Fjárfestasvikum er beint að reyndum sem óreyndum fjárfestum, þau felast til dæmis í óvæntu símtali, skilaboðum, tölvupósti, færslu á samfélagsmiðlum, auglýsingum á netinu, bréfleiðis og svo framvegis. Iðulega innihalda þau „besta tækifæri ársins“ til kaupa á verðmætum af einhverju tagi. Um er að ræða gylliboð, eins og að fjárfesta í rafmynt eða kaupa hlutabréf í fyrirtæki sem þú hefur jafnvel aldrei heyrt af áður.
Fjársvikarinn heldur því fram að hann þurfi ekki starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi og sýnir ef til vill fram á að hann sé með heimild stjórnvalda eða fjármálaeftirlitsins í eigin heimalandi. Fullyrðingarnar reynast svo allar rangar.
Málafjöldi vegna fjárfestasvika hefur nú þegar aukist um 77% frá fyrra ári, þó árið 2019 sé aðeins rétt rúmlega hálfnað. Í þessum geira glæpaiðnaðarins eru fjárfestasvikin því núorðið algengustu svikin gagnvart einstaklingum hérlendis en fyrirmælafalsanir eru ennþá algengustu svikatilraunirnar gagnvart fyrirtækjum.
Útsmoginn sálfræðihernaður
Líkt og í öðrum samskiptasvikum (social engineering) má líkja fjárfestasvikum við sálfræðihernað þar sem svikahrappar nota sálræna og tilfinningalega eiginleika fólks til að ráðskast með það. Fyrst er beitt svonefndum „köldum“ snertingum (cold calls) þar sem svikarinn reynir að fyrra bragði að ná til fjölda fólks. Þegar fórnarlamb bítur á agnið hefst annað og einbeittara ferli þar sem hiti færist í leikinn. Svikarinn beitir miklum þrýstingi og leggur áherslu á að viðkomandi þurfi að taka ákvörðun skjótt svo hann missi ekki af tækifæri lífsins.
Hvernig virkar þetta?
Svikarinn reynir allt hvað hann getur til að sannfæra fórnarlambið um að millifæra fjármuni inn á tiltekinn bankareikning og leggja þannig fé í sjóð eða aðra fjárfestingu sem reynist svo á endanum vera fölsk. Svikarinn lofar mikilli ávöxtun; þetta geta verið fjárfestingar í gulli, dýru víni, rafmynt, aflandssjóðum, skuldabréfaútboðum, fasteignum, afleiðum, kaup á kolefnisjöfnun og fjölmargt fleira. Listinn getur verið mjög langur.
Svikarinn hefur samband við fórnarlambið og segist vera til dæmis verðbréfamiðlari eða sölustjóri hjá sjóðastýringarfyrirtæki. Hann býður upp á fjármála- og fjárfestingarráðgjöf og hvetur fórnarlambið til að fjárfesta í erlendu fyrirtæki eða safni fyrirtækja og heldur því fram að áhættan sé óvenju lítil í þessu tilviki. Þarna heyrast kunnugleg stef á borð við: „Þú munt uppskera ríkulega ávöxtun á skömmum tíma“.
Tilboðin hljóma afar freistandi og líta út fyrir að vera fullkomlega lögmæt. Jafnvel er vísað á vefsvæði þar sem fólk getur fylgst í rauntíma með þróun fjárfestinga. Framsetningin er vönduð og viðmót svikarans sömuleiðis, hann getur komið vel fyrir sig orði í tali og rituðu máli.
Dæmi eru um að haldnir séu fjárfestafundir (investment meetings) þar sem hópur áhugasamra fjárfesta kemur saman og hlýðir á framsögu svikafyrirtækisins. Um nokkurs konar söluráðstefnu er að ræða og eru slíkir fundir ýmist haldnir erlendis eða á netinu, sem er algengara.
Slíti fórnarlambið ekki á samskiptin með afgerandi hætti verður áreitið einfaldlega meira og viðvarandi. Að óbreyttu hættir gerandinn ekki að hafa samband við fórnarlambið fyrr en hann nær sínu fram.
Stöðugt er farið fram á meiri fjárframlög frá fórnarlambinu, óskað er eftir greiðsluþátttöku þess í ýmsum útlögðum kostnaði, við það bætist svo skrifstofukostnaður, umsýslukostnaður, leyfisgjöld, skattar og margt fleira. Aðalmálið er svo auðvitað stofnframlagið og reglulega framlagið sem getur hlaupið á mörgum milljónum króna. Ekkert af þessu kemur til baka.
Hvernig á að bregðast við?
Fjárfestasvik eru ekki ný af nálinni og hafa viðgengist í fjölda ára. Svikararnir leita sífellt nýrra leiða til að svíkja út fé og þegar gylliboð berst á netinu verður að beita heilbrigðri skynsemi. Það sem hljómar of gott til að vera satt er líklega ekki satt. Í fyrri pistlum höfum við fjallað um hve svikatilraunirnar verða sífellt vandaðri og útsmognari.
Því er rétt að ítreka eftirfarandi leiðbeiningar:
- Verum á varðbergi gagnvart óvæntum tilboðum.
- Verum á varðbergi gagnvart fólki og fyrirtækjum sem erfitt er að sanna deili á.
- Verum á varðbergi gagnvart fólki og fyrirtækjum sem bjóða fjárhagsaðstoð að fyrra bragði.
- Veitum öðrum aldrei bankaupplýsingar okkar.
- Það er óeðlilegt ef einhver hefur samband við þig og óskar eftir upplýsingum um fjárhagslega stöðu þína.
- Treystu bankanum ef hann ráðleggur þér að framkvæma ekki greiðslu.
- Ef þú ákveður samt sem áður að halda áfram, fáðu þá fagálit viðurkenndra sérfræðinga í málum sem þessum, þar með talið lögfræðiálit.
Mikil fjölgun svikatilrauna fyrstu sex mánuðina hérlendis
Landsbankinn tekur þátt í margvíslegu samstarfi á sviði öryggismála, þar með talið í öryggishópi norrænna banka. Bankinn fær verðmætar upplýsingar í gegnum samstarfið og getur sömuleiðis miðlað af reynslu sinni. Árið 2012 hóf Landsbankinn samstarf við þúsundir erlendra banka og les sjálfkrafa inn í kerfi sín, oft á sólarhring, nýjustu válista yfir bankareikninga og fleiri upplýsingar, til að hindra greiðslur til óprúttinna aðila.
Landsbankinn mælir og skrásetur allar fjársvikatilraunir sem sérfræðingar og kerfi bankans verða vör um. Gögnin sýna ótvírætt að tilraunum til fjárfestasvika hefur fjölgað mjög á milli ára. Munar þar mest um svikatilraunir vegna meintra rafmyntar- og hlutabréfakaupa.
Heimtur í þessum málum eru erfiðar og er viðskiptavinurinn gjarnan búinn að framkvæma eina eða fleiri greiðslur áður en hann áttar sig á hvers kyns er. Þá leitar hann til bankans – en það er þá iðulega um seinan.
Svikatilboð um endurheimt fjár
Að gefnu tilefni áréttar Landsbankinn að bankinn á ekki í samstarfi við erlend fyrirtæki eða öryggisráðgjafa um endurheimt fjár sem tapast hefur við fjársvik. Fram eru komin dæmi undanfarin misseri þar sem svikahrappar bjóða fórnarlömbum fjársvika sinna aðstoð undir fölsku flaggi og kynna sig sem samstarfsaðila Landsbankans. Hið rétta er að bankinn aðstoðar viðskiptavini við að endurheimta glatað fé en sú þjónusta er án endurgjalds. Þjónustan fæst aðeins hjá bankanum en er ekki boðin í samstarfi við önnur fyrirtæki.
Hafðu samband
Ef þú telur að þú hafir orðið fórnarlamb fjársvika hvetjum við þig til að láta okkur vita og kæra málið til lögreglu á netfangið cybercrime@lrh.is, eftir atvikum. Þú getur líka sent tölvupóst til Þjónustuvers Landsbankans eða hringt í síma 410 4000.