Einsemd. Von. Stress. Samviskusemi. Þrá. Sorg. Góður ásetningur. Leiði. Mannlegi þátturinn.
Flestar tegundir netsvika byggja á að skapa tilfinningaviðbrögð sem svo eru nýtt til að fá okkur til að gera ákveðna hluti. Herborg sendi úkraínska lækninum peninga til að hjálpa honum út úr landinu af því að hún var nýbúin að missa foreldra sína og hann hafði upplifað svo mikinn missi sjálfur. Ragnar millifærði risa upphæð skv. fyrirmælum forstjórans eins hratt og hann gat af því að hann er metnaðarfullur og vill stöðuhækkun. Þrúður svaraði skilaboðum frá gömlum bekkjarfélaga og sendi kóðann sem hann bað um og samþykkti auðkenningar í rafrænum skilríkjum af því að hún er einmana. Marteinn lét slag standa og fjárfesti í frábæru tækifæri af því að hann dreymir um að hætta að vinna og ferðast um heiminn.
Okkur tekur sárt að sjá fólk tapa stórum fjárhæðum, jafnvel aleigunni. Við viljum virkilega hjálpa þér að forðast að falla í svikagildrur. Og já, auðvitað snýst þetta líka um hagsmuni bankans. Við viljum hvetja þig til að taka góðan tíma til að íhuga málið áður en þú sendir frá þér upplýsingar, svarar skilaboðum eða opnar hlekki. Ertu að gera það í ró og næði og að yfirlögðu ráði? Ertu með eftirfarandi atriði í huga?

Lesa öll skilaboð vandlega
Farðu mjög varlega þegar þú færð tölvupóst, SMS eða skilaboð á samfélagsmiðlum sem innihalda hlekki, sérstaklega ef þú áttir ekki von á skilaboðum frá viðkomandi. Skoðaðu netfang sendanda sérstaklega. Ef þú heldur að um alvöru skilaboð sé að ræða mælum við alltaf með að þú farir beint inn á vef viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar og skráir þig inn með hefðbundnum hætti þar, frekar en að smella á hlekki eða fara í gegnum leitarvél.
Ert það þú sem ert að nota rafrænu skilríkin?
Ekki samþykkja innskráningu eða staðfesta aðgerðir með rafrænum skilríkjum nema þú sért í raun og veru að nota þau til að skrá þig inn. Þú átt ekki að fá neina óvænta og óumbeðna beiðni um auðkenningu í rafræn skilríki. Lestu auðkenningu í rafrænum skilríkjum um staðfestingu á netgreiðslum vel og vandlega. Það er algjört lykilatriði að lesa skilaboðin vel áður en auðkenningin er staðfest og ganga úr skugga um að allar upplýsingar, þ.m.t. um upphæð og gjaldmiðil, séu réttar.
Ef það er of gott til að vera satt…
Svik á markaðstorgi Facebook eru að færast í aukana. Þar bjóða svindlarar „ókeypis“ varning eða gjafir en til að fá þær erum við beðin um að skrá persónuupplýsingarnar okkar. Persónuupplýsingarnar geta svikararnir svo notað til að taka yfir notandaaðgang.
Samskiptaöpp (t.d. Messenger) eru líka notuð til að svíkja fólk. Slík svik byggja oft á því að einhver sem þú þekkir sendir þér skilaboð og biður um símanúmerið þitt til að geta sent þér hlekk á skemmtilegan leik. Í framhaldinu færðu svo skeyti um að þú hafir unnið í leikum og síðan er óskað eftir kortaupplýsingum til að hægt sé að leggja „vinninginn“ inn á kortið. Svikararnir geta þá notað upplýsingarnar til að taka út af kortinu þínu. Upplýsingar um leikina gætu jafnvel komið frá einhverjum sem þú telur þig þekkja – en það er alltaf möguleiki á að reikningur viðkomandi hafi verið tekinn yfir af svikurum.
Hvað á ég að gera ef mig grunar að ég hafi orðið fyrir svikum?
Ef þú hefur orðið fyrir fjársvikum hvetjum við þig til að láta okkur vita sem allra fyrst og eftir atvikum kæra málið til lögreglu. Þú getur alltaf hringt í okkur í síma 410 4000 eða sent tölvupóst á netfangið svikavakt@landsbankinn.is. Starfsfólk Landsbankans er á vaktinni frá kl. 9 til 23 alla daga vikunnar. Utan þess tíma færast símtöl sjálfkrafa yfir á neyðarnúmer vegna Visa-korta.
Síðast en ekki síst…
Er einhver í þínu umhverfi í áhættuhópi? Fjölskyldumeðlimur sem nýlega hefur gengið í gegnum skilnað eða eldri ættingi sem er mikið einn? Við gætum mögulega hjálpað viðkomandi með því að taka smá spjall, bara um daginn og veginn, en líka til að impra á lykilatriðum netöryggis:
- Aldrei senda frá þér kortaupplýsingar eða mynd af greiðslukortum, jafnvel þótt þú þekkir (eða heldur að þú þekkir) þann sem þú ert að senda til.
- Aldrei leyfa ókunnugum að taka yfir tölvuna þína með forritum á borð við AnyDesk. Það er þekkt aðferð hjá svikurum.









