Fréttir

Lands­bank­inn hagn­að­ist um 16,6 millj­arða króna árið 2016

Hagnaður Landsbankans á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna, eftir skatta. Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði var 37,1%, skv. mælingum Gallup, og hefur aldrei mælst hærri. Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 6,6% á árinu 2016, samanborið við 14,8% árið 2015.
9. febrúar 2017 - Landsbankinn
  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna, eftir skatta.
  • Markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði var 37,1%, skv. mælingum Gallup, og hefur aldrei mælst hærri.
  • Arðsemi eiginfjár Landsbankans var 6,6% á árinu 2016, samanborið við 14,8% árið 2015.
  • Kostnaðarhlutfall Landsbankans hækkaði á milli ára en það var 48,4% á árinu.
  • Virðisbreyting útlána var neikvæð um 318 milljónir króna en árið 2015 voru virðisbreytingar útlána jákvæðar um 18,2 milljarða króna. Landsbankinn gjaldfærði samtals 5,4 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi vegna fjögurra hæstaréttardóma.
  • Eigið fé Landsbankans nam 251,2 milljörðum króna í árslok 2016 og eiginfjárhlutfallið var 30,2% af áhættugrunni.
  • Lagt verður til við aðalfund að greiddur verði um 13 milljarða króna arður til hluthafa vegna ársins 2016. Til viðbótar hyggst bankaráð leggja til sérstaka arðgreiðslu á aðalfundi 22. mars nk.
  • Ársskýrsla Landsbankans 2016 og áhættuskýrsla fyrir árið 2016 koma nú út samhliða birtingu ársuppgjörs. Skýrslurnar eru aðgengilegar á vef bankans.

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 6,6% á árinu 2016, samanborið við 14,8% árið 2015. Hreinar vaxtatekjur voru 34,7 milljarðar króna og hreinar þjónustutekjur námu 7,8 milljörðum króna. Aðrar rekstrartekjur námu 6,1 milljarði króna. Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 318 milljónir króna. Rekstrarkostnaður var 23,5 milljarðar króna.

Útlán jukust um 5% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn minnkaði innan við 1%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti, sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 2,3 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 14% á milli ára. Kemur það einkum til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum, en á sama tíma eykst kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta.

Þá dragast aðrar rekstrartekjur saman um tæpa 9 milljarða króna sem einkum skýrist af þróun á mörkuðum á árinu.

Virðisrýrnun útlána nam 318 milljónum króna. Þetta er mikil breyting frá árinu 2015 en þá voru virðisbreytingar útlána jákvæðar um 18,2 milljarða króna. Áhrif endurútreiknings gengistryggðra lána hefur haft mikil áhrif á uppgjör bankans en á árinu 2015 nam tekjufærsla 13,8 milljörðum króna vegna fordæmisgildis dóma sem féllu í Hæstarétti í málum nr. 34/2015 og 35/2015 og dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember 2015 og janúar 2016. Meginskýringin á virðisrýrnun útlána á árinu 2016 er sú að í desember 2016 og í janúar 2017 dæmdi Hæstiréttur bankanum í óhag í fjórum málum þar sem reyndi á viðbótarkröfu bankans vegna endurútreiknings gengistryggðra lána í samræmi við viðmiðunarvexti Seðlabanka Íslands í stað samningsvaxta samkvæmt fullnaðarkvittunum. Í þessum málum taldi Hæstiréttur að áhrif viðbótarkröfunnar á viðkomandi fyrirtæki væru svo veruleg að bankinn yrði sjálfur að bera þann vaxtamun sem deilt var um. Þessir dómar kunna að hafa fordæmisgildi í málum þar sem deilt er um gengistryggð lán til fyrirtækja, séu aðstæður sambærilegar, en þörf er frekari dóma sem skýra nánar fordæmisgildið. Því gæti matið á fjárhagslegum áhrifum dómanna breyst í samræmi við niðurstöður nýrra dóma. Þessir dómar höfðu í för með sér gjaldfærslu í rekstrarreikning samstæðu Landsbankans í lok fjórða ársfjórðungs 2016, að fjárhæð 5.435 milljónir.

Laun og annar rekstrarkostnaður lækkaði um 1,0% frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 2% en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 5%.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2016 var 25,2 milljarðar króna samanborið við 48,9 milljarða króna 2015. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, eru 9,2 milljarðar króna í uppgjöri fyrir 2016 samanborið við 13,1 milljarð króna árið 2015.

Heildareignir Landsbankans lækkuðu um 7,5 milljarða á milli ára og í árslok 2016 námu eignir bankans alls 1.111 milljörðum króna. Útlán jukust um 42 milljarða króna en aukningin er að stærstum hluta vegna aukinna íbúðalána til einstaklinga, ásamt auknum lánveitingum til fyrirtækja. Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka en það var 1,5% í lok árs 2016, samanborið við 1,8% í lok árs 2015.

Í árslok 2016 voru innlán frá viðskiptavinum 590 milljarðar króna, samanborið við 559 milljarða í árslok 2015.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2016 var 251,2 milljarðar króna samanborið við 264,5 milljarða króna í árslok 2015. Á árinu 2016 greiddi Landsbankinn 28,5 milljarða króna í arð til hluthafa.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2016 var 30,2% og lækkaði um 0,2 prósentustig frá fyrra ári. Fjármálaeftirlitið gerir 22,1% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans.

Lagt verður til við aðalfund þann 22. mars 2017 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2016 sem nemur 0,55 krónum á hlut, eða samtals um 13 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur um 78% af hagnaði ársins 2016. Til viðbótar hyggst bankaráð leggja fram tillögu um sérstaka arðgreiðslu á aðalfundi, en fjárhæð hennar verður tilgreind í tillögum fyrir aðalfund.

Ársreikningur samstæðu 2016

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2016

Kynning á afkomu

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, kynnir afkomu bankans árið 2016 og ræðir helstu atriði rekstrarins á þeim tíma (04.30).

Hreiðar Bjarnason, starfandi bankastjóri Landsbankans, segir: „Landsbankinn er sem fyrr stærsta fjármálafyrirtæki landsins og fjárhagsstaða bankans er afar traust. Grunnrekstur Landsbankans gekk vel á árinu, hreinar vaxta- og þóknunartekjur jukust töluvert frá fyrra ári, en á sama tíma hefur rekstrarkostnaður bankans lækkað.

Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei mælst hærri og staða bankans á fyrirtækjamarkaði og á fjármálamörkuðum er áfram sterk. Þá sýna mælingar að ánægja viðskiptavina bankans jókst umtalsvert á árinu, sem er okkur afar mikilvægt, enda leggur bankinn mikla áherslu á að veita viðskiptavinum sínum um allt land fyrirmyndarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.

Annað árið í röð hækkaði lánshæfismat Landsbankans hjá Standard & Poor’s og er nú BBB og er einkunn Landsbankans áfram með jákvæðar horfur eftir hækkunina. Þetta er ánægjuleg viðurkenning á því frábæra starfi sem unnið hefur verið í bankanum mörg undanfarin ár. Landsbankinn hefur lengi lagt áherslu á að rekstur bankans verði arðsamur þegar stórum og óvenjulegum liðum sleppir. Sú stefna hefur skilað árangri og bankinn mun halda áfram á sömu braut.“

Helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi (4F) 2016

  • Hagnaður Landsbankans á 4F nam 243 milljónum króna, samanborið við 12 milljarða króna á sama fjórðungi 2015.
  • Arðsemi eiginfjár lækkar talsvert á milli tímabila og var 0,4% á 4F, samanborið við 18,6% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan.
  • Virðisbreyting útlána var neikvæð um 4,7 milljarða króna á 4F 2016 en var jákvæð um 5,9 milljarða króna á 4F 2015.
  • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 8,4 milljarðar króna en þær námu 7,3 milljörðum króna á 4F 2015.
  • Hreinar þjónustutekjur voru 1,9 milljarðar króna en þær voru 1,7 milljarðar króna á 4F 2015.

Helstu atriði úr rekstri og efnahag árið 2016

Rekstur:

  • Hagnaður Landsbankans á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna, samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015.
  • Arðsemi eigin fjár eftir skatta lækkar. Arðsemin var 6,6% samanborið við 14,8% árið 2015.
  • Hreinar vaxtatekjur hækka um 2,3 milljarða króna frá fyrra ári. Þær námu 34,7 milljörðum króna á árinu 2016 samanborið við 32,3 milljarða króna á árinu 2015.
  • Vaxtamunur eigna og skulda hækkar á milli ára, var 2,3% árið 2016 en 2,2% árið 2015.
  • Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 14% á milli ára, einkum vegna aukinna viðskipta og aukinna tekna vegna eignastýringar.
  • Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 318 milljónir króna á árinu 2016 samanborið við jákvæðar virðisbreytingar að fjárhæð 18,2 milljarða króna árið 2015. Í lok árs 2016 og í byrjun árs 2017 dæmdi Hæstiréttur bankanum í óhag í fjórum málum sem vörðuðu gengistryggð lán til fyrirtækja. Vegna þessa voru 5,4 milljarðar króna gjaldfærðir í rekstrarreikning samstæðunnar í lok fjórða ársfjórðungs 2016.
  • Aðrar rekstrartekjur námu 6,1 milljörðum króna samanborið við 15 milljarða króna árið 2015.
  • Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 2% á árinu 2016, sem einkum má rekja til samningsbundinna hækkana.
  • Rekstrarkostnaður að frádregnum launum og tengdum gjöldum lækkaði um 5% á milli ára.
  • Kostnaðarhlutfall hækkaði milli ára. Það var 48,4% árið 2016 en var 43,8% árið 2015.
  • Stöðugildum í Landsbankanum fækkaði um 51 á árinu 2016 og voru stöðugildi 1.012 í árslok.
  • Skattar Landsbankans á árinu 2016 voru 8,5 milljarðar króna samanborið við 12,4 milljarða króna á árinu 2015.

Efnahagur:

  • Eigið fé Landsbankans í árslok 2016 var 251,2 milljarðar króna, sem er 13,3 milljörðum króna lægra en það var í árslok 2015. Á árinu 2016 greiddi Landsbankinn 28,5 milljarða króna í arð til hluthafa.
  • Eiginfjárhlutfall bankans (e. capital adequacy ratio ) var í lok árs 2016 30,2% en var 30,4% í lok árs 2015. Það er verulega umfram 22,1% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins.
  • Heildareignir bankans námu 1.111 milljörðum króna í lok árs 2016 og lækka um tæplega 1% á milli ára.
  • Landsbankinn lánaði 267 milljarða króna í ný útlán á árinu 2016 en vegna afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta jukust heildarútlán um samtals 41,9 milljarða króna. Námu heildarútlán 853 milljörðum króna í lok ársins 2016.
  • Innlán viðskiptavina, fyrir utan fjármálafyrirtæki, jukust um 5,5% á árinu 2016 eða um 30,7 milljarða króna. Innlán frá fjármálafyrirtækjum lækkuðu á árinu um 36,6 milljarða króna og er lækkunin fyrst og fremst vegna gjaldeyrisútboðs Seðlabanka Íslands í júní sl.
  • Lausafjárstaða bankans er sterk sem fyrr, jafnt í erlendri mynt sem í íslenskum krónum, og er vel umfram kröfur eftirlitsaðila. Lausafjárhlutfall (e. liquidity coverage ratio (LCR)) var 128% í lok árs 2016.
  • Gjaldeyrisjöfnuður bankans er sterkur en eignir í erlendri mynt eru um 3,5 milljarða króna umfram skuldir í erlendri mynt.
  • Á árinu 2016 lækkaði liðurinn eignir til sölu um 4,5 milljarða króna. Heildarvanskil fyrirtækja og heimila lækkuðu í 1,5% í lok árs 2016, úr 1,8% í lok árs 2015.
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
  2016 2015 4F 2016 4F 2015
Hagnaður eftir skatta  16.643 36.460 243 12.047
Arðsemi eigin fjár eftir skatta  6,6% 14,8% 0,4% 18,6%
Leiðrétt arðsemi eftir skatta *  7,7% 10,6% 1,5% 12,8%
Vaxtamunur eigna og skulda  2,3% 2,2% 2,2% 1,9%
Kostnaðarhlutfall **  48,4% 43,8% 50,7% 39,1%
Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)
  31.12.2016 31.12.2015
Heildareignir  1.111.157 1.118.658
Útlán til viðskiptavina  853.417 811.549
Innlán frá viðskiptavinum  589.725 559.051
Eigið fé  251.231 264.531
Eiginfjárhlutfall (CAR)  30,2% 30,4%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta  154% 136%
Heildarlausafjárþekja  128% 113%
Lausafjárþekja erlendra mynta  743% 360%
Gjaldeyrisjöfnuður  3.480 23.795
Vanskilahlutfall (>90 daga)  1,5% 1,8%
Stöðugildi  1.012 1.063

* Leiðrétt arðsemi eftir skatta = (Hagnaður eftir skatta – jákvæðar virðisbreytingar eftir skatta – skattur á heildarskuldir fjármálafyrirtækja – hagnaður af aflagðri starfsemi eftir skatta) / meðalstaða eigin fjár.
** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls / (Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri Landsbankans á árinu 2016

  • Samkvæmt mælingum Gallup var Landsbankinn með 37,1% markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði að meðaltali á árinu 2016. Markaðshlutdeild bankans hefur aldrei mælst jafn há.
  • Markaðshlutdeild á fyrirtækjamarkaði hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og mældist 33,4% í árslok 2016. Markaðshlutdeild bankans er sérstaklega mikil meðal stærri fyrirtækja en hlutdeild bankans í útlánum til fyrirtækja nam um 40% á árinu, miðað við níu mánaða uppgjör bankanna.
  • Bankinn var sem fyrr leiðandi á markaði með skráð verðbréf. Á árinu 2016 var bankinn með mestu hlutdeild á hlutabréfamarkaði í Kauphöll Íslands og næstmestu hlutdeild á skuldabréfamarkaði.
  • Markaðshlutdeild Landsbankans á bílalánamarkaði hækkaði í 34% og annað árið í röð var bankinn með hæstu markaðshlutdeildina á þessum markaði, skv. mælingum Gallup
  • Í desember hlaut Landsbankinn gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í annað sinn. Bankinn hlaut einnig gullmerkið árið 2015, fyrstur banka á Íslandi.
  • Steinþór Pálsson lét af störfum bankastjóra Landsbankans í lok nóvember 2016. Steinþór hafði verið bankastjóri frá 1. júní 2010. Tilkynnt var að Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri Fjármála Landsbankans, myndi gegna starfi bankastjóra þar til nýr bankastjóri hefur tekið við stjórn bankans.
  • Í nóvember 2016 gaf bankinn út óveðtryggð skuldabréf að fjárhæð 1 milljarður sænskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og bera annars vegar fasta 1,375% vexti og hins vegar breytilega vexti með 1,5% vaxtaálagi ofan á millibankavexti í sænskum krónum.
  • Í nóvember opnaði nýr og glæsilegur umræðuvefur Landsbankans. Umræðan var valin besta efnis- og fréttaveitan árið 2016 af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna.
  • Alþjóðlega matsfyrirtækið Standard and Poor's (S&P) hækkaði í október lang- og skammtíma lánshæfiseinkunn Landsbankans úr BBB-/A-3 í BBB/A-2 og telur horfurnar jákvæðar. Þetta var annað árið í röð sem lánshæfiseinkunn bankans var hækkuð.
  • Í byrjun október tilkynnti Landsbankinn um breytingar á lántökugjaldi af íbúðalánum til einstaklinga. Breytingin leiðir í langflestum tilfellum til þess að lántakendur greiða mun lægra lántökugjald en áður. Í stað þess að lántökugjald nemi tilteknu hlutfalli af lánsfjárhæð innheimtir Landsbankinn nú fasta upphæð, eða 52.500 krónur, við hverja lántöku.
  • Um 1.000 viðskiptavinir Landsbankans tóku verðtryggð neytendalán, einkum íbúðalán, meðan neysluvísitalan var rangt reiknuð af Hagstofunni vegna mistaka. Landsbankinn tilkynnti 1. október að viðskiptavinir bankans yrðu ekki fyrir tjóni vegna þessa og að bankinn myndi leiðrétta lánin að eigin frumkvæði og án skyldu.
  • Bankaráð Landsbankans ákvað í september að nýta heimild til kaupa á eigin hlutum í bankanum sem veitt var á aðalfundi bankans 14. apríl 2016. Kaupin munu nema að hámarki 480 milljónum hluta, eða sem nemur 2% af útgefnu hlutafé. Kaupin fara fram á þremur endurkaupatímabilum, tveimur árið 2016 og því þriðja sem stendur frá 13. til 24. febrúar 2017.
  • Niðurstöður könnunar sem lágu fyrir í september leiddu í ljós aukna ánægju viðskiptavina með þjónustu Fyrirtækjamiðstöðvarinnar í Borgartúni.
  • Landsbankinn gaf í september út skuldabréf að fjárhæð 500 milljónir evra. Skuldabréfin eru til 4½ árs með gjalddaga 15. mars 2021. Þau bera fasta 1,625% vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 190 punkta álagi ofan á millibankavexti í evrum.
  • Í maí hlaut Landsbankinn viðurkenningu fjármálatímaritsins Global Finance sem besti bankinn á Íslandi, þriðja árið í röð.
  • Í apríl stækkaði Landsbankinn skuldabréfaflokka sína í norskum og sænskum krónum með gjalddaga í júní 2019 með útgáfu skuldabréfa sem nemur 250 milljónum norskra króna og 100 milljónum sænskra króna.
  • Nýtt bankaráð Landsbankans var kjörið á framhaldsaðalfundi 22. apríl. Helga Björk Eiríksdóttir var kjörin nýr formaður bankaráðs og Magnús Pétursson var kjörinn varaformaður.
  • Á aðalfundi Landsbankans var samþykkt tillaga bankaráðs um að greiða 28,5 milljarða króna arð vegna rekstrarársins 2015. Arðurinn var greiddur í tveimur jöfnum greiðslum í apríl og september 2016. Samtals greiddi Landsbankinn rúmlega 82 milljarða króna í arð á árunum 2013-2016.
  • Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti endurnýjaði í mars viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum fyrir tímabilið 2015-2016.
  • Bankaráð Landsbankans samþykkti í mars að efla stjórnarhætti innan bankans varðandi sölu eigna.
  • Notkun allra netbanka Landsbankans jókst á árinu 2016. Mest varð aukningin í innskráningum í farsímabankann, l.is. Farsímabankinn var valinn besta vefapp ársins 2016 af dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna.
  • Á árinu 2016 voru miklar endurbætur gerðar á útliti netbanka fyrirtækja með það fyrir augum að auðvelda notkun hans, bæta læsileika og gera hann spjaldtölvuvænan. Jafnframt var nýtt öryggiskerfi fyrir netbanka fyrirtækja tekið í notkun.
  • Í janúar 2017 var Lilja Björk Einarsdóttir ráðin bankastjóri Landsbankans. Lilja mun hefja störf 15. mars næstkomandi.
  • Ársskýrsla Landsbankans 2016 kom út samhliða birtingu ársuppgjörs. Þetta er í þriðja skipti sem ársskýrsla Landsbankans er eingöngu gefin út á rafrænu formi. Í ársskýrslunni er með aðgengilegum hætti fjallað um helstu þætti í rekstri bankans á árinu 2016. Skýrslan er aðgengileg á vef bankans.
  • Áhættuskýrsla Landsbankans kemur nú út í fimmta sinn. Í henni er gerð ítarleg grein fyrir öllum þáttum áhættustýringar bankans og þeim aðferðum sem hann beitir við mat á áhættu. Skýrslunni er m.a. ætlað að veita upplýsingar um áhættu- og eiginfjárstýringu bankans, samsetningu eiginfjár og aðra mikilsverða þætti á þessu sviði. Skýrslan er aðgengileg á vef bankans.

Ársreikningur samstæðu 2016

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Ársskýrsla 2016

Þú gætir einnig haft áhuga á
18. sept. 2024
Vörum við svikasímtölum
Landsbankinn hefur fengið upplýsingar um að undanfarna daga hafi svikarar hringt í fólk hér á landi og haft af þeim fé með ýmis konar blekkingum.
Austurbakki
10. sept. 2024
Landsbankinn gefur út víkjandi forgangsbréf í sænskum og norskum krónum
Landsbankinn hefur lokið sölu á skuldabréfum með breytilegum vöxtum að fjárhæð 1.000 milljónir sænskra króna og 250 milljónir norskra króna. Skuldabréfin eru til fjögurra ára og með heimild til innköllunar að þremur árum liðnum.
Austurbakki
5. sept. 2024
Landsbankinn tekur þátt í rannsókn CBS á ólíkum ákvörðunum kynjanna í fjármálum
Landsbankinn mun taka þátt í rannsóknarverkefni fjármáladeildar Viðskiptaháskólans í Kaupmannahöfn (CBS) sem miðar að því að kanna hvers vegna karlar og konur taka ólíkar ákvarðanir í fjármálum. Arna Olafsson, dósent við CBS, stýrir rannsókninni.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Áhugaverð erindi á vel sóttum sjálfbærnidegi Landsbankans
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024. Erindin voru hvert öðru áhugaverðara og var fundurinn afar vel sóttur. Upptökur frá fundinum og útdrátt úr erindum má nú nálgast á vef bankans.
3. sept. 2024
Landsbankinn styður við Upprásina
Í vetur mun Landsbankinn, ásamt Hörpu, Tónlistarborginni Reykjavík og Rás 2, standa fyrir tónleikaröð sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur.
3. sept. 2024
Vinningshafar Plúskortaleiks himinlifandi á Way Out West
Í sumar fór fram Plúskortaleikur Landsbankans og Visa, en þar áttu handhafar Plúskorta möguleika á að vinna VIP-miða fyrir tvo á tónlistarhátíðina Way Out West í Gautaborg, ásamt gistingu og flugmiða.
Afhending sjálfbærnistyrkja 2024
2. sept. 2024
Fimm áhugaverð verkefni hljóta sjálfbærnistyrk
Sjálfbærnistyrkjum Landsbankans var úthlutað í þriðja sinn í vikunni sem leið. Fimm áhugaverð verkefni hlutu styrki að þessu sinni upp á alls 10 milljónir króna.
27. ágúst 2024
Hvaða leiðir eru færar? Sjálfbærnidagur Landsbankans 4. september
Sjálfbærnidagur Landsbankans verður haldinn miðvikudaginn 4. september kl. 9.00-11.30 í Grósku, Bjargargötu 1.
26. ágúst 2024
Elvar Þór Karlsson nýr forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans
Elvar Þór Karlsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans og mun hefja störf í vetur.
Sigurður Árni Sigurðsson
24. ágúst 2024
Listaverkavefur Landsbankans opnaður
Við höfum opnað listaverkavef Landsbankans en tilgangurinn með honum er að gera sem flestum kleift að skoða og njóta listaverka bankans. Í þessari útgáfu vefsins er sjónum beint að þeim verkum sem eru í húsakynnum bankans í Reykjastræti 6.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur