Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir fyrstu níu mán­uði árs­ins 2021

Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi 2021 var 7,5 milljarðar króna. Afkoma bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 var jákvæð um 21,6 milljarða króna.
28. október 2021
  • Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi 2021 var 7,5 milljarðar króna.
  • Afkoma bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 var jákvæð um 21,6 milljarða króna.
  • Arðsemi eiginfjár á fyrstu níu mánuðum ársins var 10,9%.
  • Hreinar þjónustutekjur jukust um 22% á milli ára, einkum vegna vaxandi umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum.
  • Markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði er um 39% og hefur aldrei verið meiri.
  • Markaðshlutdeild í íbúðalánum hefur aukist um 2,7 prósentustig frá áramótum. Hún mælist nú 28,7% og hefur aldrei verið meiri.
  • Um 1.540 fyrirtæki hafa komið í viðskipti við Landsbankann á árinu og hefur aldrei fjölgað jafn hratt.
  • Áskriftum að sjóðum Landsbréfa fjölgaði um 35% og samningum um þjónustu vegna verðbréfaviðskipta hjá bankanum fjölgaði um 40%.
  • Kostnaðarhlutfall (K/T) var 41,7% og kostnaður er áfram stöðugur.
  • Hagkvæmni í rekstri hélt áfram að aukast og er hlutfall rekstrarkostnaðar af meðalstöðu heildareigna nú 1,4%.
  • Í yfir þrjú ár hefur Landsbankinn nær samfellt boðið lægstu breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum sem eru í boði fyrir alla.
  • Um 93% af nýjum íbúðalánum eru óverðtryggð og tæplega 40% af nýjum lánum eru með fasta vexti.
  • Um 40% þeirra sem óska eftir að festa vexti á íbúðalánum gera það með því að ýta á hnappinn „Festa vexti“ í Landsbankaappinu.

Afkoma Landsbankans var jákvæð um 21,6 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 samanborið við 699 milljónir króna á sama tímabili árið 2020. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,9% á ársgrundvelli, samanborið við 0,4% á sama tímabili 2020.

Á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 námu hreinar vaxtatekjur 28,6 milljörðum króna samanborið við 28,4 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 6,9 milljörðum króna samanborið við 5,7 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru 10,2 milljarðar króna en voru neikvæðar um 13,9 milljarða króna á sama tímabili árið 2020. Viðsnúningur er í virðisbreytingu útlána milli ára en virðisbreytingar eru jákvæðar um 3,8 milljarða króna það sem af er ári samanborið við neikvæðar virðisbreytingar upp á 13,6 milljarða króna á sama tíma á síðasta ári. Viðsnúninginn má rekja til betri stöðu fyrirtækja og heimila en gert var ráð fyrir í kjölfar Covid-19-faraldursins.

Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 2,3% á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 en var 2,5% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 nam 17,5 milljörðum króna samanborið við 17,4 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 10,7 milljarðar króna og lækka þau um 50 milljónir króna á milli tímabila. Annar rekstrarkostnaður var 6,7 milljarðar króna samanborið við 6,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 var 41,7%, samanborið við 51,6% á sama tímabili árið 2020.

Heildareignir Landsbankans jukust um 154 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.718 milljörðum króna 30. september 2021. Útlán jukust um 103 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2021, en útlánaaukninguna má rekja til aukningar á lánum einstaklinga. Innlán frá viðskiptavinum námu 869 milljörðum króna, samanborið við 793 milljarða króna í árslok 2020 og höfðu því aukist um 76 milljarða króna.

Eigið fé Landsbankans var 275,3 milljarðar króna þann 30. september sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,9%.

Árshlutareikningur samstæðu 9M 2021

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Afkoma bankans á þriðja ársfjórðungi og á árinu endurspeglar annars vegar góðan árangur í rekstri og starfsemi bankans og hins vegar betri stöðu í hagkerfinu. Tekjur hafa aukist og fleiri einstaklingar, fyrirtæki og fagfjárfestar beina nú viðskiptum sínum til bankans og umsvif þeirra eru meiri en áður. Um leið hefur okkur tekist að halda rekstrarkostnaði í skefjum og hlutfall kostnaðar af tekjum er með því lægsta sem þekkist hjá bönkum í Evrópu. Þar sem efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins voru vægari en gert var ráð fyrir eru jákvæðar virðisbreytingar stór þáttur í góðri afkomu bankans í ár.

Þjónustutekjur bankans héldu áfram að aukast á þriðja ársfjórðungi, einkum vegna aukinna umsvifa í eignastýringu og markaðsviðskiptum. Bankinn hefur séð um mörg vel heppnuð skuldabréfaútboð, viðskiptavinum markaðsviðskipta hefur fjölgað með nýjum vörum, samningum um eignastýringu hefur fjölgað um 15% frá síðasta ári og eignir í stýringu hafa aukist um tæp 25% það sem af er ári.

Við höfum lagt áherslu á að bjóða hagstæð kjör á óverðtryggðum íbúðalánum og að gera ferlið við íbúðalán og endurfjármögnum sem einfaldast. Þetta hefur leitt til þess að viðskiptavinum hefur fjölgað, markaðshlutdeild aukist og útlán aukist töluvert. Á þessu ári eru óverðtryggð lán 93% af nýjum íbúðalánum viðskiptavina Landsbankans. Við sjáum skýrt og greinilega að fólk kýs í auknum mæli að festa vextina. Við höfum einfaldað viðskiptavinum þá aðgerð og það er hægt að festa vextina með hnappi í Landsbankaappinu. Fólk í fyrirtækjarekstri kýs einnig að einfalda líf sitt með því að nota Landsbankaappið til að fylgjast með fjármálum fyrirtækisins og framkvæma helstu bankaaðgerðir. Fyrirtækjum í viðskiptum við Landsbankann hefur aldrei fjölgað jafn mikið og á þessu ári og við teljum að meginskýringin sé sú að við höfum gert fyrirtækjum einfaldara að koma í viðskipti. Við finnum líka að fyrirtæki kunna vel að meta þá yfirsýn sem þau fá yfir innheimtumál og fleiri mikilvæga þætti í fyrirtækjarekstri.

Til viðbótar við að hægt er að festa vexti á íbúðalánum með því að ýta á hnapp í appi, höfum við kynnt fjölmargar nýjungar í stafrænni þjónustu á þessu ári. Viðskiptavinir okkar hafa alltaf verið fljótir að tileinka sér nýjungar en óhætt er að segja Covid-19-faraldurinn hafi flýtt enn fyrir þróuninni. Heimsóknum í útibú hefur fækkað mikið eftir því sem fleiri einfalda sér lífið með því að nýta stafræna þjónustu og sjálfsafgreiðslutæki. Við höldum áfram að breyta þjónustunni í takt við nýja tíma og nú í október tóku gildi breytingar á afgreiðslutíma stærri útibúa bankans sem nú opna kl. 10. Um leið lengdum við þann tíma sem viðskiptavinir geta fengið fjármálaráðgjöf í síma eða á fjarfundum til kl. 18, enda viljum við vera til staðar þegar það hentar viðskiptavinum best.

Verkefnum sem tengjast sjálfbærni hefur fjölgað og við höfum aukið framboð á sjálfbærri fjármálaþjónustu. Eignadreifingu sjálfbærri, sem er blandaður hlutabréfa- og skuldabréfasjóður hjá Landsbréfum, hefur verið vel tekið af viðskiptavinum og nýlega buðum við fólki sem vill að sparnaðurinn sinn stuðli að sjálfbærni upp á sjálfbæra innlánsreikninga.

Hagfræðideild bankans birti fyrr í þessum mánuði þjóðhags- og verðbólguspá til ársins 2024 þar sem m.a. kemur fram að við megum búast við töluverðum hagvexti á næstu árum. Ferðaþjónustan er að ná vopnum sínum á ný og útlit er fyrir að góð loðnuvertíð leggi verulega til þjóðarbúsins. Ánægjulegustu tíðindin eru þó þau að útlit er fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að minnka og verði minna en það var fyrir upphaf faraldursins.

Við erum mjög bjartsýn á frekari sókn bankans. Við leggjum áherslu á ánægju viðskiptavina. Starfsfólk bankans er stolt af þeim árangri sem við höfum náð með stafrænum lausnum og hvernig við einföldum líf viðskiptavina. Við ætlum að halda áfram að bjóða viðskiptavinum frábæra bankaþjónustu, hvar og hvenær sem er, og góðan aðgang að framúrskarandi ráðgjafarþjónustu bankans. Landsbanki nýrra tíma mun halda áfram að breytast og þróast og vera í góðu samstarfi við samfélagið sem bankinn þjónar.“

Helstu atriði úr rekstri á þriðja ársfjórðungi (3F) 2021

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á 3F 2021 nam 7,5 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 4 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2020.
  • Arðsemi eiginfjár var 11% á 3F 2021, samanborið við 6,5% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 9,6 milljarðar króna en þær námu 9,4 milljörðum króna á 3F 2020.
  • Virðisbreyting útlána og krafna var jákvæð um 1 milljarð króna á 3F 2021 en var neikvæð um 120 milljónir króna á 3F 2020.
  • Hreinar þjónustutekjur námu 2,5 milljörðum króna en voru 2,1 milljarður króna á 3F 2020.
  • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna var 2,3% á 3F 2021 en var 2,4% á sama tímabili árið áður.
  • Laun og launatengd gjöld námu 3,2 milljörðum króna samanborið við 3,1 milljarð króna á sama ársfjórðungi 2020.
  • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,2 milljörðum króna á 3F 2021 samanborið við 2 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2020.
  • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á 3F 2021 var 37,9% samanborið við 46,6% á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 30. september 2021 voru 837 en voru 884 á sama tíma fyrir ári.

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans nam 275,3 milljörðum króna í lok september 2021.
  • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) þann 30. september 2021 var 24,9% samanborið við 24,7% í lok september 2020. Það er verulega umfram 18,9% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlits Seðlabankans.
  • Heildareignir bankans námu 1.718 milljörðum króna í lok september 2021.
  • Útlán jukust um 103 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. Útlán til einstaklinga jukust um 110 milljarða króna en útlán til fyrirtækja drógust saman um 7 milljarða króna.
  • Innlán viðskiptavina námu 869 milljörðum króna í lok september 2021, samanborið við 793 milljarða króna í lok árs 2020.
  • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu sinni í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 172% í lok september 2021 samanborið við 154% í lok árs 2020.
  • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila voru 0,3% af útlánum. Vegna tímabundinna Covid-19-úrræða og frestunar á greiðslum má ætla að vanskil mælist minni en ella.

Fjárhæðir í milljónum króna

  9M 2021 9M 2020 3F 2021 3F 2020
Hagnaður eftir skatta 21.597 699 7.492 3.986
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 10,9% 0,4% 11,0% 6,5%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna 2,3% 2,5% 2,3% 2,4%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T)* 41,7% 51,6% 37,9% 46,6%
 
  30.09.2021 30.09.2020 31.12.2020 31.12.2019
Heildareignir 1.718.358 1.610.265 1.564.177 1.426.328
Útlán til viðskiptavina 1.375.536 1.255.393 1.273.426 1.140.184
Innlán frá viðskiptavinum  869.463 813.784 793.427 707.813
Eigið fé  275.344 248.433 258.255 247.734
Eiginfjárhlutfall alls 24,9% 24,7% 25,1% 25,8%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 122% 116% 132% 143%
Heildarlausafjárþekja 172% 186% 154% 161%
Lausafjárþekja erlendra mynta 443% 379% 424% 769%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,3% 0,6% 0,8% 0,8%
Stöðugildi 837 884 878 893
 

*K/T - Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur - virðisbreytingar útlána).

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Austurbakki
22. mars 2024
Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins frá 18. mars sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um kaup bankans á TM tryggingum.
Austurbakki
19. mars 2024
Aðalfundi Landsbankans frestað til 19. apríl
Á fundi bankaráðs Landsbankans þann 19. mars 2024 var ákveðið að fresta aðalfundi bankans, sem vera átti miðvikudaginn 20. mars 2024. Að höfðu samráði við Bankasýslu ríkisins var ákveðið að halda aðalfundinn föstudaginn 19. apríl.
Austurbakki
17. mars 2024
Tilboð Landsbankans í TM samþykkt
Landsbankinn og Kvika banki hafa komist að samkomulagi um að hefja einkaviðræður um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. („TM“) á grundvelli kauptilboðs sem bankinn lagði fram í allt hlutafé félagsins þann 15. mars sl. Möguleg kaup eru m.a. háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Austurbakki
7. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn miðvikudaginn 20. mars 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Austurbakki
6. mars 2024
Sexföld umframeftirspurn eftir grænum skuldabréfum
Þann 5. mars 2024 lauk Landsbankinn við sölu á grænum skuldabréfum að fjárhæð 300 milljónir evra. Um var að ræða fjórðu útgáfu bankans á grænum skuldabréfum í evrum.
Austurbakki
5. mars 2024
Tilkynning um kaup Landsbankans á eigin hlutum – lok endurkaupatímabils 2024
Þann 15. febrúar 2024 birti Landsbankinn tilkynningu um að bankinn byðist til að kaupa hluti af hluthöfum samkvæmt endurkaupaáætlun á tímabilinu 19. febrúar 2024 til og með 4. mars 2024. Á endurkaupatímabilinu keypti Landsbankinn samtals 6.423.476 eigin hluti á genginu 12,8595, að kaupvirði 82.602.689 krónur.
Helga og Berglind
23. feb. 2024
Helga Björk hættir sem formaður á aðalfundi Landsbankans í mars
Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, sem hefur setið í bankaráði frá árinu 2013 og verið formaður þess frá árinu 2016, gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í bankaráði á aðalfundi bankans 20. mars nk. Þá mun Berglind Svavarsdóttir, varaformaður bankaráðs, sem setið hefur í bankaráði frá árinu 2016, heldur ekki gefa kost á sér og lætur af störfum í bankaráði á sama tíma.
Austurbakki
16. feb. 2024
Landsbankinn með staðfest vísindaleg markmið um samdrátt í losun
Markmið Landsbankans um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hafa verið samþykkt af Science Based Targets initiative (SBTi). Við erum fyrsti bankinn á Íslandi til að ná þessum áfanga.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur