Samstarf Hinsegin daga og Landsbankans eflist með nýjum styrktarpotti
Markmiðið með pottinum er að styðja einstaklinga og smærri hópa við undirbúning og framkvæmd atriða í Gleðigöngu Hinsegin daga og þannig auðvelda þátttöku í Hinsegin dögum. Landsbankinn leggur 1,5 milljón króna í pottinn auk annars stuðnings við hátíðina. Stjórn Hinsegin daga ber ábyrgð á umsóknarferlinu og skipar dómnefnd sem fer yfir umsóknir og úthlutar styrkjum úr Gleðigöngupottinum. Á næstu dögum mun dómnefndin auglýsa eftir umsóknum á hinsegindagar.is.
Dómnefndin getur einnig tekið frá upphæð að hámarki 200.000 krónur og notað fjárhæðina til að veita hvatningarverðlaun í lok Hinsegin daga. Verðlaunin eru veitt einstaklingi eða hópi, sem ekki hlaut styrk úr pottinum, en með eftirtektarverðum hætti vakti athygli á boðskap atriðis síns í gleðigöngunni.
Gunnlaugur Bragi Björnsson, gjaldkeri Hinsegin daga: „Það er okkur afar mikils virði að Landsbankinn verði áfram stoltur bakhjarl Hinsegin daga en bankinn hefur undanfarin ár stutt dyggilega við hátíðina. Aukinn stuðningur bankans gerir að veruleika draum okkar um styrktarpott sem ýtir undir enn fjölbreyttari hátíð en áður. Gleðigangan er grasrótarviðburður þar sem einstaklingar og hópar skapa atriði með boðskap um mannréttindi og margbreytileika. Slík atriði kosta bæði vinnu og fjármuni en Hinsegin dagar munum nú í fyrsta sinn geta veitt fjárstuðning til að koma góðum hugmyndum í framkvæmd.“
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans: „Landsbankinn er stoltur bakhjarl Hinsegin daga, þessarar skemmtilegu hátíðar sem hefur rækilega fest sig í sessi sem ein vinsælasta útihátíð þjóðarinnar. Á Hinsegin dögum fögnum við áföngum sem unnist hafa í réttindabaráttu hinsegin fólks og berjumst, með gleðina að vopni, gegn fordómum og misrétti hvar sem þeir finnast. Það er afar ánægjulegt að samið hafi verið um áframhaldandi samstarf bankans og Hinsegin daga.“
Hinsegin dagar 2017 fara fram í Reykjavík dagana 8.-13. ágúst. Þetta árið munu framkvæmdir á Lækjartorgi og við Austurhöfn hafa áhrif á Gleðigöngu Hinsegin daga sem hingað til hefur lokið með útihátíð við Arnarhól. Í júlí mun stjórn Hinsegin daga kynna nýja gönguleið og staðsetningu skemmtidagskrár samhliða birtingu dagskrár hátíðar ársins.
Á myndinni eru Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, og Gunnlaugur Bragi Björnsson, gjaldkeri Hinsegin daga, við undirritun samstarfssamningsins.