgáfu ársskýrslunnar er að auka gagnsæi og auðvelda almenningi og öðrum hagsmunaaðilum að kynna sér rekstur og starfshætti bankans. Útgáfukostnaður er lægri og útgáfan umhverfisvænni.