Fimm leið­ir til að setja sér fjár­hags­leg markmið

Fjárhagsleg markmiðasetning er oft grunnurinn að því að önnur markmið geti orðið að veruleika. Hér á eftir fara nokkur ráð um hvernig gott er að bera sig að þegar þú setur þér fjárhagsleg markmið.
5. janúar 2022

Ég man ennþá daginn þegar markmiðasetning var einfölduð fyrir mér í eitt skipti fyrir öll. Þannig var að ég og unglingurinn minn áttum samtal þar sem ég lýsti einhverju sem mig langaði að gera og það stóð ekki á svari: „Gerðu það þá!“ Ég maldaði í móinn: „Það er ekki svo einfalt,“ en unglingurinn hélt ótrauður áfram: „Jú, þú hefur alltaf sagt að við getum gert allt sem við viljum. Svo gerðu það bara.“

Er það mögulegt?

Samtalið sat í mér. Hvers vegna talaði ég um það sem mig langaði að gera án þess þó að trúa því raunverulega að það væri mögulegt – eða hafa um það nokkur áform að hrinda þessum draumum mínum í framkvæmd? Hvers vegna átti ég auðveldara með að trúa því að aðrir gætu gert hlutina en ég sjálf?

Eftir nokkra sjálfskoðun ákvað ég að breyta þessu til batnaðar. Ég verð að trúa að ég geti gert það sem langar til að gera. En ég þarf líka að hafa hugrekki til að setja það í forgang og til þess þarf ég að búa til fjárhagslegar forsendur fyrir því sem hugurinn stendur til. Þar sem ég tel mig nú hafa soðið niður formúluna að baki markmiðasetningu og þar með fjárhagslegum markmiðum, deili ég henni með lesendum í þeirri von að hún geti hjálpað öðrum að ná árangri í markmiðasetningu.

1. Virkjaðu möguleikahugsunina

Fyrsta skrefið í átt að alvöru markmiðasetningu er að spyrja sig hvað skiptir mestu máli. Þarna er gott að hafa í huga að lífið skiptist í tímabil og að forgangsröðunin tekur gjarnan breytingum eftir æviskeiðum.

Þú getur virkjað möguleikahugsunina með því að spyrja þig nokkurra spurninga. Hvað langar mig að gera? Á ég mér draum sem þarf byr undir báða vængi til að geta orðið að veruleika? Hvernig lífi vil ég lifa? Hvernig get ég sett það sem mig langar að gera í forgang? Hvernig get ég fjármagnað það?

2. Losnaðu við litlu röddina

Rannsóknir hafa sýnt að takmarkandi hugmyndir koma oft í veg fyrir að við getum virkjað möguleikahugsunina og látið hlutina verða að veruleika. Þá er eins og lítil rödd innra með okkur taki yfir og dragi úr okkur. Litla röddin segir gjarnan hluti eins og „þú getur það ekki“, „þú hefur ekki efni á því“ eða annað í þeim dúr.

Þetta er birtingarmynd takmarkandi hugmynda sem hafa tekið sér bólfestu í undirmeðvitundinni. Góðu fréttirnar eru að þetta eru bara hugmyndir. Annað skrefið í átt að alvöru fjárhagslegum markmiðum er að takast á við takmarkandi hugmyndir með því að skora þær á hólm. Prófaðu að spyrja þig „hvað ef ég gæti þetta? hvað ef peningar væru ekki fyrirstaða?“.

3. Leggðu drög að áætlun

Markmið okkar geta verið eins ólík og við erum mörg. Fjárhagsleg markmið geta til dæmis snúið að stofnun fyrirtækis, fjárfestingum, tengst námsleyfi, húsnæðiskaupum, ferðalögum, því að styðja barnabörnin til náms, eiga varasjóð, greiða niður skuldir eða einhverju allt öðru.

Þriðja skrefið í átt að alvöru fjárhagslegum markmiðum er að taka ákvörðun um hvað þú ætlar að gera og brjóta svo verkefnið niður í framkvæmdaeiningar. Hvað er það sem þú vilt virkilega að verði að veruleika? Gerðu áætlun um hvernig þú ætlar að hrinda því í framkvæmd og hversu mikla peninga þú þarft til að gera það. Hafðu nákvæmnina að leiðarljósi en mundu að áætlanir geta tekið breytingum.

4. Deildu áformum þínum

Þó sumir búi yfir innri drifkrafti og einstakri athafnagleði er staðreyndin sú að flest okkar þurfa þónokkra aðstoð og eftirfylgni til að koma hlutunum í verk. Fjórða skrefið felst í því að láta aðra vita af áformum þínum. Með því að deila því sem þú ætlar þér, aukast líkurnar á að þú standir við stóru orðin. Það er margsannað að eftirfylgnin sem skapast með spurningum annarra, reynist oft sá meðbyr sem við þurfum til að ná markmiðum okkar.

5. Finndu nýjar leiðir til að ná markmiðinu

Í bók sinni Bold vitnar höfundurinn Stephen Kotler í nýjar rannsóknir á starfsemi heilans sem sýna að þegar áskorun er um 4% flóknari en núverandi geta okkar leyfir leysist úr læðingi einbeiting sem gerir okkur kleift að vaxa inn í aðstæðurnar. Sumir upplifa jafnvel að fyllast eldmóði og fá nýjar hugmyndir sem miða í átt að markmiðinu. Fimmta skrefið felst í því að setja markmiðið upp með þeim hætti að þú þurfir að vaxa til að ná því. Það er nefnilega þannig að fjárhagsleg markmið geta virkað sem hvati til persónulegs vaxtar.

Nýtt ár – ný fjármálahugsun

Ég skora á þig að spreyta þig í gerð fjármálamarkmiða á nýju ári. Það getur verið auðveldara að setja sér fjárhagsleg markmið þegar tilgangurinn er skýr, til dæmis þegar þú leggur fyrir til að fjármagna ákveðinn draum eða til að viðskiptahugmynd geti orðið að veruleika. Með því að skrifa niður markmiðin þín byggirðu brú frá þeim stað sem þú ert á núna og inn í framtíðina sem þú vilt skapa.

Annar kostur þess að setja sér fjárhagsleg markmið fyrir nýtt ár er að fjárhagsleg meðvitund eykst til muna. Markmiðasetningin gerir það að verkum að við beinum hugsunum okkar að fjármálunum frá degi til dags. Það er því til mikils að vinna!

Höfundur er leiðtogamarkþjálfi - eddacoaching.com

Þú gætir einnig haft áhuga á
Ungt fólk
5. apríl 2024
Hvað breytist við að verða fjárráða?
Þegar þú verður fjárráða berð þú ábyrgð á peningunum þínum og viðskiptasögu. Við þessi tímamót er gott að staldra við, kynna sér mikilvæg atriði um fjármálin sín og fá sem besta yfirsýn yfir hlutina.
Stúlkur á hlaupahjólum
15. mars 2024
Hvað á að gera við fermingarpeninginn?
Áður voru fermingargjafir oft eigulegir gripir sem hjálpuðu fermingarbarninu inn í nýtt tímabil ævinnar – skatthol, pennar, orðabækur, merkileg skáldverk, hljómtæki, tjöld, armbandsúr eða ferðatöskur.
Hjón úti í náttúru
12. mars 2024
Það gæti borgað sig að spara í sjóðum ef þú færð greiðslur frá TR
Þau sem fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins hafa mörg hver rekið sig á að fjármagnstekjur umfram ákveðna fjárhæð geta skert greiðslurnar. Það er eðlilegt að spyrja sig hvaða leiðir séu bestar fyrir sparnaðinn, sérstaklega eftir að vextir tóku að hækka, og hvernig best er að haga sparnaði með tilliti til fjármagnstekna.
Verðbréfasíða í netbanka
24. jan. 2024
Viltu ná árangri með eignadreifingu?
Okkur er oft ráðlagt að dreifa eignum okkar til þess að draga úr sveiflum. Viðkvæðið „ekki setja öll eggin í sömu körfuna“ stendur fyrir sínu, en með því að dreifa áhættunni getum við varið okkur gegn ófyrirséðu tapi af stökum fjárfestingum.
18. jan. 2024
Hvernig er fjármálaheilsan?
Við upphaf nýs árs er mjög algengt að fólk byrji í heilsuátaki, enda oft ekki vanþörf á eftir margra vikna sykurát og óhóflega neyslu á mat og drykk. Það er upplagt að nota tækifærið til að velta líka fyrir sér fjármálaheilsunni og setja sér markmið um að bæta fjármálin.
16. jan. 2024
Hægt að spara stórfé með því að leggja bílnum
Svigrúmið til að skera niður föst útgjöld heimilisins þannig að virkilega muni um er oft lítið. Eitt liggur þó betur við höggi en flest annað, nefnilega hinn rándýri einkabíll!
Verðbréf í appi
4. jan. 2024
Þetta er gott að vita áður en þú kaupir í sjóði
Fjárfesting í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er vinsæl leið til að ávaxta sparifé. Ef þú ert að velta fyrir þér að setja sparnaðinn þinn, eða hluta af honum, í sjóð er gott að þekkja nokkur lykilhugtök.
20. des. 2023
Hvað á að borga fyrir barnapössun?
Stundum þurfa foreldrar að skreppa eða geta ekki sótt börn á réttum tíma vegna vinnu eða náms. Frí í skólum eru líka lengri en sumarfrí foreldra og sumarnámskeið eru yfirleitt styttri en vinnudagur. Því þarf stundum að redda pössun. En hvað á að borga á tímann fyrir barnapössun?
Rafræn greiðsla
10. nóv. 2023
Hvað kostar að taka skammtímalán og dreifa greiðslunum?
Til að bera saman kjör á skammtímalánum er ekki nóg að horfa á vextina eða vaxtaprósentuna eina og sér heldur þarf að taka allan kostnað inn í reikninginn, svo sem lántökugjöld og greiðslugjöld. Á lánum sem fela í sér greiðsludreifingu er algengt að kjörin jafngildi 30-44% ársvöxtum. Og það er slatti!
2. nóv. 2023
Vantar þig fimmhundruðkalla?
Ertu á leiðinni með barnið í bekkjarafmæli og þarft að útvega nokkra fimmhundruðkalla í snatri? Við hjálpum þér að finna þá.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur