Setjum okkar eigin leikreglur í netheimum

Snjallsímar og tölvutækni hafa aukið og bætt lífsgæði með betra aðgengi að upplýsingum, vörum, þjónustu og tækifærum. Auðvelt er að stunda bankaviðskipti á netinu, nýta sér ýmis konar þjónustu og panta vörur og fá sent heim. Samfélagsmiðlar hafa líka gert samskipti við okkar nánustu og umheiminn mun aðgengilegri og auðveldari. Alla þessa kosti sem símarnir og tölvutæknin hafa fært okkur er hægt að nýta með öruggum hætti – en til þess þarf að gæta að nokkrum grundvallaratriðum. Hætturnar í netheimum leynast víða og því er mjög mikilvægt að þekkja þær og fara varlega.
Gerum bara það sem við treystum okkur til
Mikilvægt er að við setjum okkar leikreglur sem við treystum okkur til að fara eftir út frá þekkingu okkar og reynslu í netheimum. Mikilvægustu leikreglurnar sem ég set mér eru þessar:
- Ég skrái mig aldrei inn í bankaapp eða netbanka nema fara sjálf inn í appið eða beint á vefsíðu bankans. Ég smelli aldrei á hlekki sem leiða mig inn á innskráningarsíðu apps eða netbanka.
- Ég smelli aldrei á hlekki sem koma í tölvupóstum, með SMSi, í gegnum Messenger eða önnur skilaboðaforrit. Í staðinn fer ég beint inn á vef/app viðkomandi.
- Ég sendi aldrei upplýsingar um kortanúmerið mitt eða mynd af kortinu mínu í tölvupósti eða skilaboðum. Ég set aðeins kortanúmerið mitt inn á örugga vefverslun þar sem ég samþykki greiðslu með auðkenningu í rafrænum skilríkjum eða bankaappi.
- Ég les vel yfir auðkenningar sem koma í rafrænum skilríkjum við innskráningu á öruggar síður eða þegar ég samþykki greiðslu. Ég kanna hvort þar séu réttar upplýsingar um söluaðila, rétt fjárhæð og réttur gjaldmiðill.
- Ég tek aldrei mark á gylliboðum á samfélagsmiðlum, í símtölum eða skilaboðum um fjárfestingar frá fyrirtækjum sem ég þekki ekki neitt.
Þegar við höfum þessi atriði í huga og gerum bara það á netinu sem okkur líður vel með og treystum okkur til að gera, þá eru minni líkur á að við föllum fyrir brögðum svikara. Augnabliks kæruleysi eða tilraunir til að fjárfesta á netinu í einhverju sem við þekkjum ekki vel, s.s. rafmyntum, getur verið dýrkeypt og fjármunir sem við höfum eytt allri starfsævi okkar að afla geta verið í hættu.
Fræðsluefni
Við í Landsbankanum höfum birt mikið af aðgengilegu fræðsluefni um varnir gegn netsvikum á vefnum okkar. Þar fjöllum við m.a. um símtalasvik og falska tölvupósta sem mikið hefur borið á undanfarið.
Förum varlega á netinu!
Greinin birtist fyrst í Félagstíðindum Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, 1. tbl. 16. árg. 2025.









