Elst­ir og tekju­hæst­ir en eyða mestu í fæði og hús­næði

Íslenskir háskólastúdentar eru þeir elstu í Evrópu, þeir eiga fleiri börn og eru með meiri tekjur en háskólastúdentar í öðrum Evrópuríkjum. Þeir búa lengur heima og kostnaður við fæði og húsnæði er tvöfalt hærri en Evrópumeðaltalið segir til um.
15. október 2018

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýlegri könnun um aðstæður til náms og félags- og efnahagslega stöðu námsmanna á háskólastigi í allri Evrópu á tímabilinu 2016-2018. Könnunin nær til 28 landa og sýnir niðurstöður allt frá Reykjavík til Tiblisi og frá Osló til Valletta.

Könnunin byggir á traustu samstarfi milli ríkjanna og rannsóknarteymin í hverju ríki fyrir sig eru yfirleitt kostuð af viðkomandi ráðuneytum. Í flestum ríkjum (25 af 28) var könnunin framkvæmd á netinu og á það við um íslensku könnunina.

Niðurstöður könnunarinnar ná yfir fjölmörg atriði í lífi námsmanna á háskólastigi, en hér verður sérstaklega litið til þeirra þátta þar sem Ísland var með sérstöðu. Í stöplaritunum sem fylgja greininni er sýnd niðurstaða fyrir sérhvert Norðurlandanna og meðaltal fyrir alla Evrópu.

Aldur

Námsmenn á Íslandi eru þeir elstu í könnuninni. Meðalaldur íslenskra námsmanna sem svöruðu var 29,7 ár. Næstelstir voru Svíar, 28,6 ára og meðalaldurinn fyrir alla Evrópu var 25 ár. 59% íslenskra námsmanna var eldri en 25 ára, 54% finnskra námsmanna og 32% námsmanna í Evrópu voru eldri en 25 ára.

Íslenskir námsmenn eiga fleiri börn

Íslenskir námsmenn voru líka með þá sérstöðu að eiga mun fleiri börn en aðrir námsmenn. Rúmlega 30% íslenskra námsmanna átti börn, hlutfallið var 20% í Noregi og meðaltalið fyrir alla Evrópu var 10%.

Húsnæðisstaða

Það kemur því ekki á óvart að íslenskir námsmenn eru með hæst hlutfall þeirra sem búa með maka eða börnum en sú er staðan hjá 41% íslenskra námsmanna. Norðurlöndin eru ekki langt undan hvað það varðar en meðaltalið fyrir Evrópu er 21%. Af Norðurlöndunum býr hæst hlutfall Íslendinga í foreldrahúsum, um 28%. Það er engu að síður mun lægra en í Evrópu allri þar sem 36% háskólanema búa í foreldrahúsum. Um 18% íslenskra háskólanema býr á stúdentagörðum sem er svipað og að meðaltali í Evrópu allri.

Tekjur

Tekjur íslenskra námsmanna eru þær hæstu í Evrópu. Í könnuninni er notast við mælikvarða um kaupmátt sem nefnist PPS (e. purchasing power parity). Þessi mælikvarði leiðréttir kaupmátt á milli landa þannig að niðurstaðan sýnir raunhæfan samanburð. Þessi mælikvarði er síðan notaður til þess að meta bæði tekjur og útgjöld.

Tekjur háskólanema á Íslandi voru að meðaltali 1.245 PPS sem er rúmlega 30% hærri tekjur en í Noregi þar sem tekjur eru næsthæstar. Tekjur háskólanema á Íslandi eru um 45% hærri en að meðaltali í Evrópu allri.

Sé litið á samsetningu tekna eru eigin tekjur hlutfallslega mestar á Íslandi og í Noregi eða um 45%. Meðaltal eigin tekna allra háskólanema í Evrópu er 34%. Tekjur frá fjölskyldu og maka eru hlutfallslega meiri hér á landi en á Norðurlöndunum, en mun minni en að meðaltali í Evrópu. Að sama skapi er opinber stuðningur sem hlutfall af heildartekjum minni hér en á Norðuröndunum og er hlutfallið svipað og að meðaltali í Evrópu.

Útgjöld

Útgjöld eru einnig mæld í PPS og það kemur ekki á óvart að þau eru hærri hér en annars staðar. Kostnaður við bæði fæði og húsnæði er þannig um tvöfalt meiri hér en að meðaltali í Evrópu. Húsnæðiskostnaður Norðmanna er rúmlega 70% af húsnæðiskostnaði á Íslandi. Fæðiskostnaður norskra háskólastúdenta er um 57% af fæðiskostnaði íslenskra stúdenta en Norðmenn eru næstir okkur í röðinni í báðum tilvikum.

Það er athyglisvert að hærra hlutfall bæði Dana og Norðmanna telja húsnæðiskostnað vera mikla byrði en íslenskir námsmenn gera, en líta verður til þess að tekjur íslenskra námsmanna eru líka hærri. Um 45% íslenskra háskólanema telja húsnæðiskostnað vera mikla byrði, en hlutfallið í Evrópu allri er 26%.

Ísland og Noregur hafa mjög mikla sérstöðu meðal Norðurlandanna hvað skólagjöld varðar. Um 98% íslenskra námsmanna greiða skólagjöld og 88% Norðmanna. Einungis 5% Dana og 2% Svía greiða skólagjöld. Meðaltalið fyrir alla Evrópu er 55%.

Hlutfallslega fleiri íslenskir námsmenn en aðrir telja fjárhagsstöðu sína erfiða. Um 34% íslenskra háskólanema telja stöðu sína annað hvort mjög alvarlega eða alvarlega. Danir og Norðmenn eru næstir í röðinni með 27-28%. Meðaltalið fyrir alla Evrópu er 26%. Meðal Norðurlandanna er staða Svía og Finna betri en annarra Norðurlandaþjóða.

Þátttaka á vinnumarkaði

Það kemur ekki á óvart að þátttaka íslenskra námsmanna á vinnumarkaði er meiri en í flestum öðrum löndum. Um 49% íslenskra háskólanema stundar reglulega vinnu samhliða námi, hlutfallið er 42% í Noregi og meðaltalið fyrir alla Evrópu er 35%. Að sama skapi stunda 32% íslenskra háskólanema enga vinnu, í Noregi er hlutfallið 33% og 49% meðal nemenda í Evrópu.

Nemendur voru spurðir hversu mikilvægt sé að vinna með námi. Um 73% norskra stúdenta sögðu að þeir gætu ekki stundað nám án þess að vera í launaðri vinnu og 71% íslenskra stúdenta eru sama sinnis. Finnar eru í svipaðri stöðu en einungis 33% sænskra stúdenta telur launaða vinnu forsendu fyrir námi. Meðaltalið fyrir alla Evrópu er 50%.

Vinnutími háskólanema

Vinnutími námsmanna er lengri hér á landi en annars staðar. Vinnuvika íslenskra háskólanema er að jafnaði 55 stundir á viku; þeir sitja í kennslustundum í 16 klukkutíma, 23 klukkustundir fara í sjálfsnám og 15 klukkustundir í launaða vinnu. Meðalvinnutími allra nema í Evrópu er 46 klukkustundir og staðan á Norðurlöndunum utan Íslands er svipuð. Af öðrum Norðurlöndum er vinnuvikan lengst í Danmörku og langstyst í Svíþjóð.

Íslenskir námsmenn eru síst ánægðir með þann tíma sem fer í heimanám en einungis 38% eru ánægð. Ánægja finnskra námsmanna er mest, 46%, en að meðaltali eru 44% evrópskra háskólanema ánægðir með þann tíma sem þeir nota til heimanáms.

Niðurstöður sem koma ekki á óvart

Ekki er hægt að segja að þessar niðurstöður um íslenska háskólanema og samanburð þeirra við aðra nema á Norðurlöndunum og í Evrópu komi sérstaklega á óvart. Nemendur í háskólanámi eru tiltölulega eldri hér en annars staðar í Evrópu, enda hefja þeir háskólanám yfirleitt seinna. Íslenskir nemendur eru líklegri til að búa með maka og börnum (enda orðnir eldri) og þeir eru virkari á vinnumarkaði en aðrir. Möguleikar íslenskra námsmanna til að afla sér tekna eru góðir og tekjur þar af leiðandi háar. Aftur á móti er kostnaður vegna fæðis og húsnæðis líka mikill en staðan er þó ekki mjög frábrugðin því sem þekkist í sumum öðrum löndum.. Mat þeirra á fjárhagslegri stöðu sinni er verra en meðaltal Evrópu segir til um en er ekki verulega frábrugðið viðhorfi annarra norrænna háskólastúdenta. Líkt og á við um flesta aðra hópa Íslendinga eru íslenskir námsmenn mjög virkir á vinnumarkaði og vinnutími þeirra er langur. Stundum er sagt við stúdenta að nám sé vinna. Flestir gera greinilega hvort tveggja; nema og vinna.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Verðbréfasíða í netbanka
24. jan. 2024
Viltu ná árangri með eignadreifingu?
Okkur er oft ráðlagt að dreifa eignum okkar til þess að draga úr sveiflum. Viðkvæðið „ekki setja öll eggin í sömu körfuna“ stendur fyrir sínu, en með því að dreifa áhættunni getum við varið okkur gegn ófyrirséðu tapi af stökum fjárfestingum.
18. jan. 2024
Hvernig er fjármálaheilsan?
Við upphaf nýs árs er mjög algengt að fólk byrji í heilsuátaki, enda oft ekki vanþörf á eftir margra vikna sykurát og óhóflega neyslu á mat og drykk. Það er upplagt að nota tækifærið til að velta líka fyrir sér fjármálaheilsunni og setja sér markmið um að bæta fjármálin.
16. jan. 2024
Hægt að spara stórfé með því að leggja bílnum
Svigrúmið til að skera niður föst útgjöld heimilisins þannig að virkilega muni um er oft lítið. Eitt liggur þó betur við höggi en flest annað, nefnilega hinn rándýri einkabíll!
Verðbréf í appi
4. jan. 2024
Þetta er gott að vita áður en þú kaupir í sjóði
Fjárfesting í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er vinsæl leið til að ávaxta sparifé. Ef þú ert að velta fyrir þér að setja sparnaðinn þinn, eða hluta af honum, í sjóð er gott að þekkja nokkur lykilhugtök.
20. des. 2023
Hvað á að borga fyrir barnapössun?
Stundum þurfa foreldrar að skreppa eða geta ekki sótt börn á réttum tíma vegna vinnu eða náms. Frí í skólum eru líka lengri en sumarfrí foreldra og sumarnámskeið eru yfirleitt styttri en vinnudagur. Því þarf stundum að redda pössun. En hvað á að borga á tímann fyrir barnapössun?
Rafræn greiðsla
10. nóv. 2023
Hvað kostar að taka skammtímalán og dreifa greiðslunum?
Til að bera saman kjör á skammtímalánum er ekki nóg að horfa á vextina eða vaxtaprósentuna eina og sér heldur þarf að taka allan kostnað inn í reikninginn, svo sem lántökugjöld og greiðslugjöld. Á lánum sem fela í sér greiðsludreifingu er algengt að kjörin jafngildi 30-44% ársvöxtum. Og það er slatti!
2. nóv. 2023
Vantar þig fimmhundruðkalla?
Ertu á leiðinni með barnið í bekkjarafmæli og þarft að útvega nokkra fimmhundruðkalla í snatri? Við hjálpum þér að finna þá.
Netbanki
15. sept. 2023
Hægt að lækka eða komast hjá þjónustugjöldum
Þú borgar ekkert fyrir grunnþjónustu í appinu og netbankanum og þú getur komist hjá því að greiða þjónustugjöld eða lækkað þau með því að velja ódýrari eða gjaldfrjálsar þjónustuleiðir sem eru í boði hjá Landsbankanum.
Ungt fólk
8. sept. 2023
Hvað breytist við að verða fjárráða?
Þegar þú verður fjárráða berð þú ábyrgð á peningunum þínum og viðskiptasögu. Við þessi tímamót er gott að staldra við, kynna sér mikilvæg atriði um fjármálin sín og fá sem besta yfirsýn yfir hlutina.
5. sept. 2023
Hvaða áhrif hafa vaxtahækkanir á lánin mín?
Hærri stýrivextir leiða til þess að vextir og mánaðarleg greiðslubyrði á lánum sem eru með breytilega vexti hækka. Þetta á meðal annars við um neytendalán á borð við yfirdrátt og greiðsludreifingu á kreditkortum en mestu munar þó yfirleitt um íbúðalánin.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur