Ef þú lest ekki skila­boð­in get­ur þú tap­að mikl­um pen­ing­um!

Ertu örugglega að nota rafrænu skilríkin til að staðfesta eitthvað sem þú vilt í raun og veru gera? Eða eru svikarar kannski að plata þig til að nota rafrænu skilríkin til að hleypa sér inn í bankaappið þitt?
31. ágúst 2023

Svikamálum hefur fjölgað gríðarlega undanfarið og ekki lítur út fyrir að það sé að hægjast á. Í sumar höfum við í bankanum skráð um 250 svikamál sem byggja í mörgum tilfellum á því að einstaklingar hafa látið plata sig til að hleypa svikurum inn í Landsbankaappið með rafrænum skilríkjum. Í kjölfarið er algengast að svikararnir nái í upplýsingar um kortanúmer, gildistíma og CVC-númer og nota þær til að reyna að svíkja út fé.

Ekki verður alltaf tjón, annað hvort vegna þess að fólk áttar sig á svikunum og hefur strax samband við bankann eða vegna þess að öryggiskerfi bankans kemur í veg fyrir svikin. Tjón sem lendir á einstaklingum hefur þó numið frá nokkrum tugum þúsunda upp í nokkrar milljónir króna.

Einföld svik, en auðvelt að verjast - lesa skilaboðin!

Þessi svik eru mjög einföld í framkvæmd en þau byggja öll á því að fólk les ekki skilaboðin sem birtast í símanum þegar beðið er um innskráningu með rafrænum skilríkjum, heldur samþykkir innskráningu eða aðgerðir í hugsunarleysi. Það er líka mjög einfalt að verjast svikunum – það eina sem þarf að gera er að lesa skilaboðin.

Þegar við auðkennum okkur með rafrænum skilríkjum fáum við skilaboð í símana okkar með upplýsingum um inn á hvaða öruggu síðu við erum að skrá okkur og hvaða aðgerð við erum að samþykkja. Ef við erum að framkvæma greiðslu í netverslun og fáum auðkenningu í símann til þess að samþykkja greiðslu, þá birtast upplýsingar um þann sem við erum að versla við og fjárhæð greiðslunnar sem við erum að samþykkja. Ef við erum að skrá okkur inn í netbankann eða appið eða samþykkja greiðslur, þá kemur fram í skilaboðunum hver upphæðin er, hvert peningarnir eru að fara o.s.frv.

Besta leiðin til að verjast svikum er að lesa öll skilaboð um innskráningu og greiðslur vel. Það tekur bara nokkrar sekúndur.

SMS með hlekk? Sterk vísbending um svik!

Algengt er að svikin fari þannig fram að þú færð SMS-skilaboð sem eru látin líta út fyrir að vera frá póstinum, flutningafyrirtæki eða bankanum þínum. Svikaskilaboð eiga það yfirleitt sameiginlegt að í þeim er hlekkur sem þú þarft að smella á, t.d. til að uppfæra upplýsingar eða ganga frá greiðslu með því að smella á hlekkinn. Ef þú færð SMS með hlekk eiga allar viðvörunarbjöllur að fara í gang því svona fyrirtæki senda þér ekki hlekk til að smella á. Þau biðja þig kannski um að fara inn á vefinn sinn og skrá þig inn en þau senda þér ekki hlekk.

Skjáskot af svikaskilaboðum

Ekki hleypa svikurum inn í netbankann þinn!

Ef þú smellir á hlekkinn í svikaskilaboðunum færist þú yfir á falska vefsíðu sem e.t.v. lítur nánast eins út og vefur umræddra fyrirtækja eða eins og innskráningarvefur fyrir rafræn skilríki, s.s. Auðkenni eða Ísland.is. Á fölsku vefsíðunni er meðal annars beðið um að þú setjir inn kortanúmerið þitt eða símanúmerið. Það næsta sem gerist er að svikarinn tekur símanúmerið sem þú skráðir og fer inn á raunverulega innskráningarsíðu bankaapps. Stundum giska þeir á hvaða bankaapp þú notar en í öðrum tilfellum biðja þeir um og fá þessar upplýsingar. Undanfarið hefur borið á því að svikararnir reyni að virkja sitt lífkenni, t.d. fingrafar, sem innskráningarleið í bankaappið. Til þess að það takist þarft þú að samþykkja breytinguna með rafrænu skilríkjunum. Ekki taka sénsinn og samþykkja eitthvað ólesið – þú gætir verið að hleypa svikurum inn í bankaappið þitt. Taktu frekar nokkrar sekúndur til að lesa skilaboðin og hugsa þig um.

Ef reynt er að skrá nýtt auðkenni eða nýtt tæki færðu eftirfarandi skilaboð í símann, a.m.k. í tilfelli Landsbankans: Ég samþykki nýtt tæki til auðkenningar og greiðslu hjá Landsbankanum (sjá mynd fyrir neðan). Ef þú samþykkir þetta er svikarinn kominn með fullan aðgang að netbankanum þínum. En ef þú lest skilaboðin – og samþykkir þetta ekki – þá geta svikararnir ekkert gert.

Svikaskilaboð

Verum vakandi, verum varkár – það borgar sig

Við berum ábyrgð á okkar eigin kortaupplýsingum og á því hvað við samþykkjum með rafrænum skilríkjum. Förum varlega með rafrænu skilríkin okkar og lesum alltaf skilaboðin sem koma á símana okkar. Sekúndurnar sem við spörum á að samþykkja falska auðkenningarbeiðni í hugsunarleysi geta verið dýrkeyptar.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Netöryggi
3. ágúst 2023
Yngri hópur fellur fyrir netsvikum – erum við nógu varkár?
Netsvikum og tilraunum til netsvika hefur fjölgað mikið í sumar. Ekki aðeins eru málin fleiri heldur eru fórnarlömbin líka yngri en áður. Möguleg skýring á aukningunni er sú að nú er meira um að svikin séu reynd utan opnunartíma fyrirtækja, þ.e. um kvöld og um helgar og þegar líklegt er að fólk sé í sumarfríi og því síður á varðbergi.
Öryggi í netverslun
28. júlí 2023
Hvernig á að bregðast við svikum?
Ef þig grunar að þú hafir lent í klóm svikara, sérð óeðlilegar færslur á reikningum eða greiðslukortum eða óviðkomandi hefur komist inn í netbankann þinn, er mikilvægt að hafa samband við bankann eins fljótt og hægt er.
Netöryggi
13. jan. 2023
Varist svik í gegnum samfélagsmiðla – aldrei framsenda SMS-kóða
Við viljum vara viðskiptavini okkar við netsvikum, sérstaklega svikum sem fara fram í gegnum samfélagsmiðla og skilaboðaforrit, en mikið hefur borið á þeim undanfarið.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur