„Ábyrg­ar fjár­fest­ing­ar eru arð­bær­ari“

Gil Friend, einn helsti sérfræðingur heims í innleiðingu samfélagsábyrgðar, segir að með því að huga að umhverfismálum, jafnréttismálum, stjórnarháttum og öðrum félagslegum þáttum geti fyrirtæki náð fram arðbærari fjárfestingum.
6. október 2017

„Ábyrgar fjárfestingar eru tiltölulega nýtt fyrirbæri sem hefur mismundandi merkingu fyrir mismundandi aðila. Í sínu einfaldasta formi merkir það að horfa til fleiri þátta en einungis fjárhagslegs ávinnings,“ segir Gil Friend, stofnandi Natural Logic Inc., og höfundur bókarinnar The Truth About Green Business. Friend hefur í um 40 ár aðstoðað fyrirtæki og stjórnvöld við að móta, innleiða og mæla árangur af hagkvæmri stefnu í sjálfbærni. „Fjárhagslegur ávinningur er auðvitað lykilatriði - fyrirtæki dafnar ekki án hans. Fjölskyldan mín er ekki að fara að fjárfesta í fyrirtækinu þínu og treysta því fyrir fjármunum okkar nema að hafa af því góðan fjárhagslegan ávinning. En ábyrgar fjárfestingar urðu til í ljósi þess að fólki og fyrirtækjum er umhugað um aðra þætti líka. Þau meta aðra þætti að verðgildi, svo sem áhrif á umheiminn, samfélagið og aðra menningarheima.

Gil Friend er stofnandi og stjórnarformaður Natural Logic Inc., og höfundur bókarinnar The Truth About Green Business. Friend er einn af helstu sérfræðingum heims í ábyrgum fjárfestingum og sjálfbærni en hann hefur í um 40 ár aðstoðað fyrirtæki og stjórnvöld við að móta, innleiða og mæla árangur af hagkvæmri stefnu í sjálfbærni. Breska dagblaðið The Guardian hefur m.a. lýst honum sem einum af 10 áhrifamestu talsmönnum þessara málefna í Bandaríkjunum.

Ábyrgar fjárfestingar urðu til sem viðbrögð við slíku verðmætamati. Upphaflega snérust ábyrgar fjárfestingar um neikvæða skimun. Neikvæð skimun merkir útilokun, að einhver ætli ekki að fjárfesta í því sem viðkomandi þykir slæmt, svo sem áfengisiðnaði, vopnaframleiðslu o.fl. En ábyrgar fjárfestingar hafa þróast og nú er staðhæft að það séu góðir viðskiptahættir að sinna mannlega þættinum og að hyggja að jafnræði og réttlæti. Sé hugað að þessum þáttum má ná fram arðbærari fjárfestingum, ekki bara til skamms tíma heldur til lengri tíma og slíkar fjárfestingar bera með sér minni áhættu vegna þessara samfélagslegu þátta. Ábyrgar fjárfestingar eru í mikilli þróun og eru að færast frá neikvæðri skimun fortíðarinnar til jákvæðari og markvissari skimunar sem leitar að fleiri gildum,“ segir Friend.

Fjárfestar ættu að taka loftslagsmál og veðurfarsbreytingar alvarlega

Friend bendir á að hnattræn hlýnun og veðurfarsbreytingar séu ofarlega í huga almennings. Við stöndum frammi fyrir mörgum áskorunum sökum þess. Við þurfum að takast á við hækkandi sjávarstöðu, hækkandi hitastig, röskun á landbúnaðarframleiðslu og röskun í annarri framleiðslu, sem og möguleikann á að mikilvægir hlutar jarðarinnar verði óbyggilegir sökum hækkandi vatnsborðs eða hitastigs. Við þurfum einnig að takast á við hækkandi sýrustig sjávar, sem mun hafa áhrif á sjávarútveg, svo eitthvað sé nefnt. Fjárfestar og forsvarsmenn fyrirtækja ættu að taka þessi málefni alvarlega, rétt eins og önnur mikilvæg mál.

„Við látum okkur málin varða á mismunandi hátt. Sumt snertir okkur persónulega, varðar fjölskylduna og tengist þá persónulegu siðferði, gildum, almennum lífsskoðunum og framtíðarvonum. Við erum gjörn á að halda að við getum skilið á milli persónulegra málefna og málefna fyrirtækja - þetta eru bara viðskipti og ég vil einbeita mér að fjármálunum. Jafnvel ef svo er, eru samt gildar ástæður fyrir fjárfesta að láta sig þessi mál varða vegna þess að þau fela í sér áhættur og tækifæri, raskanir. Hér er um að ræða skort á aðföngum, rof í aðfangakeðju, hraðfara þróun. Það getur reynst áskorun að halda starfsleyfi eða viðhalda starfseminni og reynast samkeppnishæfur í heimi sem einkennist af örum breytingum,“ segir Friend.

Mikilvægt fyrir fyrirtæki að aðlagast hröðum breytingum

Nú er tími raskana og breytinga í viðskiptaheiminum að sögn Friends. Gott dæmi um það eru Uber og Airbnb sem hafa sett heilar atvinnugreinar í uppnám á mjög skömmum tíma. Við sjáum þetta líka í snjallsímum sem komu fyrst fram á sjónarsviðið fyrir 10 árum en finnast nú í milljarðatali um allan heim. Þetta er tími hraðfara breytinga og ein helsta áskorun sem að fjárfestum og forsvarsmönnum fyrirtækja steðjar er að takast á við breytingarnar, að taka upplýstar, skynsamlegar ákvarðanir - fjárfestingarákvarðanir, viðskiptaákvarðanir - í umhverfi sem einkennist af óvissu.

„Stefnumótun fyrirtækja þarf að taka mið af þessum þáttum, enda er um að ræða aðgang að rekstrarvörum og kostnað aðfanga. Hvað varðar beinar og óbeinar áskoranir má nefna að fyrirtæki vinna samkvæmt starfsleyfi og innan ramma regluumhverfis. Mörgum fyrirtækjum þykja regluverk yfirvalda áþján, reglurnar koma á óvart og standa fyrirtækjum fyrir þrifum. Við höfum séð að það er mögulegt að sjá þróun í regluverkinu fyrir, þar sem stjórnvöld reyna að aðlagast og takast á við þær hættur sem að mannkyninu steðja,“ segir Friend.

Sem dæmi má nefna reglugerð sem takmarkaði notkun hættulegra efna, sem ESB innleiddi árið 2005. Þessi reglugerð gerði kröfu um takmörkun á notkun nokkurra þungmálma - á blýi, kvikasilfri, krómi og kadmíum, auk tveggja annarra flókinna efnasambanda. Markmiðið var að taka þessi efni úr umferð í viðskiptum. Á þeim tíma kom þetta þriðjungi, jafnvel helmingi rafeindafyrirtækja í opna skjöldu og þau fyrirtæki voru óviðbúin breytingunum. Önnur fyrirtæki í alþjóðlegum rafeindaiðnaði sögðust hafa búist við slíku regluverki um fimmtán ára skeið. Þau fyrirtæki höfðu unnið að breytingum í vöruhönnun til að draga úr notkun þessara efna með því að nota í staðinn önnur efni sem eru hagkvæmari, betri og hafa minni eituráhrif. Þannig náðu þessi fyrirtæki samkeppnisforskoti.

„Sumar greinar tóku á sig stór högg og voru gjörsamlega óviðbúnar reglubreytingunni. Aðrir sögðust hafa séð að allt stefndi í að þau þyrftu að undirbúa sig til að takast á við breytingar með því að fylgjast með þróun vísinda og samfélagslegum breytingum. Hér er um að ræða viðbúnað og getuna til að skilja hreyfingar á mörkuðum, til að öðlast samkeppnisforskot, til að þróa betri vörur og ná betri framlegð. Þetta eru allt lykilatriði fyrir fyrirtæki, óháð náttúruverndarsjónarmiðum: þetta eru hreinir viðskiptahagsmunir. Sjálfbærni, veðurfarsbreytingar, mengun, heilsa sjávar og fleira af þessum toga eru þættir sem opna nýjar víddir fyrir viðskipti. Fyrir Ísland, sem byggir á langri hefð í sjávarútvegi, eru þetta raunveruleg áhyggjuefni sem fjárfestar ættu að sinna,“ segir Friend.

Þetta er áskorunin sem öll fyrirtæki standi frammi fyrir, ekki bara að skilja hvað markaðurinn kallar á núna heldur hvaða kröfur hann kemur til með að gera í framtíðinni og taka tillit til þess í vöruþróun. Það hefur sýnt sig að þetta hefur reynst dýrmætt vaktkerfi fyrir fyrirtæki í ýmsum greinum, allsstaðar í heiminum, ekki bara til að sinna samfélagslegri ábyrgð heldur til að standa vörð um viðskiptahagsmuni.

Stækkandi millistétt ein helsta áskorunin

Stækkandi millistétt á heimsvísu er ein helsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir að mati Friends. Fólksfjöldi eykst og síaukinn hluti mannfjöldans færist yfir í millistéttina, er ríkari og hefur meiri kaupmátt. Allir sækjast eftir betra lífi fyrir sig, fyrir fjölskyldur sínar og fyrir börnin sín. Þetta þýðir að eftirspurn eftir vörum eykst - snjallsímar, ísskápar, bílar, íbúðarhúsnæði, byggingar og fleira. Allt setur þetta þrýsting á auðlindir, krefst unninna jarðefna, timburs úr skógum o.s.frv. „Þannig að þarna er aukinn þrýstingur. Fleira fólk með meiri peninga að kaupa meira dót þýðir aukinn þrýsting á vistkerfi jarðarinnar. Á sama tíma dalar framleiðni þessara vistkerfa. Geta vistkerfanna til að styðja þjónustur á borð við skógrækt, sjávarútveg, landbúnað - áþreifanlegar afurðir jarðefnavinnslu og annarra auðlinda - fer minnkandi. Þannig að þarna er flöskuháls. Við höfum aukna eftirspurn og minnkandi framleiðslugetu og það er raunveruleikinn sem við búum við. Spurningin er, hvað gerum við? Hvað gerum við til að draga úr þrýstingnum en samt stunda farsæl viðskipti þrátt fyrir þrýstinginn. Við staðhæfum, byggt á athugunum okkar á hundruðum fyrirtækja um allan heim, að þau fyrirtæki sem skilja þessar stefnur og geta notað þær til að sníða sér farveg að nýrri framtíð eru þau fyrirtæki sem munu blómstra,„ segir Friend.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða Landsbankans

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
29. nóv. 2023
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Myndlistarsýning
17. ágúst 2023
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Sýningin Hringrás er úrval verka úr listasafni Landsbankans. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi. 
Ungmenni úr Hinsegin félagsmiðstöðinni
10. ágúst 2023
„Baráttan er ekki búin fyrr en …“
Hinsegin félagsmiðstöðin verður með einn stærsta vagninn í Gleðigöngunni en hann er 14 metra langur og rúmar meira en 100 krakka. Þótt vagninn verði litríkur og glæsilegur er undirtónninn samt alvarlegur.
13. júní 2023
Líffræðilegur fjölbreytileiki lykillinn að farsæld – líka í fjármálum
Fjölbreytileiki lífríkis er ein sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni. Vinna þarf samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkisins.
24. maí 2023
Er fyrrverandi að fylgjast með fjármálunum þínum?
Viðskiptavinir Landsbankans, eins og annarra fjármálafyrirtækja, hafa lengi getað veitt öðrum aðgang að fjármálunum sínum. Algengt dæmi um þetta er þegar hjón eða fólk í sambúð veitir hvort öðru aðgang að reikningum hvors annars. Þannig fá þau betri yfirsýn yfir fjármálin, geta millifært, greitt reikninga og svo framvegis.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur