S&P staðfestir óbreytta lánshæfiseinkunn en breytir horfum úr stöðugum í neikvæðar
Í tilkynningu S&P segir m.a. að breyttar horfur taki tillit til áskorana í efnahagsumhverfi íslenskra banka og er bent á að búast megi við efnahagssamdrætti árið 2019, lækkandi vöxtum, áframhaldandi hárri skattbyrði og harðri samkeppni frá lífeyrissjóðum. S&P telur líklegt að ofangreindir þættir muni hafa neikvæð áhrif á arðsemi bankans. S&P tekur jafnframt fram að aftur megi búast við hagvexti á árinu 2020. Verði breyting til batnaðar á rekstrarumhverfi bankanna geti S&P breytt horfum aftur í stöðugar.
Í tilkynningu S&P er sérstaklega tekið fram að markaðshlutdeild Landsbankans sé hærri en annarra íslenskra banka og rekstur hans sé bæði skilvirkari og arðsamari.
Þá er bent á að íslensku bankarnir hafi náð góðum árangri á sviði stafrænnar þróunar og upplýsingatækni og séu betur undir það búnir að mæta samkeppni sem byggir á nýrri tækni en margir aðrir evrópskir bankar. Þá sé markaðshlutdeild þeirra traust og fjármögnun þeirra og lausafjárstaða sambærileg við erlenda banka.
Tilkynningu S&P má finna hér á vefnum.